„Við eigum þrjár vinkonur afmæli í júlí hérna í vinnunni og þess vegna ætlum við að halda partí hérna á föstudag, fara út á bát og skemmta okkur með vinum okkar,“ segir Anna Samúelsdóttir. Hún er 25 ára gömul í dag.
Anna vinnur í sumar sem leiðsögumaður hjá hvalaskoðuninni Eldingu og verða henni því hæg heimatökin í partíinu á föstudag.
Anna segist jafnframt vera mikið afmælisbarn. „Já, mér finnst þetta alltaf gaman og núna er ég búin að fá kokkinn hérna í skipinu til að baka handa mér köku og svona,“ segir Anna og hlær.
11 ára afmælisdagurinn er henni eftirminnilegur. „Við vorum að keyra fjölskyldan til Egilsstaða og okkur leiddist svo í bílnum að systkini mín sungu fyrir mig afmælissönginn eiginlega bara alla leiðina.“ Anna er hvort tveggja að klára BA-próf í ensku og að fara á sitt annað ár í hjúkrunarfræði í haust. „Mér finnst þetta fara ágætlega saman að blanda saman góðum enskum bókmenntum og hjúkrunarfræðinni. Ég er að lesa þessa dagana skoskar bókmenntir fyrir kúrs sem ég ætla að taka í haust.“ Anna er jafnframt mikil útivistarmanneskja og hefur gaman af gönguferðum. haa@mbl.is