Sigurður Karlsson var fæddur að Knútsstöðum í Aðaldal 31. maí 1924. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 20. maí sl. Hann var sonur hjónanna Karls Sigurðssonar og Sigríðar Kristjánsdóttur er lengi bjuggu á Knútsstöðum. Systkini hans voru Emilía, f. 1911, Guðfinna, f. 1913, Snjólaug, f. 1915, Elísabet, f. 1918, Jón, f. 1925, þau eru öll látin nema Guðfinna.

Árið 1960 giftist Sigurður Sigríði Sigurðardóttur á Núpum í sömu sveit og bjuggu þau á Núpum nú tæp 50 ár. Synir Sigurðar og Sigríðar eru Karl Sigurðsson, f. 1964, eiginkona hans er Sigrún Marinósdóttir, f. 1969, börn þeirra eru Sigurður, f. 1991, Marín Rut, f. 1995, og Tístran Blær, f. 2000, þau eru búsett á Núpum. Ásmundur Kristján Sigurðsson, f. 1972, eiginkona hans er Kolbrún Ólafsdóttir, f. 1973, dóttir þeirra er Kristín, f. 2003, þau eru búsett á Akureyri.

Sigurður var flugvallarvörður við Húsavíkurflugvöll í rúm 30 ár meðfram búskap.

Útför Sigurðar verður gerð frá Neskirkju í Aðaldal í dag, 29. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Sigurður bjó um áratugi á Núpum, austan Laxár sem fellur um landareignina og í landi Núpa er einmitt Ferjuflúð. Til forna fram að 1909 voru Núpar einn helsti ferjustaður Laxár. Ferjumenn eru tíðum nefndir í sagnabálkum þjóða og goðsögnum. Þeir eru alltaf á vaktinni og liðsinna ferðalöngum þegar þá ber að garði. Það lætur því að líkum að þeir kynnast margvíslegu fólki sem fer um landið margvíslegra erinda. Sigurður Karlsson var ferjumaður í margvíslegum skilningi. Vafalaust hefur hann ferjað marga yfir Laxá með gamla laginu, en hann ferjaði einnig alls konar þekkingu á ánni milli kynslóða. Síðan var hann eins konar ferjumaður um loftin blá. Flugvöllurinn í Aðaldal var byggður 1956 og starfaði Sigurður lengi sem flugvallarstjóri og var farsæll í starfi. Margir þurftu að leita til hans og varð hann fljótt annálaður fyrir greiðasemi og ljúft viðmót. Þeir sem þurftu að leita til Sigurðar eða Sigríðar konu hans sneru aldrei heim nema ánægðir. Hann kaus þó að vinna verk sín í ró og næði bak við tjöldin og forðaðist sviðsljósið.

Faðir Sigurðar, Karl á Knútsstöðum, var þrekmaður mikill bæði að afli og í huganum. Margar sögur eru til af þrekvirkjum hans og hann bjargaði mörgum manninum úr svaðilförum í ánni. Til er saga frá 1912 þegar bátaslys varð hjá mönnum á Mjósundi ofan við Æðarfossa sem voru að koma frá því að vitja um laxagildrurnar. Ræðarinn missti tök á bátnum og hann rak óðfluga að fossbrúninni. Einn mannanna í bátnum, Gunnar Jónsson, hvarf niður fossana og fannst aldrei síðan. Karl stökk út úr bátnum á fossbrúninni og tókst að skorða sig þótt vatnið tæki honum í háls og stöðva bátinn og allir hinir björguðust.

Bræðurnir frá Knútsstöðum, Sigurður faðir Sigríðar og Karl Sigurðssynir eignuðust Núpa árið 1927. Sigurður var virtur kennari og fræðamaður í sveitinni. Sigurður og kona hans Kristín Ásmundsdóttir búa á jörðinni frá 1943 og síðar í félagsbúi með þeim Sigurði og Sigríði.

Sigurður var slyngur veiðimaður en Ferjuflúð, einn fallegasta flugustaðinn í allri Laxá, sem margir kalla Núpabreiðu, hafði Sigurður fyrir augunum út um eldhúsgluggann á hverjum degi. Stundum veiddum við Sigurður saman og þá kynntist ég enn betur þessari sérstöku hógværð og ljúfmennsku sem Núpafólkið er þekkt fyrir.

Sigurður og Sigríður eiginkona hans bjuggu saman á Núpum frá 1960 og þar tengdist fjölskylda mín Núpafólkinu í gegnum flug og veiðimennsku. Jörð þeirra er beggja vegna Laxár og á vesturbakka er fallegt skóglendi og þar skartar náttúra Aðaldals sínu fegursta. Þar erum við mörg sem höfum aðstöðu til dvalar og til að njóta fegurðar og kyrrðar. Ekki er hægt að hugsa sér betri nágranna, betra samstarfsfólk. Orðstír og ljúf minning um þau hjón nær ekki bara til sveitunga í dalnum – Aðaldalnum allra dala sagði skáldið – okkar veiðifélaganna, heldur og til alls flugfólksins og þess ótrúlegum fjölda ferðamanna sem í áratugi hafa notið gestrisni þeirra og velvilja.

Mér finnst eiga vel við að kveðja góðvin minn Sigurð á Núpum, ferjumanninn, með ljóðinu Tíbrá eftir Hannes Pétursson:

Fagnið nú!

fagnið nú augu mín

ljósglaðri uppstigningu

ægisandsins framundan –

og hins fótumtroðna

ferjustaðar við ósinn.

Sigríði og fjölskyldunni sendum við Unnur innilegar samúðarkveðjur.

Orri Vigfússon.