Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Nú, þegar sveitarstjórnarkosningar standa fyrir dyrum, berast þær fréttir í orkumálum að erlent fyrirtæki er að ná undirtökum í sumum af helstu orkuframleiðslufyrirtækjum landsins; og virðist ekkert lát á."

Nú, þegar sveitarstjórnarkosningar standa fyrir dyrum, berast þær fréttir í orkumálum að erlent fyrirtæki er að ná undirtökum í sumum af helstu orkuframleiðslufyrirtækjum landsins; og virðist ekkert lát á. Lög, fjármagn, vilja, vitund og samstöðu stjórnmálaflokka virðist skorta til að stöðva þróunina. Því virðist lag að frambjóðendur flokkanna til sveitarstjórna, lofi því að sporna við þessari þróun, í nafni sjálfstæðis, áður en erlendu aðilarnir komast í fákeppnisaðstöðu í hitaveitumálum. Það getur ekki verið gild afsökun að sjóðakassinn sé tómur eða að bara sé verið að leigja auðlindirnar til langframa en ekki að selja. Því þá væri viðbúið að jafnvel fiskveiðikvótarnir yrðu brátt seldir þannig úr landi.

Líta má á þessa þróun sem beint framhald af bankahruninu 2008: Auðsöfnun hjá ríki og sveitarfélögum varð svo mikil að erfiðara varð fyrir stjórnvöldin í landinu að stýra henni í þágu heildarinnar. Það er svo að leiða til þess að erlendir aðilar eru að ná auknu tangarhaldi á íslenskum fjármálum. Þeir geta hins vegar glaðst sem hafa trú á að farsælt sé fyrir þjóðina að láta erlend öfl ráðskast með sem flest fjöregg þjóðarinnar. En hætt er við að slík áhættufjárfesting með auðlindir okkar fari á líkan veg og bankaútrásin 2008. Það er raunar kaldhæðnislegt að fréttir berast nú af því að Íslendingar séu enn í útrás um þróun orkufyrirtækja í Asíu, nú þegar erlendir aðilar eru farnir að leika sama leikinn við okkur á meðan á heimavelli! Með þessu áframhaldi rætist brátt ósk sumra um að við verðum samspyrt nágrannalöndum okkar efnahagslega; jafnvel án þess að hafa gengið lengra inn í Evrópusambandið fyrst.

Það má minna á að Rómaveldi hið forna náði ítökum sínum kringum Miðjarðarhaf, ekki fyrst og fremst með hernaði, heldur með því að beita samningatækni við ríkin sem voru komin í hæpna fjárhagsstöðu. Það þurfti ekki meira til. Innlimun fylgdi í kjölfarið. Erum við nú komin í slíkan dómínókubbaleik í kjölfar hrunsins? Ég vona því að flokkurinn minn í borgarstjórn muni nú lofa því sem fjálglegast að halda áfram að standa vörð um hitaveitueignir Reykvíkinga.

Höfundur er þjóðfélagsfræðingur og skáld.