Kosningar Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, gerð klár fyrir beina útsendingu í Sjónvarpinu í gærkvöldi.
Kosningar Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, gerð klár fyrir beina útsendingu í Sjónvarpinu í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
Kosið verður til sveitarstjórna í dag og eru kjörstaðir almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22. Skömmu eftir lokun kjörstaða ættu fyrstu tölur að liggja fyrir.

Kosið verður til sveitarstjórna í dag og eru kjörstaðir almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22. Skömmu eftir lokun kjörstaða ættu fyrstu tölur að liggja fyrir. Mikil spenna er í flestum sveitarfélögum og óvissa, enda benda skoðanakannanir til að mikil endurnýjun muni eiga sér stað.

Samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Ríkisútvarpið og birt var í gærkvöldi fengi Besti flokkurinn sex borgarfulltrúa, einum minna en samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Morgunblaðið og birt var í vikunni. Sjálfstæðisflokkur bætir í sömu könnun við sig einum manni og fengi fimm, Samfylkingin þrjá og Vinstri grænir einn. Önnur framboð næðu ekki manni inn í borgarstjórn.

Þá vilja flestir sjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna, sem borgarstjóra.

Ekki rétt að útiloka samstarf

Í umræðuþætti Sjónvarpsins í gærkvöldi lýsti Hanna Birna Kristjánsdóttir sig reiðubúna til samstarfs við hvern þann flokk sem vildi fylgja Sjálfstæðisflokknum í vegferð borgarbúum til góðs. Hún sagði einnig, að sér fyndist ekki rétt að kjörnir fulltrúar borgarbúa útilokuðu samstarf við aðra flokka.

Við sama tækifæri lýsti Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, því yfir að hún útilokaði meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki. Áður hefur Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn langsótt. Oddvitar annarra flokka vildu hins vegar ekki útiloka neitt mögulegt samstarf.

Í Kosið utan kjörfundar

» Við lokun kjörstaðar í Laugardalshöll í gærkvöldi höfðu 7.839 atkvæði borist.
» Til samanburðar greiddu 8.500 atkvæði utan kjörfundar um Icesave.
» Í alþingiskosningum 2009 voru það 13.000 og 12.500 í sveitarstjórnarkosningum 2006.

Talningarmenn lokaðir »14