— Reuters
Forseti Gvatemala, Alvaro Colom, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna kröftugs eldgoss sem hófst í eldfjallinu Pacaya á miðvikudagskvöld. Illa brunnið lík sjónvarpsfréttamanns fannst í hlíðum eldfjallsins.

Forseti Gvatemala, Alvaro Colom, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna kröftugs eldgoss sem hófst í eldfjallinu Pacaya á miðvikudagskvöld.

Illa brunnið lík sjónvarpsfréttamanns fannst í hlíðum eldfjallsins. Samstarfsmenn hans segja að hann hafi verið þar að vinna að frétt um gosið þegar grjóti og glóandi hrauni tók að rigna yfir hann. Þriggja barna á aldrinum sjö, níu og tíu ára er saknað á svæðinu, að sögn yfirvalda.

Forsetinn lýsti yfir neyðarástandi í að minnsta kosti fimmtán daga í þremur sýslum í grennd við fjallið, sem er um 50 km frá höfuðborginni, Gvatemalaborg. Alþjóðaflugvellinum La Aurora var lokað til að tryggja að flugvélar færu ekki í öskuskýið, auk þess sem þeim var talin stafa hætta af ösku sem féll á flugbrautirnar. Flugvélum í millilandaflugi var beint til annarra flugvalla í landinu.

Eldfjallið er 2.552 metra hátt og um 1.600 manns voru flutt frá hlíðum þess. Í Gvatemala eru alls 288 eldfjöll og átta þeirra eru virk.