Ragna Guðmundsdóttir fæddist í Bæ í Steingrímsfirði hinn 11. október 1925 og ólst þar upp. Hún lést 9. maí sl.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Ragnar Guðmundsson frá Reykjanesi í Árneshreppi og Margrét Ólöf Guðbrandsdóttir frá Byrgisvík sem er í sama hreppi. Ragna var næstelst af 6 systkinum; eitt þeirra dó eins árs og Kristbjörg fyrir nokkrum árum en Bjarni, Branddís og Ingimar lifa enn. Að auki eiga þau uppeldisbróðurinn Lýð Steingrímsson.

Ragna giftist Guðmundi Halldórssyni sem einnig var frá Bæ og áttu þau 4 syni; Halldór Gunnar, Birgi Karl, Guðmund Ragnar og Martein en hann dó sama dag og hann fæddist. Ragna og Guðmundur bjuggu í Hafnarfirði fyrst um sinn en fluttu svo á Drangsnes í Kaldrananeshreppi og keyptu síðar Ásmundanes í Bjarnarfirði þar sem þau voru með silungaeldi og æðarvarp en Guðmundur hafði fram að því verið útgerðarmaður. Hann lést árið 2002 á Heilbrigðisstofnunni á Hólmavík. Þangað flutti Ragna nokkru síðar og þar dvaldi hún þar til hún lést.

Ragna var jarðsungin frá Drangsneskapellu 15. maí 2010.

Þegar pabbi hringdi í mig sunnudagskvöldið þann 9. maí og sagði mér að amma mín, Ragna Guðmundsdóttir sem ég er nefnd eftir, væri dáin brá mér ekki. Ég varð ekki einu sinni sorgmædd, ég held að hún hafi sjálf orðið manna fegnust að fá hvíld eftir langa og löngu tapaða baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn sem og lélegt líkamlegt ásigkomulag. Eiginlega finnst mér að hún hafi þegar verið hálfpartinn farin, þetta var bara andinn að fylgja ónýtum líkamanum.

Það er erfitt að rifja upp einstakar eða merkilegar minningar um ömmu, hún var fyrst og fremst hlý og traust nærvera í mínu lífi. Sú sem ég fór til eftir skóla og sníkti hjá kökur, sem ég fylgdist með hræra í sláturdeigi með berum höndum og sem ég fór með í berjamó. Ennfremur man ég að á veturna þegar hún fór í búðina, teymdi hún vörurnar aftur til baka á blárri sjóþotu og á vorin fór ég með henni niður að tjörninni við sílahúsið á Ásmundanesi og hjálpaði henni að gefa æðarkollunum sem hún spjallaði við á fuglamáli.

Hún var mikill aðdáandi Leiðarljóss og lifði sig svo inn í handboltaleiki að maður veltist um af hlátri. Þetta eru auðvitað ósköp hversdagslegar minningar en svona man ég hana ömmu mína. Ég finn til þess núna þegar ég er að rembast við að rifja upp áhugaverðar minningar, hvað ég veit í rauninni lítið um hana og meirihluta lífs hennar. En þannig birtist hún mér; hlýleg, róleg og vinnusöm handavinnukona, æðarbóndi og náttúruunnandi. Þessa náttúruunun hef ég sjálfsagt fengið frá henni, ég staldra gjarnan við til að horfa á sjóinn eða fylgjast með smáfuglum.

Ragna amma var ein af þeim sem kenndu mér að meta fegurð náttúrunnar og lífríki hennar – ja, að undanskildum skrambans minkunum og mávunum.

Að síðustu vil ég koma á framfæri þökkum til starfmanna Heilbrigðisstofnunar Hólmavíkur fyrir að annast ömmu síðustu árin.

Hvíl í friði, elsku amma.

Ragna Ólöf Guðmundsdóttir, Drangsnesi