Önundur Páll Ragnarsson onundur@mbl.is „Ég lagði ekkert að henni í þessu máli.

Önundur Páll Ragnarsson

onundur@mbl.is

„Ég lagði ekkert að henni í þessu máli. Hún tók þessa ákvörðun sjálf og ég tel að hún hafi gert það af mikilli auðmýkt og mikilli reisn,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, um afsögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Steinunn þáði 8,1 milljón króna í styrki fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 og 4,65 milljónir fyrir þingkosningarnar 2007. Jóhanna segir að ekki hafi heldur verið lagt sérstaklega að henni innan þingflokksins.

Aðspurð hvort hið sama gildi um fleiri þingmenn Samfylkingarinnar, eins og um Steinunni Valdísi, segist Jóhanna ekki ætla að setjast í neitt dómarasæti. Hver og einn verði að gera upp hug sinn.

Helst hefur nafn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, borið á góma í öðrum flokkum en innan Samfylkingarinnar þáði Dagur B. Eggertsson, varaformaður og oddviti í Reykjavík, vel á sjöttu milljón fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Veit ekki hvað Dagur þáði

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað Dagur þáði af styrkjum. Ég hef nú ekki heyrt þá svona háa og ég hef nú sagt það áður að mér finnst að menn eigi, þegar þeir eru að horfa til borgarstjórnarkosninganna áður og þeirra sem þá þáðu styrki, að menn ættu að beina sjónum sínum að öðrum en okkur. Mér finnst spjótin of mikið hafa beinst að Samfylkingunni, á meðan aðrir eru látnir í friði, meðal annars þeir sem ekki hafa gefið upp, og það finnst mér nú verst, hverjir gáfu til þeirra kosningabaráttu,“ segir Jóhanna.

En hvar á þá að draga mörkin? „Ég ætla þeim að gera það sjálfir sem hafa þegið háa styrki. Ég ætla ekki að setjast í dómarasætið í því efni, en það eru of margir sem hafa þegið háa styrki í þessu máli.“

Jóhanna segir mikla eftirsjá að Steinunni Valdísi. „Ég tel að hún sé að leggja þarna mjög stórt lóð á vogarskálarnar, í endurreisninni það er að segja, að endurreisa trúverðugleika í stjórnmálum,“ segir Jóhanna.

Aðspurð segist hún ekki taka fylgistapi vinstriflokkanna í borginni sem ádeilu á störf ríkisstjórnarinnar. „Það er öllum ljóst að við erum að starfa í þessari ríkisstjórn við einstaklega erfiðar aðstæður. Það hefur engin ríkisstjórn starfað við jafnerfiðar aðstæður og nú og við erum að taka á erfiðum málum. Nú, það er ekki neitt skrýtið þó að það, með einum eða öðrum hætti, muni bitna á þessum sveitarstjórnarkosningum að ósekju.“ Samfylkingin í Reykjavík eigi skilið miklu meira fylgi en kannanir sýni. Kjósendur ráði hins vegar ferðinni á kjördag.

  • „Þetta mun verða lexía fyrir marga og við erum að sjá upphafið að nýjum tímum í þessum málum.“