Skot Atli Sigurjónsson skoraði fallegt mark fyrir Þórsara og skýtur hér að marki Víkinga í leiknum á Þórsvellinum í gærkvöld.
Skot Atli Sigurjónsson skoraði fallegt mark fyrir Þórsara og skýtur hér að marki Víkinga í leiknum á Þórsvellinum í gærkvöld. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Einar Sigtryggsson sport@mbl.is Þór vann Víking 4:3 í nokkuð skemmtilegum leik á Akureyri þar sem segja má að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn.

Á vellinum

Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

Þór vann Víking 4:3 í nokkuð skemmtilegum leik á Akureyri þar sem segja má að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn. Þórsliðið skaust upp fyrir Víking í þriðja sætið en nokkur lið eru í hnapp á eftir toppliði ÍR.

Þór var í markmannsvandræðum fyrir leik þar sem báðir markmenn meistaraflokks eru á sjúkralistanum. Guðmundur Ragnar Vignisson, sautján ára, var kallaður úr 2. flokki og hefur hann sjálfsagt óskað sér betri byrjunar. Félagar hans hófu leikinn nefnilega skelfilega og þurfti Guðmundur að hirða boltann tvisvar úr netinu á fyrstu níu mínútunum. Fyrra markið kom eftir stórsókn Víkinga. Þór bjargaði á línu en boltinn barst til Walters Hjaltested sem þrumaði boltanum frá vítateig í slána og niður. Mjög vafasamt mark dæmt og eftir níu mínútur hafði Egill Atlason potað inn öðru eftir þvögu í teig Þórsara. Heimamenn létu sér hvergi bregða og náðu smám saman tökum á leiknum. Atli Sigga Böggu minnkaði muninn með stórglæsilegu skoti upp í vinkilinn og fyrir hlé var orðið jafnt. Þórsarar fengu víti þegar Nenad Zivanovic var felldur í teignum. Jóhann Helgi Hannesson lét Magnús Þormar verja frá sér en hirti sjálfur frákastið og skoraði.

Seinni hálfleikurinn var fremur bragðdaufur en Víkingar áttu eitt og eitt færi en markvörður og vörn Þórs björguðu vel. Lokaspretturinn bauð samt upp á drama. Víkingar komust yfir þegar skammt var eftir þegar Helgi Sigurðsson lagði upp gott mark fyrir Viktor Örn Guðmundsson. Allt leit því út fyrir sigur Víkings en í uppbótartíma skoraði Þór tvívegis og vann dísætan sigur. Jóhann Helgi Hannesson plataði tvo varnarmenn áður en hann jafnaði leikinn og svo vippaði hann yfir markvörð Víkings. Boltinn virtist ekki ætla að skríða inn fyrir línuna svo Nenad Zivanovic renndi sér með hann í markið. Skömmu síðar var leik lokið og fögnuðu heimamenn sem óðir væru. Jóhann Helgi var enn nokkuð hátt uppi fimm mínútum síðar þegar hann var gripinn í viðtal. „Þetta var bara svakalegt. Ég er svo fullur af adrenalíni að ég veit ekkert hvað ég á að segja. Við mættum bara ekki í byrjun en öskruðum okkur saman og sýndum okkar rétta karakter. Við erum nefnilega virkilega góðir þegar við erum mættir. Það þýðir ekkert að vera á 90% keyrslu. Hún verður að vera 100% eða meiri svo menn fái eitthvað út úr leikjunum. Við gáfumst bara aldrei upp og það er ekkert sætara en að vinna í uppbótartíma,“ sagði nauðarakaður Jóhann kampakátur í restina.

Ánægjulegt að vera í efsta sæti

* ÍR heldur forystu eftir 0:0 gegn HK

„Við erum svo sem ekkert mikið að skoða töfluna núna en það er ánægjulegt að vera í efsta sætinu og hafa náð í stig á erfiðum útivelli gegn mjög góðu liði HK,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari ÍR, við Morgunblaðið í gærkvöld. Breiðholtsliðið sótti stig á Kópavogsvöllinn þegar það gerði jafntefli, 0:0, við HK. Þetta voru fyrstu töpuðu stig ÍR-inga á tímabilinu, en þeir tróna samt áfram á toppnum með 10 stig eftir fjórar umferðir.

„Við börðumst vel og vorum skipulagðir, og það er það sem við höfum lagt mikla áherslu á. Það gekk upp í dag og við hefðum svo sem getað stolið sigrinum, rétt eins og HK, en sennilega er jafnteflið nokkuð sanngjarnt. Ég er allavega mjög ánægður með þetta stig. Við förum ekki framúr okkur, næst er það Fram í bikarnum, síðan Fjarðabyggð í deildinni, og við þurfum bara að vanda okkur áfram og vinna eins vel og við getum úr því sem við höfum,“ sagði Guðlaugur.

HK sótti mun meira í leiknum í heild, réð lengst af ferðinni og fékk nokkur ágæt færi, Guðmundur Steinn Hafsteinsson tvö þau bestu, en gekk annars illa að brjóta vel skipulagða ÍR-inga á bak aftur. „Við byrjuðum leikinn mjög vel en síðan dró úr þessu hjá okkur. ÍR-ingar voru mjög þéttir og lokuðu vel á okkur,“ sagði Tómas Ingi Tómasson, þjálfari HK. vs@mbl.is

Sannfærandi Fjölnissigur

Eftir þrjú jafntefli í jafnmörgum leikjum unnu Fjölnismenn sannfærandi sigur á Þrótti, 3:0, í Grafarvoginum í gærkvöld og eru því enn taplausir í 1. deildinni í knattspyrnu.

Fjölnir náði undirtökunum strax á 9. mínútu þegar Aron Jóhannsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Guðmundar Karls Guðmundssonar. Pétur Georg Markan bætti við marki í fyrri hálfleik þegar hann slapp inn fyrir vörn Þróttar, lék á markvörðinn og skoraði, 2:0.

Það var síðan Guðmundur Karl sem innsiglaði sigurinn snemma í síðari hálfleik þegar hann skoraði með glæsilegu skoti rétt innan vítateigs.

Liðin eru þá bæði með 6 stig en Þróttur hefur unnið tvo og gert tvö jafntefli. vs@mbl.is

Leiknir lagði Skagamenn

Manni færri í 70 mínútur náðu Leiknismenn að knýja fram sigur, 1:0, á ÍA í gærkvöld og Skagamenn eru því enn án sigurs við botn 1. deildarinnar í knattspyrnu eftir fjórar umferðir.

Strax á 20. mínútu fékk Leiknismaðurinn Óttar B. Guðmundsson sitt annað gula spjald og var þar með rekinn af velli. Skagamenn náðu engan veginn að nýta sér liðsmuninn og Leiknir var sterkari aðilinn í heildina.

Þegar átta mínútur voru til leiksloka skoraði Helgi Pétur Jóhannsson sigurmark Leiknis með skalla eftir hornspyrnu, 1:0. Breiðholtsliðið vann þar með sinn þriðja sigur í fjórum leikjum og er í öðru sæti, stigi á eftir grönnum sínum í ÍR.

vs@ mbl.is

Njarðvík náði í fyrsta stigið

Nýliðar Njarðvíkinga fengu í gærkvöld sitt fyrsta stig í 1. deildinni í knattspyrnu þegar þeir gerðu jafntefli á heimavelli gegn KA, 1:1.

Njarðvíkingar voru yfir í heilan klukkutíma en þeir náðu snemma forystunni þegar Einar Helgi Helgason braust í gegnum vörn norðanmanna og skoraði.

Þegar korter var eftir af leiknum náði Dean Martin, hinn 38 ára gamli þjálfari KA-manna, að jafna metin með skalla eftir fyrirgjöf og þar við sat. Njarðvík náði Gróttu og ÍA að stigum á botninum en KA er með fimm stig í neðri hluta deildarinnar. vs@mbl.is