Lán Yfirdráttur er með dýrustu lánum sem fást, en vextir á þeim eru í kringum fjórtán prósent og verðtryggðir.
Lán Yfirdráttur er með dýrustu lánum sem fást, en vextir á þeim eru í kringum fjórtán prósent og verðtryggðir. — Morgunblaðið/Kristinn
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Leiða má að því líkur að nýju bankarnir hafi keypt yfirdrátt heimilanna af gömlu bönkunum með 40 prósenta afslætti, að sögn Breka Karlssonar, forstöðumanns Stofnunar um fjármálalæsi.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Leiða má að því líkur að nýju bankarnir hafi keypt yfirdrátt heimilanna af gömlu bönkunum með 40 prósenta afslætti, að sögn Breka Karlssonar, forstöðumanns Stofnunar um fjármálalæsi.

Seðlabankinn birti í síðustu viku bráðabirgðagögn um reikninga íslenska bankakerfisins og er það í fyrsta sinn frá bankahruni sem þessar tölur eru birtar. Kemur þar fram að í september 2008 námu yfirdráttarlán hjá íslenskum bönkum 251,5 milljörðum króna. Þremur mánuðum síðar, eða í desember sama ár, nemur yfirdráttur í bókum bankanna 129,7 milljörðum króna.

Breki sendi Seðlabankanum fyrirspurn um hvernig stæði á þessu. „Svarið var að Seðlabankinn færir yfirdráttarlán ekki sem stöðu gagnvart viðskiptavinum bankanna, heldur eins og þau eru bókfærð í bönkunum. Gögn Seðlabankans sýna þess vegna ekki hvort krafa bankanna á viðskiptavini og heimili í formi yfirdráttar hefur hækkað, heldur aðeins hver bókfærð staða hjá bönkunum er.“

Ýmsar ástæður geta legið fyrir því af hverju yfirdrátturinn er bókfærður lægri en sem nemur heildarkröfum á viðskiptavini. Hluti af yfirdrættinum gæti hafa verið hjá erlendum aðilum og þar með ekki flust yfir á nýju bankana og þá getur verið að bankarnir hafi farið varlega í að bókfæra yfirdrátt vegna þess að óvissa hafi verið um heimtur á lánunum.

Breki segir hins vegar að sé gert ráð fyrir því að nýju bankarnir hafi fengið yfirdráttarlánin á 40 prósenta afslætti hafi verið um mjög góða fjárfestingu að ræða fyrir bankana, því hann hafi ekki séð neitt sem bendi til þess að viðskiptavinum bankanna hafi verið veittur afsláttur af skuldum sínum við stofnanirnar.

„Þegar verðbólgan var sem mest báru yfirdráttarlán vexti upp á tuttugu prósent eða meira og eru bankarnir því ekki lengi að vinna upp fjárfestinguna, þegar höfuðstóllinn er fenginn með afslætti.“

Vextir á yfirdráttarlánum einstaklinga eru hjá nýju bönkunum þremur á bilinu 13,75-14 prósent og eru verðtryggðir. Hverjar 100 krónur í útlánum hjá bönkunum á þessum krónum skila þeim því um fjórtán krónum á ári og við það bætast svo áhrif verðbólgu. Ef viðkomandi banki hefur fengið kröfuna á sextíu krónur gæti ávöxtunin því numið ríflega 30 prósentum á ári eða meira.

Yfirdráttarlán í bankakerfinu

» Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands námu yfirdráttarlán bankakerfisins 251,5 milljörðum króna í september 2008.
» Í desember sama ár námu yfirdráttarlán bankanna 129,7 milljörðum króna og í desember 2009 voru þau 124,9 milljarðar.
» Yfirdráttarlán í erlendri mynt hjá íslenskum bönkum námu í september 2008 110,7 milljörðum króna, en í desember sama ár voru þau 55,3 milljarðar.