Minkrækt Sigurður Jónsson, Þorbjörn Sigurðsson, Sigurður Ágústsson og Bragi Líndal Ólafsson hafa hug á því að auka hlut innlends fóðurs í minkarækt. Þeir eru í minkahúsinu í Ásgerði þar sem 3000 minkalæður ala upp hvolpa.
Minkrækt Sigurður Jónsson, Þorbjörn Sigurðsson, Sigurður Ágústsson og Bragi Líndal Ólafsson hafa hug á því að auka hlut innlends fóðurs í minkarækt. Þeir eru í minkahúsinu í Ásgerði þar sem 3000 minkalæður ala upp hvolpa. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Kornrækt hefur aukist mjög á undanförnum árum og taldir eru möguleikar til að fjórfalda hana. Það myndi samsvara öllu kjarnfóðri sem nú er flutt til landsins.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Kornrækt hefur aukist mjög á undanförnum árum og taldir eru möguleikar til að fjórfalda hana. Það myndi samsvara öllu kjarnfóðri sem nú er flutt til landsins. Til þess að nýta 60 þúsund tonna framleiðslu þarf hins vegar að þróa frekari úrvinnslu. Áhugi er meðal loðdýrabænda sem aðstöðu hafa til að rækta bygg að láta hitameðhöndla kornið þannig að það henti til fóðrunar minka og erlendar rannsóknir sýna að það nýtist einnig unggrísum og kálfum.

Íslenska byggið er aðallega notað í fóður fyrir mjólkurkýr og er þá ýmist súrsað eða þurrkað og valsað. Þá fer nokkuð til framleiðslu í brauðgerðarhúsum og tilraunir hafa verið gerðar með mölun og pökkun í neytendaumbúðir.

Mikið er flutt inn af fóðurkorni, ekki síst fyrir nautgripi, svín og hænsni.

Þarf að hita og sprengja byggið

Loðdýrabændur og svínabændur hafa tekið þátt í kornræktarbyltingunni með kúabændum enda þurfa þeir að koma úrgangi frá dýrunum í lóg og hann nýtist vel sem áburður á akra. Byggið nýtist þó ekki að fullu og þarf að gefa innflutt fóðurkorn með.

„Við reyndum að nota kornið okkar eingöngu en náðum ekki nógu góðum árangri. Dýrin urðu ekki nógu stór og við höfum því flutt inn sérstaklega meðhöndlað bygg og notað til helminga á móti okkar uppskeru,“ segir Sigurður Jónsson, minkabóndi í Ásgerði í Hrunamannahreppi.

Bragi Líndal Ólafsson fóðurfræðingur skýrir þetta með því að benda á að minkarnir séu rándýr með stuttan meltingarveg og þau hafi takmarkaða möguleika til að melta kornfóður.

Í dönskum fóðurverksmiðjum er byggið hitameðhöndlað og sterkjan sprengd á svipaðan hátt og þegar kornflex er búið til. Síðan er það valsað. Þannig verður það meltanlegra fyrir loðdýrin og vatnsdrægnin eykst sem eykur samloðun en það er kostur þegar verið er að laga loðdýrafóður.

Gagnast grísum og kálfum

Sigurður og Þorbjörn sonur hans í Ásgerði, Bragi og Sigurður Ágústsson í Birtingaholti fóru til Danmerkur í vetur til að kynna sér þessa framleiðslu og gerðu bændum grein fyrir athugunum sínum á fundi á Flúðum. Sigurður er með kornþurrkunarstöð í Birtingaholti og þeir félagarnir hafa verið að kanna hvort sú aðstaða gæti komið að notum, með viðbótartækjum, við uppbyggingu á lítilli verksmiðju til að hitameðhöndla bygg fyrir loðdýr og fleiri húsdýr. Kornið þarf að bleyta fyrir þessa framleiðslu þannig að kostnaður við þurrkun sparast.

Talið er loðdýraræktin noti nú 300 til 400 tonn af byggi og hveiti á ári og er hluti þess valsað og hitameðhöndlað bygg sem er dýrt fóður hingað komið. Talið er hagkvæmt að framleiða þetta fóður hér og sérstaklega myndu þeir loðdýrabændur sem sjálfir hafa aðstöðu til að rækta korn hafa áhuga á því. Sú framleiðsla myndi hins vegar ekki duga til að standa undir fjárfestingu í nauðsynlegum tækjabúnaði og rekstri. Því hefur verið litið til annarra búgreina sem nota innflutt korn.

Bragi bendir á að hitameðhöndlað bygg myndi gagnast öðrum skepnum, ekki síst ungviði þar sem meltingarvegur er tiltölulega óþroskaður. Nefnir hann að hagstætt sé að gefa grísum þetta fóður fyrstu 6-7 vikurnar og gyltunum á meðgöngu. Rannsóknir sýni að grísir vaxi hraðar þegar þeir hafa aðgang að þessu fóðri með mjólkinni og eftir fráfærur. Sama gildi um ungkálfa sem fái nú innflutt kjarnfóður. Hins vegar er ekki talið að þetta fóður gagnist hænsnum sem fá aðallega innflutt hveiti, maís og soja. Erlendis hafa verið þróaðar aðferðir til að gera bygg hæft til að gefa hænsnfuglum.

Þarf að reikna til enda

Samkvæmt fyrstu áætlun gæti tækjabúnaður til að framleiða þetta fóður kostað 15-20 milljónir kr. Bragi segir að vega þurfi stofnkostnaðinn við að koma upp aðstöðunni á móti hagræðinu sem hægt er að ná. „Það dæmi hefur ekki verið reiknað til enda,“ segir hann.

„Svínabændur hafa sýnt áhuga á þessu og ef kúabændur sem sjálfir rækta korn vildu nýta þessa aðstöðu væri kominn grundvöllur fyrir þessari framleiðslu,“ segir Sigurður Jónsson.

FJÖLSKYLDAN Í ÁSGERÐI REKUR EIGIN FÓÐURSTÖÐ

Gætu tvöfaldað notkun á heimaræktuðu korni

Feðgarnir Sigurður Jónsson og Þorbjörn Sigurðsson hafa lagað eigið fóður fyrir minkabú fjölskyldunnar í Ásgerði í fjórtán ár. „Við fáum gott fóður, það sést á því að við náum bestu skinngæðum,“ segir Þorbjörn.

Þeir nota kjúklinga- og fiskafskurð við fóðurgerðina, einnig eigið og innflutt bygg. Innflutta kolvetnið er dýrasti hluti hráefnisins og því hafa þeir áhuga á að nota meira korn sem þeir rækta sjálfir. „Ef hægt væri að hitameðhöndla byggið og sprengja hér heima gætum við tvöfaldað kornræktina,“ segir Þorbjörn. Þeir feðgar eru nú með 7 til 8 hektara undir en gætu með góðu móti ræktað á 15 ha lands.

Um 3.000 minkalæður eru í búinu í Ásgerði. Læðurnar gutu í byrjun mánaðarins og framundan eru annatímar í búrekstrinum. Færa þarf hvolpana frá og þeir þurfa mikið fóður í sumar.

Afkoma þeirra minkabænda sem eftir eru í landinu hefur batnað mjög á síðustu misserum. Mestu munaði um lækkun á gengi íslensku krónunnar en til viðbótar hefur skinnaverð á heimsmarkaði hækkað að undanförnu. „Þetta mátti alveg lagast. Ekki var hægt að spara meira því maður var búinn að ganga svo nærri sér að ekki var hægt að setja fleiri göt í beltið,“ segir Sigurður í Ásgerði.

helgi@mbl.is

Kornræktin eykst

» Kornrækt hefur aukist og skilar nú um 16 þúsund tonna uppskeru á ári. Meginhlutinn er bygg.
» Sérfræðingar telja unnt að þre- til fjórfalda uppskeruna. Fjórföldun þýðir yfir 60 þúsund tonna framleiðslu á ári. Samsvarar það öllu kjarnfóðri sem flutt er inn til landsins.
» Til þess að unnt sé að stórauka kornræktina þarf fjölbreyttari úrvinnslu byggs sem nú er mest notað sem kjarnfóður í kýr. Möguleikarnir liggja ekki síst í aukinni notkun í loðdýrarækt, svínarækt og nautgriparækt.