„Ég ætla bara að drekka smá bjór og elda hamborgara í kvöldmatinn,“ segir Egill Halldórsson, sem staddur er í Kaupmannahöfn, um hvort eitthvað standi til á kvartaldarafmælinu.

„Ég ætla bara að drekka smá bjór og elda hamborgara í kvöldmatinn,“ segir Egill Halldórsson, sem staddur er í Kaupmannahöfn, um hvort eitthvað standi til á kvartaldarafmælinu. Þá segist hann líklega munu bjóða vinum sínum, sem eru þar ytra, til sín og halda jafnvel út á lífið með kvöldinu. „Ef það viðrar vel til þess,“ segir afmælisbarnið og kveður veðrið hafa verið milt en grámyglulegt í hinum gamla höfuðstað Íslands að undanförnu.

„Ég er bara að spóka mig hér og aðeins búinn að vinna á leikskóla en annars bara að njóta þess að vera hérna,“ segir Egill en hann hefur verið búsettur á Austurbrú í Kaupmannahöfn ásamt kærustu sinni um nokkurt skeið. Þau koma heim til Íslands í vikunni en Egill segir ekki ljóst hvað tekur við.

„Þetta er ekki alveg komið á hreint en ég reikna með að fara á leikskólann sem ég vann á, allavega í sumar, og svo er ég að melta hvort ég eigi kannski að kíkja í Háskólann í haust,“ segir afmælisbarnið. Egill kveðst ekki hafa tekið ákvörðun um hvaða grein hann hyggst nema þrátt fyrir að hafa kynnt sér námsframboðið rækilega. Hvað verði fyrir valinu verði að koma í ljós, nóg sé í boði. skulias@mbl.is