Það er sannarlega ekki tekið út með sældinni að eldast, jafnvel þó að það gerist hægt og líkamlega nánast ósýnilega. Gott dæmi um það er maður á besta aldri sem ég þykist þekkja.

Það er sannarlega ekki tekið út með sældinni að eldast, jafnvel þó að það gerist hægt og líkamlega nánast ósýnilega. Gott dæmi um það er maður á besta aldri sem ég þykist þekkja.

„Þú ert með of háan blóðþrýsting, gæskur,“ sagði heimilislæknirinn við þennan jafnaldra fermingarbræðra minna.

– Hvað gerum við í því?

„Við grípum til þess ráðs að ég skrifa lyfseðil og þú tekur eina töflu á dag.“

– Fínt. Mjög fínt. Ekkert vesen.

„Þessu geta reyndar fylgt aukaverkanir. Mér finnst rétt að þú kynnir þér þær vel.“

Eiginkona mín þekkir umræddan mann enn betur en ég. Ákvað því að glugga í bæklinginn sem fylgdi með lyfinu. Taldi óvíst að sjúklingurinn myndi eftir því þrátt fyrir tilmæli frá lækninum.

„Höfuðverkur, máttleysi, sundl og þreyta,“ les hún stundarhátt við eldhúsborðið.

Ég sit á bak við Morgunblaðið en skynja glottið.

„Ertu viss um að þú sért ekki með þetta lyf nú þegar?“

Svo heldur hún áfram:

„Ógleði, lystarleysi, niðurgangur og magaverkir. Útbrot og kláði í húð. Hjartsláttartruflanir. Mæði. Hækkun blóðsykurs, aukið magn þvagsýru í blóði og hækkun kalíums í blóði. Verkir í útlimum.“

Hún hlær.

„Var þér ekki illt í einhverjum útlim í síðustu viku? Og ekki hefurðu borðað mikið.“

– Hættu þessu rugli kona. Ég held þú ættir þá frekar að hafa áhyggjur af þinni eigin eldamennsku en lystarleysi mínu.

„Sjaldgæfar aukaverkanir eru vont bragð í munni, munnþurrkur, uppköst, máttleysi, hægðatregða, vindgangur og...“

– Þarna sérðu. Þetta á a.m.k. ekki við um mig.

„...meltingartruflanir. Aukin starfsemi hjartans og brjóstverkur við áreynslu. Blóðþrýstingsfall í uppréttri stöðu...“

– Sko! Önnur staðfesting á því að þetta á sem betur fer ekki við mig. Ég hef aldrei fengið blóðþrýstingsfall í uppréttri stöðu.

Hún gefur sig ekki: „Nefstíflur og hiksti. Ofþornun líkamans, þorsti, þvagsýrugigt.“

Ég fæ mér sopa, snýti mér varlega og bið hana fallega um að hætta. Hiksta svo smá.

„Þú verður að láta lækninn vita,“ segir hún og lýkur lestrinum: „Vöðvakrampar, liðverkir, brjóst- og bakverkir. Getuleysi. Svefntruflanir, taugaóstyrkur, þunglyndi og rugl.“

– Hvað sagðirðu?!

„Þunglyndi og rugl.“

– Eitthvað fleira í fréttum? Það er ekkert skrýtið þó eitthvað passi en ég meinti þar rétt á undan.

„Getuleysi, svefntr...“

Ég sá að nú var hún líka sannfærð. Aukaverkanirnar vegna lyfsins eiga greinilega ekki við mig. skapti@mbl.is

Skapti Hallgrímsson