Valdimar Svavarsson
Valdimar Svavarsson
Eftir Valdimar Svavarsson: "Kosningarnar í dag eru með þeim mikilvægustu fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga í langan tíma og ljóst er að það er kominn tími á breytingar."

Kosningarnar í dag eru með þeim mikilvægustu fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga í langan tíma og ljóst er að það er kominn tími á breytingar. Sjálfstæðisflokkurinn býður fram samhentan og öflugan hóp frambjóðenda sem hefur fjölbreytta reynslu en fyrst og fremst metnað og áhuga til að vinna af heilindum fyrir Hafnfirðinga.

Kannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig á bilinu 7-12% en Samfylkingin er að tapa 10%-16%. Það er því ljóst að Hafnfirðingar vilja nýjan meirihluta! Nú verða bara allir að mæta á kjörstað og tryggja það.

Flestum er ljóst að skuldir og fjárhagsstaða bæjarins er orðin mjög slæm. Það má ekki draga það að taka á vandanum svo bæjarfélagið fái haldið fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Við megum samt ekki fyllast vonleysi og við verðum að hugsa í lausnum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að einstaklingar, fyrirtæki og stjórnmálaflokkar starfi saman og taki samhent á vandanum. Við leggjum jafnframt megináherslu á að örva atvinnulífið og standa með fyrirtækjunum í bænum. Þannig komum við hagkerfinu í gang, aukum tekjur og minnkum atvinnuleysi. Atvinnuleysi er allt of mikið í Hafnarfirði og það má alls ekki festa sig í sessi.

Sjálfstæðisflokkurinn vill og þorir að taka á vandanum og hefur lagt fram ítarlegar tillögur og aðgerðaáætlun í þeim efnum. Tillögurnar verða settar í framkvæmd um leið og flokkurinn kemst í aðstöðu til þess.

Ég skora á Hafnfirðinga að mæta á kjörstað og kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á laugardaginn. Það er eina leiðin til að vera viss um að breyting verði á stjórn bæjarins. Við þurfum öll að koma að því verki og við þurfum að vinna saman – Vertu með.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

Höf.: Valdimar Svavarsson