Einar Skúlason
Einar Skúlason
Eftir Einar Skúlason: "Í dag er kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur til næstu fjögurra ára. Ný hugsun í íslenskum stjórnmálum er nauðsynleg og því býð ég mig fram á endurnýjuðum lista Framsóknar og heiti því að vinna af heiðarleika og ábyrgð fyrir borgarbúa."

Í dag er kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur til næstu fjögurra ára. Ný hugsun í íslenskum stjórnmálum er nauðsynleg og því býð ég mig fram á endurnýjuðum lista Framsóknar og heiti því að vinna af heiðarleika og ábyrgð fyrir borgarbúa.

Atvinnumálin skipta okkur framsóknarmenn miklu. Við viljum að borgin sé ákjósanlegur valkostur fyrir stór og smá fyrirtæki sem vilja hasla sér völl og stækka. Þannig minnkar atvinnuleysi og tekjur aukast þannig að skattar og gjaldskrár þurfa ekki að hækka umfram verðlag. Atvinnuleysi er alltaf sóun og til þess að afla tekna þarf að skapa aðstæður til að þær geti orðið til. Þetta er ekkert flóknara en á venjulegu heimili. Það þarf að koma meira inn en fer út til að fjölskyldan nái endum saman.

Við eigum að vera óhrædd við að auka tekjur fyrirtækjanna og borgarinnar sjálfrar af ferðaþjónustu í grænu borginni Reykjavík. Þess vegna viljum við græna byltingu í borginni, bætt aðgengi að grænum svæðum til útivistar og fræðslu, öflugar almenningssamgöngur, endurnýjanlega orkugjafa, fegrun borgarinnar og hagkvæm vistvæn innkaup.

Framsókn byggir á samvinnu. Framsókn vill því skapa samvinnuvettvang fyrirtækja og borgarinnar með endurvakningu atvinnuþróunarfélagsins Aflvaka. Orkuveitan með sína umhverfisvænu orku á að gegna lykilhlutverki við að laða að áhugaverð fyrirtæki og leggja áherslu á að sem flest störf skapist við nýtingu orkunnar. Til að skapa störf strax þarf að fara í átak í viðhaldi á húsum í eigu borgarinnar.

Það verður að verja velferðina. Fólk má ekki lenda á götunni, börnin verða að fá góða menntun, það þarf að hugsa um eldri borgarana og tryggja börnum leikskólapláss.

Með skynsamlegri fjármálastjórn og markvissri forgangsröðun, þar sem viðkvæmustu hópar samfélagsins eiga að njóta forgangs, á borgin að geta sinnt velferðar-, skóla-, dagvistunar- og umhverfishlutverki sínu með sóma. Það er ekki sjálfsagt að þetta mikilvæga verkefni takist vel.

Það er því mikilvægt að fulltrúar skynsamlegrar, öfgalausrar miðjustefnu og samvinnu hafi sterka rödd í borgarstjórn og komi að úrlausn vandamála og uppbyggingu í þágu borgarbúa. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að mæta á kjörstað og setja X við B í Reykjavík.

Höfundur er oddviti framsóknarmanna í Reykjavík.