Ásgerður Halldórsdóttir
Ásgerður Halldórsdóttir
Eftir Ásgerði Halldórsdóttur: "Á laugardaginn verður kosið um nýja bæjarstjórn á Seltjarnarnesi. Málefnastaða okkar sjálfstæðismanna er sterk og slagorðið Lífsgæðin eru á Nesinu endurspeglar hversu umhugað okkur er um að halda áfram að vinna í þágu allra bæjarbúa næstu fjögur ár."

Á laugardaginn verður kosið um nýja bæjarstjórn á Seltjarnarnesi. Málefnastaða okkar sjálfstæðismanna er sterk og slagorðið Lífsgæðin eru á Nesinu endurspeglar hversu umhugað okkur er um að halda áfram að vinna í þágu allra bæjarbúa næstu fjögur ár.

Síðastliðinn tvö ár hafa verið erfið í rekstri bæjarins, í kjölfar bankahrunsins. Seltjarnarnes hefur orðið fyrir miklum samdrætti í útsvarstekjum, sérstaklega árið 2009. Við völdum að halda okkar striki, halda óbreyttu útsvari en um leið tryggja gott þjónustustig. Við fórum í átak í sumarvinnu fyrir unga fólkið í fyrra og ætlum að endurtaka það í ár. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika er fjárhagsstaða bæjarins afar sterk, hreinar skuldir á íbúa í árslok 2009 námu 214 þús. á sama tíma og þær eru 1.359 þús. á hvern íbúa í Hafnarfirði.

Í fyrsta sinn í fjölda ára etjum við kappi við þrjú mótframboð, sem áður voru saman undir nafni N-listans, sem undirstrikar ósamlyndið í röðum gamla N-listans. Með útúrsnúningum og rangri framsetningu talna reyna framboðin að draga úr trúverðugleika og heilindum okkar sjálfstæðismanna. Ég trúi því að kjósendur sjái í gegnum slíkt og veiti okkur áframhaldandi umboð á næsta kjörtímabili til að stýra bænum. Framundan er spennandi kjörtímabil sem við frambjóðendur hlökkum til að takast á við af festu og varkárni, fáum við til þess ykkar umboð á laugardaginn kemur.

Höfundur er bæjarstjóri og skipar 1. sæti á lista sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.

Höf.: Ásgerði Halldórsdóttur