Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur: "Við göngum í dag til kosninga og veljum borgarstjórn og borgarstjóra til næstu fjögurra ára."

Við göngum í dag til kosninga og veljum borgarstjórn og borgarstjóra til næstu fjögurra ára. Þessar kosningar eru mikilvægar, því verkefni borgarstjórnar snerta líf allra borgarbúa, jafnt eldri kynslóða sem barnabarna þeirra á leikskólum og allt þar á milli.

Ég hef beitt mér fyrir nýjum vinnubrögðum í borgarstjórn og lagt mig fram um að vinna vel með öllum, sama úr hvaða flokki þeir koma. Í mínum huga er enginn efi um að þannig njóta borgarbúar best krafta allra borgarfulltrúa. Samvinna borgarfulltrúa, starfsmanna og íbúa hefur sannað gildi sitt í farsælum lausnum og stöðugleika fyrir fjölskyldur í Reykjavík. Með skýrum markmiðum og nýjum vinnubrögðum höfum við unnið okkur út úr erfiðum aðstæðum, tryggt að borgin stendur sterk og borgarbúar þurfa ekki að óttast um örugga og öflugu þjónustu hennar. Það er þessi árangur sem mig langar til að standa vörð um áfram, þessi trausta staða sem skiptir svo miklu fyrir börnin okkar og framtíðina.

Við sameinuðumst um aðgerðaáætlun vegna efnahagsástandsins þar sem forgangsraðað var í þágu barna og velferðar. Við ákváðum að hækka ekki skatta, því fjölskyldurnar í borginni mega ekki við meiri útgjöldum. Við sögðum ekki upp fastráðnum starfsmönnum borgarinnar á erfiðum tímum og borgarsjóður hefur verið rekinn hallalaus. Við höfum brugðist við atvinnuástandinu af ábyrgð en á þessu ári verður framkvæmt fyrir 26 milljarða á vegum Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar, sem veitir fjölda manns atvinnu, en til samanburðar má nefna að ríkið framkvæmir á sama tíma fyrir 18 milljarða.

Ég vona að í dag verði kosið um þessi góðu verk og þau nýju vinnubrögð sem undanfarið hafa einkennt stjórn Reykjavíkur. Því að þrátt fyrir að árangurinn í borgarstjórn undanfarin tvö ár sé mikill er auðvelt að glata honum ef ekki er rétt á málum haldið. Framundan eru krefjandi verkefni sem þarf að leysa af ábyrgð og festu. Til að tryggja áfram vinnubrögð samstarfs og trausta fjármálastjórn þarf Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík góða kosningu. Þannig getum við haldið áfram að vinna saman í þágu allra borgarbúa.

Höfundur er borgarstjóri.

Höf.: Hönnu Birnu Kristjánsdóttur