Ásdís Ólafsdóttir
Ásdís Ólafsdóttir
Eftir Ásdísi Ólafsdóttur: "Kópavogsbúar góðir, gefið nýju fólki tækifæri til að koma að stjórnun bæjarins næstu fjögur árin. Sagt er að nýir vendir sópi best og er ekki vanþörf á tiltekt."

Kópavogsbúar góðir, gefið nýju fólki tækifæri til að koma að stjórnun bæjarins næstu fjögur árin. Sagt er að nýir vendir sópi best og er ekki vanþörf á tiltekt. Á Y -Lista Kópavogsbúa er valinn hópur af góðu fjölskyldufólki sem lætur sig varða hag fólksins sem byggir þennan bæ og veit vel hvar skórinn kreppir. Það er ekkert eðlilegra en að endurnýjun eigi sér stað því þeir sem hafa haldið um stjórnartaumana þurfa einhvern tíma að láta af völdum enda búnir að sitja í um 20 ár. Þeir eru einfaldlega búnir að sitja alltof lengi og láta oft eins og þeir eigi stólana sem þeir sitja í og allt kerfið. Þeir hafa fjarlægst íbúana og lifa í sínum eigin heimi.

Nú eru þeir komnir með gula spjaldið og þið, kjósendur góðir, sjáið um að þeir fái það rauða. Það hefur nefnilega sýnt sig að þeir sem sitja of lengi í bæjarstjórnum og öðrum stjórnum gleymi gjarnan hugsjónum sem þeir höfðu í byrjun.

Við á Y- Lista Kópavogsbúa viljum ráða faglegan bæjarstjóra sem er ekki á framboðslista og getur stjórnað 30 þúsund manna fyrirtæki sem Kópavogur er. Gömlu flokkarnir keppast við að setja fram bæjarstjóraefni úr sínum flokkum og allir eru þeir búnir að sitja alltof lengi í pólitíkinni. Við á Y -Lista Kópavogsbúa ætlum ekki að sitja lengur en tvö kjörtímabil fáum við kosningu frá ykkur. Við ætlum líka að fara eftir siðareglum Kópavogsbæjar sem eru góðar en gleymst hefur í of mörgum tilvikum að fara eftir þeim. Þá erum við ekki með langan loforðalista eins og gömlu flokkarnir því við ætlum að taka á málunum jafnt og þétt og á sem sanngjarnastan hátt fyrir bæjarbúa.

Nú er lag, kjósendur góðir, sendið gömlu flokkana í frí næstu árin því þeir eru orðnir örþreyttir. Ekki sitja heima, komið og kjósið Y-Lista Kópavogsbúa. Það er auðvelt að muna listabókstafinn því þetta er gamla bílnúmerið í Kópavogi. Við erum ekki flokkur, bara venjulegt fólk sem vill bæjarfélaginu vel.

Höfundur er 12. maður á Y-Lista Kópavogsbúa.