Tríóið Sírajón; Einar Jóhannesson, Anna Áslaug Ragnarsdóttir og Laufey Sigurðardóttir.
Tríóið Sírajón; Einar Jóhannesson, Anna Áslaug Ragnarsdóttir og Laufey Sigurðardóttir. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Tríóið Sírajón kemur fram í Selinu á Stokkalæk á morgun kl. kl. 16:00.

Tríóið Sírajón kemur fram í Selinu á Stokkalæk á morgun kl. kl. 16:00. Þetta verða fyrstu tónleikar tríósins, sem stofnað var fyrir stuttu, en það skipa Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari, Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Einar Jóhannesson klarínettuleikari.

Einar segir að þó tríóið sé að stíga sín fyrstu tónleikaskref eigi það sér nokkurn aðdraganda. „Við erum öll ættuð frá Mývatni, af Reykjahlíðarætt, og þar hefur Laufey ráðið tónlistarríkjum,“ segir Einar, en Laufey hefur meðal annars haldið þar úti tónleikaröð sem ber heitið Músík í Mývatnssveit.

„Þær Anna hafa spilað talsvert saman og ég með Laufeyju. Hún hafði svo samband við mig fyrir ári og stakk upp á því að við myndum stofna tríó saman og ég tók því fagnandi. Við byrjuðum svo að velja verk og fengum líka Jóhann Tómasson til að skrifa fyrir okkur verk sem við frumflytjum í haust.“

Heiti tríósins vekur eðlilega nokkra athygli. Einar segir þau hafa velt nafninu fyrir sér um hríð og um tíma hafi þau gælt við Reykjahlíðartríóið, en þá hafi Sigurður Stefánsson í Kammermúsíkklúbbnum stungið upp á að þau nefndu sig eftir ættföðurnum; séra Jóni Þorsteinssyni í Reykjahlíð sem er langalangalangafi þeirra.

„Sírajón vafðist fyrir okkur um tíma, en við losnuðum ekki við það úr kollinum – ættfaðirinn stóð yfir okkur.“ Á efnisskránni eru tvö tríó, annars vegar klassískt frá Mozart-tímum eftir Jan Vanhal, mjög fallegt verk, og svo Saga dátans eftir Stravinskíj, en að vísu án sögumanns. Önnur verk, ekki tríóverk, eru eftir Mozart, Chopin og Schumann.