Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson
Eftir Emil Örn Kristjánsson: "Einn þeirra, sem nefnt hafa eflingu ferðaþjónustunnar sem sóknarfæri fyrir íslenzkan efnahag er varaformaður Samfylkingarinnar og oddviti hennar í borgarstjórn, Dagur B. Eggertsson."

Einn þeirra, sem nefnt hafa eflingu ferðaþjónustunnar sem sóknarfæri fyrir íslenzkan efnahag er varaformaður Samfylkingarinnar og oddviti hennar í borgarstjórn, Dagur B. Eggertsson. Dagur ætti reyndar að hafa nokkurt vit á þeim málaflokki, því hann sat sem annar fulltrúa Sambands íslenzkra sveitarfélaga í Ferðamálaráði í rúm þrjú ár frá árslokum 2005 og fram á árið 2009.

Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að Dagur B. sinnti því starfi sínu reyndar ekki af miklum áhuga. Satt að segja finnst mér, sem hagsmunaaðila í ferðaþjónustu, að hann hafi sýnt þessari atvinnugrein furðulegt afskiptaleysi.

Á árunum 2006-2008 mætti Dagur B. Eggertsson nefnilega ekki á nema 32% þeirra funda sem ráðið hélt á þessu tveggja ára tímabili.

Það fer ekki hjá því að það rifjist upp umræða, sem átti sér stað á síðasta ári, þegar í ljós kom að Dagur var með lakasta mætingu allra borgarráðsmanna á fundi ráðsins eða innan við 40% á fyrri hluta árs 2009.

Einnig rifjast upp sú neyðarlega staða sem kom upp þegar Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir slaka mætingu á fundi Skipulagsráðs og uppskar í staðinn ábendingar um að hún hefði sjálf verið iðin við að mæta fyrir oddvita sinn, Dag B. Eggertsson á fundi stjórnar Faxaflóahafna. Dagur hafði þá um tíma mætt á innan við helming stjórnarfunda.

Ég ætla ekkert að velta því fyrir mér hvort Dagur B. Eggertsson hefur þegið laun fyrir þessar fundarsetur sínar eða skróp eftir atvikum og hversu mikil þau kunna að hafa verið.

Ég leyfi mér hins vegar að gagnrýna að þegar menn taka að sér ábyrgðarstörf fyrir samfélagið þá sé þeim ekki sinnt betur. Mér þykir það bera vott um alvarlegt virðingarleysi gagnvart viðkomandi málaflokkum og gagnvart borgurunum.

Dagur B. Eggertsson hefur reyndar einnig setið sem fulltrúi Sambands íslenzkra sveitarfélaga í brunamálaráði. Ég ætla ekki að gera setu hans þar að frekara umfjöllunarefni en mér skilst að mæting hans á fundi brunamálaráðs hafi verið með jafnvel enn meiri eindæmum en á fundi fyrrnefndra ráða og stjórna.

Verður ekki að gera þá lágmarkskröfu til þeirra sem bjóða sig fram til opinberra embætta að þeir ræki embættisskyldur sínar betur?

Höfundur er leiðsögumaður og ferðaskipuleggjandi.

Höf.: Emil Örn Kristjánsson