Víkverji er alveg klár á því að Hera Björk Þórhallsdóttir og félagar hennar í hinu þverfaglega Evróvisjónteymi Íslands muni gera það gott í kvöld.

Víkverji er alveg klár á því að Hera Björk Þórhallsdóttir og félagar hennar í hinu þverfaglega Evróvisjónteymi Íslands muni gera það gott í kvöld. Það er kannski ekki alveg gulltryggt að þau sigri, en svo mikið er víst að þau verða einhvers konar sigurvegarar. Víkverji spáir Heru sjötta sætinu.

Eftir að hafa verið frekar hlutlaus gagnvart laginu „Sju ni sé hva“ síðan það heyrðist fyrst á öldum ljósvakans er Víkverji orðinn tryggur meðlimur í klappliði Heru Bjarkar eftir frammistöðuna í undanriðlinum. Áhuginn var meira að segja svo lítill að þegar keppnin fór fram á þriðjudag ákvað Víkverji að tíma sínum væri betur varið í sundi, heldur en að horfa. Þegar komið var úr sundi var endursýningin á skjánum og Víkverji heillaðist á stundinni.

Í fyrsta lagi var þessi evróklúbbateknóviðbót í byrjun lagsins á þriðjudag sérlega vel til fundin og skrúfaði stuðstigið í laginu upp um nokkra punkta. Fyrir þá breytingu hefði verið „mjög gaman“ í teiti þar sem lagið hefði fengið að hljóma. Eftir þá breytingu getur ekki verið annað en „tryllt stuð“ í teiti þar sem lagið er leikið.

Í öðru lagi flutti Hera Björk erindi sitt við heiminn með svo óaðfinnanlegum og heillandi hætti að ekki var annað hægt en að hrífast með. Hera er söngkona af guðs náð.

Þess má þó geta að Víkverji er ósáttur við að Íslendingar syngi ekki á íslensku í keppninni, enda hefur hann mun meira gaman af því að hlusta á íslenskan söng en erlendan. Hann áskilur sér því allan rétt til að syngja með á íslensku en ekki ensku. Textinn er enn í smíðum og nokkuð erfitt að finna orð sem passa við hljóm þeirra erlendu. Hægt er að upplýsa það á þessum tímapunkti að í viðlaginu syngur Víkverji „Guðný sér hval, óhó!“