Evrópa Óræð tákn geta verið um óvænta hluti á fjármálamörkuðum.
Evrópa Óræð tákn geta verið um óvænta hluti á fjármálamörkuðum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Í venjulegu árferði leggja bankar nokkur hundruð milljónir evra inn á daglánareikinga Evrópska seðlabankans. Á fimmtudag lögðu þeir hinsvegar inn 305 milljarða evra.

Fréttaskýring

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Í venjulegu árferði leggja bankar nokkur hundruð milljónir evra inn á daglánareikinga Evrópska seðlabankans. Á fimmtudag lögðu þeir hinsvegar inn 305 milljarða evra.

Fáheyrt er að bankar noti sér þetta í þessum mæli enda eru vextir á slíkum reikningum lægri en bönkum standa til boða annars staðar.

Þetta er ótvírætt merki um vaxandi streitu á evrópskum fjármálamörkuðum. Slík merki er að finna víðar. Þannig hafa vextir á millibankamörkuðum hækkað að undanförnu. Þó svo að ekki sé um að ræða sambærilegar hækkanir og áttu sér stað haustið 2008, bendir þetta til vaxandi áhættufælni og áhyggna af aukinni endurgreiðsluáhættu.

Samt er ýmislegt sameiginlegt með vandanum sem hefur skapast á fjármálamörkuðum undanfarið vegna skuldastöðu evruríkja á borð við Grikkland og þeirri skjálftavirkni sem vart varð við þegar mönnum varð ljóst að verðmat fjármálagerninga sem tengdust bandaríska fasteignamarkaðnum var í litlum tengslum við raunveruleikann. Vaxandi áhættufælni og ótti við endurgreiðsluáhættu leiðir til þess að menn kjósa að halda að sér höndum og virkni markaða dregst saman.

Í þessu samhengi er vert að taka fram að streitumerkin á mörkuðum nýverið eru að koma fram þrátt fyrir að Evrópski seðlabankinn hafi gripið til sértækra aðgerða til þess að stemma stigu við lausafjárskorti.

Sá reginmunur er hinsvegar á vandanum sem hófst árið 2007 vegna bandarísku undirmálslánanna og stöðu mála um þessar mundir í Evrópu að það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir hvaða bankar eru með stórar stöður í þeim ríkisskuldabréfum evrusvæðisins, sem hafa verið að falla í verði, ólíkt því sem gerðist með fjármálgerningana í fasteignalánunum. Evrópskir bankar eiga stærstu stöðurnar og þá sérstaklega þýskir og franskir bankar.

Þrátt fyrir neyðarlán til Grikklands og stofnun gríðarstórs björgunarsjóðs hefur aðildarríkjum Evrópusambandsins ekki tekist að lægja öldurnar og óvissuna um hvort grísk stjórnvöld geti staðið í skilum á opinberum skuldum sem nema ríflega 120% af landsframleiðslu. Í sjálfu sér ætti neyðarlánið að draga úr líkunum á að þau geti það, þar sem það leiðir til þess að skuldahlutfallið verði komið í um 140% innan fárra ára.

Greiðslufall gríska ríkisins og afskriftir skulda myndi leggjast þungt á mikilvæga banka á evrusvæðinu. Eflaust myndi slíkt leiða til þess að fjárfestar myndu losa sig unnvörpum við skuldabréf annarra skuldsettra evruríkja og það myndi magna upp vandræðin til muna.

Það er því ekki að furða að margir líta fyrst og fremst á björgunarpakkann sem var samþykktur á dögunum sem tilraun til þess að standa vörð um stoðir bankakerfisins í Evrópu.

En vandamálið felst í því að fjárfestar hafa takmarkaða trú á því að komist verði hjá afskriftum grískra ríkisskulda og að óbein trygging ESB á skuldum verst stöddu evruríkjanna muni standa þegar mest á reynir. Þar sem björgunarsjóðurinn verður fjármagnaður af sérstöku fjárfestingafélagi (e. special purpose vehicle) undir hatti framkvæmdastjórnarinnar og með tryggingu aðildarríkjanna liggur skuldbindingin utan efnahagsreikings enn sem komið er. Ljóst má vera að þegar og ef leitað verður til sjóðsins munu fjárfestar taka tillit til þessa þegar þeir vega og meta skuldastöðu annarra evruríkja með viðeigandi áhrifum á þróun mála á skuldabréfamörkuðum. Af þessu má vera ljóst að evrópska bankakerfið stendur frammi fyrir djúpstæðum va

EVRÓPSKIR BANKAR

Áhættufælni og útlán

Hækkunin undanfarið hefur átt sér stað á sama tíma og hægt hefur á útlánum evrópskra banka. Eins og bent er á í umfjöllun Dow Jones -fréttaveitunnar drógust útlán evrópskra banka til fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja saman um 2,4% á ársgrundvelli í marsmánuði. Fastlega er búist við því að tölur fyrir apríl, sem verða birtar á mánudag, muni sýna áframhaldandi samdrátt.

Þetta er skýr vísbending um að ekki sé enn mikill kraftur í einkageiranum á evrusvæðinu og hann því ekki líklegur til að standa undir miklum hagvexti. Hagvöxtur á evrusvæðinu mældist aðeins 0,2% fyrstu þrjá mánuði ársins.

Haldi vextir áfram að hækka á millibankamarkaði munu hærri vextir á endanum leggjast ofan á lítið framboð á útlánum til einkageirans og það kann að grafa enn frekar undan hagvaxtarhorfum evrusvæðisins.