Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson: "Vart er vanþörf á að rifja upp að kjörtímabilið í Reykjavík hefur um margt verið sérstakt. En þó er vert að benda á þá staðreynd að það voru framsóknarmenn í Reykjavík sem komu ró á í borginni."

Vart er vanþörf á að rifja upp að kjörtímabilið í Reykjavík hefur um margt verið sérstakt. En þó er vert að benda á þá staðreynd að það voru framsóknarmenn í Reykjavík sem komu ró á í borginni. Síðan það gerðist hefur rekstur borgarinnar gengið með ágætum og betur en margir þorðu að vona.

Ró í landsmálunum

Það sama var uppi á teningnum í landsmálunum í fyrra, þegar hver höndin var uppi á móti annarri á Alþingi og landið stjórnlaust. Þá tóku framsóknarmenn frumkvæðið, vörðu minnihlutastjórn falli, fram að kosningum um vorið. Það er ekki ný staða fyrir Framsóknarflokkinn að miðla málum og fá menn til samstarfs. Þetta er kjarni þess sem flokkurinn snýst um, að fá menn til að starfa saman til hagsbóta fyrir alla.

Framsóknarandinn

Ég hef að undanförnu farið vítt og breitt um landið og heilsað upp á fólk. Framsóknarmenn og aðra. Samstaða og samhugur Framsóknarmanna var einkar áberandi. Þetta er sú hugmyndafræði sem stofnað var til fyrir 1916 og hefur verið þjóðinni samstiga alla tíð síðan. Framsóknarflokkurinn er enn ungur í anda og hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun.

Endurnýjunin

Grasrótin stóð fyrir mestu endurnýjun í sögu íslenskra stjórnmála fyrir rúmu ári og þurfti ekki að bíða eftir niðurstöðum rannsókna til að sjá að samfélagið hafði farið út af sporinu og róttækar aðgerðir þyrfti til að finna aftur gildin sem samfélag þarf að byggjast á og verið hafa grunngildi flokksins. Grasrótin krafðist þess að flokkurinn mundi ekki gera það sem væri best fyrir flokkinn á hverjum tíma heldur best fyrir landið og byggja endurreisnina á rökum og fagmennsku sem ekki væri háð sínum flokki eða öðrum.

Samvinnan

Í sveitarstjórnarmálum hafa menn lýst sig reiðubúna til að taka þátt í að leysa vanda annarra þótt þægilegast hefði verið að sitja á hliðarlínunni. Í Borgarbyggð hefðu framsóknarmenn t.d. getað setið hjá án þess að taka ábyrgð. Þess í stað buðust menn til að leggjast á árarnar og taka þátt í erfiðum ákvörðunum. Framsóknarmenn munu aldrei skorast undan því að takast á hendur erfið verkefni. Þau verða best leyst með samvinnu.

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.