Undan hamrinum? Verði frumvörpin að lögum í tæka tíð munu ný úrræði skuldara verða virk áður en heimili þeirra verða seld nauðungarsölu.
Undan hamrinum? Verði frumvörpin að lögum í tæka tíð munu ný úrræði skuldara verða virk áður en heimili þeirra verða seld nauðungarsölu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Á. Sigurðsson skulias@mbl.is Á Alþingi liggja nú fyrir fjögur stjórnarfrumvörp sem ætlað er að bæta stöðu skuldara gagnvart kröfuhöfum sínum og gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar.

Fréttaskýring

Skúli Á. Sigurðsson

skulias@mbl.is

Á Alþingi liggja nú fyrir fjögur stjórnarfrumvörp sem ætlað er að bæta stöðu skuldara gagnvart kröfuhöfum sínum og gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar. Nái þau fram að ganga áður en frestir samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um nauðungarsölu renna út gætu þau orðið til þess að skuldarar komist hjá því að missa heimili sín í hendur kröfuhafa á nauðungarsölu.

Fyrstu frestirnir sem veittir voru renna senn út, en þeir voru aðeins gefnir í málum þar sem um var að ræða heimili fólks. Fari sem horfir munu 50 heimili sem fengið hafa frest fara á nauðungarsölu í Reykjavík í júní og 25 á Akureyri.

Skuldurum veitt úrræði

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, er flutningsmaður þriggja frumvarpanna og segist vona að þingið muni afgreiða frumvörpin áður en fyrstu eignir fara á nauðungarsölu aðra vikuna í júní. Alþingi kemur saman á ný eftir sveitarstjórnarkosningar á mánudag.

„Markmiðið er að fólk hafi viðunandi viðspyrnu og úrræði til að semja um sín skuldamál og haldi sínu húsnæði,“ segir Árni Páll og kveður frest samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um nauðungarsölu ekki hafa átt að fela í sér eiginlega lausn á skuldavandanum.

Í fyrstu grein frumvarps Árna til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga segir að þeim sé ætlað að gera „einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu“. Verði þetta frumvarp auk hinna þriggja að lögum hyggur Árni Páll að úrræði þeirra geti leyst vanda margra sem glíma við greiðsluerfiðleika. Þau efli samningsstöðu skuldara, tryggi rétt þeirra við nauðungaruppboð fasteigna þeirra og með lögum um umboðsmann skuldara fái þeir málsvara sem gætir hagsmuna þeirra.

Fá að leigja seld heimili sín

Fjórða frumvarpið sem um ræðir kveður á um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, lögum um nauðungarsölur og fleiri lögum. Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, er flutningsmaður frumvarpsins, en í því er lagt til að mögulegt verði að leyfa fólki að búa í húsnæði sínu gegn leigu í allt að eitt ár eftir að það hefur verið selt nauðungarsölu. Lagt er til að samskonar ákvæði verði einnig tekið upp í gjaldþrotalög.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að við nauðungarsölu lækki allar kröfur á hendur skuldara í samræmi við markaðsverð eignar burtséð frá því hvað fæst fyrir eignina. Með þessu er réttur skuldara betur tryggður en nú er það svo að við útreikning á eftirstandandi skuldum er miðað við það verð sem fæst við nauðungarsölu.

Í öndunarvél fjármálakerfis

„Við lítum á þetta þannig að [úrræðin] séu öndunarvélar fjármálakerfisins,“ segir Friðrik Ó. Friðriksson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, og segir að meira þurfi að gera til að tryggja að sem fæstir þurfi að notfæra sér úrræðin.

„Við höfum ítrekað sagt að það þurfi að fara í tafarlausar leiðréttingar skulda,“ segir Friðrik og segir fólki haldið á floti í stað þess að það sé dregið á land.

UMBOÐSMAÐUR SKULDARA OG GREIÐSLUAÐLÖGUN

Lög sett til verndar skuldurum

Í frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara er kveðið á um að ríkisstofnun með því nafni verði sett á fót. Henni skuli ætlað að gæta hagsmuna og réttinda þeirra sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum. Umboðsmaður skal hafa umsjón með aðlögun greiðslna að greiðslugetu skuldara, taka við ábendingum um ágalla í lánastarfsemi og veita alhliða ráðgjöf um fjármál heimila. Þá skal hann setja verklagsreglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar. Í þriðju grein frumvarps til laga um greiðsluaðlögun er heimild til að veita skuldara algera eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest, skilmálabreytingar, breytt greiðsluform og fleiri úrræði. Beita má öllum úrræðum greinarinnar í senn. Þurfi þess með verður hægt að fá greiðsluaðlögun fram með dómi.

Bæði lagafrumvörpin voru tekin til fyrstu umræðu í apríl.