Guðmundur Oddsson
Guðmundur Oddsson
Eftir Guðmund Oddsson: "Halldór Jónsson verkfræðingur, og einn ötulasti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi til margra ára, skrifar bréf til Mbl. 21. maí sl."

Halldór Jónsson verkfræðingur, og einn ötulasti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi til margra ára, skrifar bréf til Mbl. 21. maí sl. Þar varar Halldór við að forystumaður Samfylkingarinnar, Guðríður Arnardóttir, komist til valda í komandi kosningum. Halldór er maður þeirrar gerðar að hann tekur ástfóstri við suma menn, en síðan leggur hann fæð á aðra og þá einkum pólitíska andstæðinga. Halldór hefur frá upphafi hafið Gunnar Birgisson til skýjanna og telur hann vera einhvern snjallasta stjórnanda sem Kópavogur hefur eignast. Víst hefur Gunnar gert ýmislegt gott á þeim 20 árum sem hann hefur stjórnað, skárra væri það nú, en nú hafa sjálfstæðismenn í Kópavogi hafnað honum sem oddvita sínum í prófkjöri sem Halldór segir að á 4. þúsund manns hafi tekið þátt í. Skyldi Halldór vera ánægður með þá niðurstöðu? A.m.k. hef ég ekki séð neina grein eftir Halldór þar sem hann hælir nýrri forystu flokksins í komandi kosningum.

Halldór gerir lítið úr vali okkar samfylkingarmanna í Kópavogi á oddvita okkar, Guðríði Arnardóttur. Það má Halldór Jónsson hins vegar vita, að við erum afar stolt af Guðríði og Samfylkingin stendur heilshugar að baki henni.En hvers vegna er Halldór svona hræddur við Guðríði og Samfylkinguna? Auðvitað vegna þess að hann veit að Sjálfstæðisflokkurinn skilar nú Kópavogi eftir 20 ára stjórn í fjárhagslegri rúst og með stórskaðaða ímynd.

Á árum áður þegar félagshyggjuflokkarnir stjórnuðu Kópavogi var bærinn þekktur sem mesti félagshyggjubær á landinu. Þá var bænum stjórnað af ábyrgð í fjármálum og stjórnendur báru umhyggju fyrir íbúunum. Kópavogur hafði þá gott umtal og menn voru stoltir af bænum sínum. Hver er staðan núna? Stjórnendur bæjarins eru rúnir trausti og hinn mikli leiðtogi, Gunnar Birgisson, horfinn úr bæjarstjórastólnum og settur í þriðja sæti, bæjarsjóður tómur og bærinn með milljarðaskuldir. Þarf einhver að vera hissa þó bæjarbúar vilji losna við þessa snillinga úr meirihlutanum?

Halldór talar um að það yrði mikil ógæfa ef Kópavogsbúar létu blekkjast af hinni geysivinsælu Guðríði Arnardóttur og Samfylkingunni. Halldór minn, ég skil ótta þinn vegna komandi kosninga í Kópavogi. En trúðu mér, að þegar hin geysivinsæla Guðríður Arnardóttir er orðin bæjarstjóri í Kópavogi mun bærinn okkar fljótt verða eftirsóttasta sveitarfélag landsins til að búa í. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjálfur dæmt sig úr leik og verður vonandi utan vallar næstu árin hér í Kópavogi.

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi og skólastjóri í Kópavogi.