Bjarni Ákason
Bjarni Ákason
Eftir Bjarna Ákason: "Við þurfum að kenna börnum okkar gagnrýna hugsun, ekki síður á Netinu en á öðrum vettvangi lífsins."

Umræðan um netöryggi barna og þær gildrur og hættur sem leynst geta á Netinu, hefur farið vaxandi á síðustu misserum. Það er vel, því staðreyndin er sú að hættur og ógnanir eru svo sannarlega fyrir hendi á Netinu, líkt og víðast hvar annars staðar þar sem mannfólkið ferðast um, hvort sem það er í raunveruleikanum eða í sýndarveruleika tölvuheima. Fréttir síðustu daga af hrottalegum níðingsskap gegn börnum í gegnum samskiptasíðuna Facebook staðfesta enn frekar hversu mikilvægt er fyrir foreldra að halda vöku sinni gegn slíkri ógn.

SAFT

Vakningarátakið SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni, sem er aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er stýrt af Heimili og skóla – landssamtökum foreldra, hefur aukið mjög meðvitund og þekkingu foreldra á netnotkun barna og unglinga og gert þá meðvitaðri um þær hættur sem leynast á Netinu og hvernig hægt sé að auka þroska, ábyrgð og siðferðisvitund barnanna þegar kemur að netnotkun og samskiptum þeirra við annað fólk á Netinu. Eiga samtökin mikið hrós skilið fyrir að leiða þetta átak af skörungsskap og ábyrgð.

Eigendur og stjórnendur Apple á Íslandi hafa fylgst glöggt með þessu verkefni og allri annarri umræðu um netöryggi. Ástæðan er einföld; Apple hefur alla tíð verið mjög umhugað um að sýna ábyrgð í framleiðslu sinni og gildir það ekki síður um ábyrgð gagnvart netnotkun barna og unglinga eins og annað sem snýr að tölvum og samskiptum í gegnum tölvur og netheima. Apple hefur t.a.m. verið í fararbroddi þeirra sem barist hafa gegn stuldi á tónlist og kvikmyndum og öllu höfundarréttarvörðu efni. Apple var á sínum tíma í algerum fararbroddi þegar kom að íslenskun hugbúnaði fyrir innlendan markað og allar tölvur Apple hafa um langt skeið haft innbyggða Foreldrastjórnun (e. Parental Control) í hugbúnaði sínum.

Foreldrastjórnun

Foreldrastjórnun á Apple-tölvum er auðvelt tæki til að fylgjast með og stjórna netnotkun barna og unglina. Foreldrar geta stofnað sérstakan aðgang fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Hægt er að skilgreina nákvæmlega hvaða netföng hver einstakur notandi hefur aðgengi að, hvaða vefsíður hann getur heimsótt og hvaða einstaklinga hann getur spjallað við á spjallsíðum. Þá er ennfremur hægt að skammta hverjum og einum ákveðið margar stundir á sólarhring sem hann getur verið á Netinu (eða í tölvunni). Með þessum hætti geta foreldrar haft giska góða stjórnun á netnotkun barna sinna.

Hitt er annað mál að börn og unglingar eru alla jafna fljót að læra og tileinka sér nýjustu tækni og því geta þau verið snögg að læra hvernig hugsanlega megi snúa á slíka „foreldrastjórnun“. Það leiðir okkur að þeim þætti sem við hjá Apple teljum allra mikilvægastan í að tryggja netöryggi barna og unglinga. Það er að byggja upp gott siðferði barna okkar og kenna þeim ákveðnar umferðar- og samskiptareglur á Netinu. Staðreyndin er nefnilega sú að tímarnir breytast og mennirnir með og þess vegna þurfum við sífellt að taka mið af nýjum heimi, ekki síst þegar við ölum upp börnin okkar sem erfa munu þennan nýjan heim. Undirritaður minnist þess að hafa sem ungur drengur vaknað fyrir allar aldir, einungis 8-9 ára og þrammað niður í miðbæ til að bera út blöð. Það þótti sjálfsagt mál á þeim tíma. Það er tæpast til það foreldri sem í dag myndi hleypa 9 ára gutta út á myrkum vetrarmorgni til að fara að bera út blöð í miðborg Reykjavíkur. Nei, það myndum við í raun telja hið mesta hættuspil og vera skýrt merki um óábyrgt uppeldi. Við kennum börnum okkar að fara með gát í samskiptum við ókunnuga, að þiggja ekki gjafir eða sælgæti frá ókunnugum og þar fram eftir götunum. Á svipaðan hátt þurfum við að ala börnin okkar upp gagnvart Netinu. Við þurfum að kenna börnum okkar hvað beri að varast og við hverja sé í lagi að spjalla við og hverja ekki. Við þurfum að kenna börnum okkar að veita ekki hverjum sem er persónulegar upplýsingar og við þurfum að kenna börnum okkar gagnrýna hugsun, ekki síður á Netinu en á öðrum vettvangi lífsins. Síðast en ekki síst eigum við sem foreldrar að byggja upp traust á milli okkar og barna okkar, þannig að við getum verið viss um að barnið sé ekki að feta vafasamar brautir í Netheimum og við getum verið viss um að börnin okkar leiti til okkar þegar þau þurfa á leiðsögn okkar og vernd að halda.

Samstarf Apple og foreldra

Netnotkun barna og unglinga er vandmeðfarin og viðkvæm og getur oft rænt ábyrgðarfulla foreldra svefni og fjölgað gráum hárum á höfðum þeirra. Á vef SAFT (saft.is) geta foreldrar fundið mörg heilræði sem stuðla að uppbyggilegri og jákvæðri netnotkun barna og unglinga. Við hjá Apple á Íslandi ætlum ekki að láta okkar eftir eftir liggja í þessum þarfa málaflokki og höfum því ákveðið að bjóða foreldrum að sækja námskeið hjá okkur á næstu vikum og mánuðum þar sem veitt verða ráð og heilræði sem tryggja jákvæða, örugga og uppbyggilega netnotkun barna okkar.

Við hvetjum foreldra til að nýta sér þetta tækifæri til að fræðast og læra að byggja upp ábyrgðarfulla netnotkun barna okkar. Hægt verður að skrá sig á námskeiðin á vef fyrirtækisins, epli.is.

Höfundur er framkvæmdastjóri Apple á Íslandi.