Kartöflur Bændur eru þakklátir fyrir góða uppskeru og segja tíðina aldrei hafa verið betri.
Kartöflur Bændur eru þakklátir fyrir góða uppskeru og segja tíðina aldrei hafa verið betri. — Morgunblaðið/Golli
Gunnþórunn Jónsdóttir gunnthorunn@mbl.is Kartöfluuppskeran hefur hingað til verið framar vonum. Bændur eru ljómandi ánægðir með góða tíð og segja hana aldrei hafa verið betri. Uppskeran var óvenju snemma í ár en fyrstu kartöflurnar komu í verslanir 1.

Gunnþórunn Jónsdóttir

gunnthorunn@mbl.is

Kartöfluuppskeran hefur hingað til verið framar vonum. Bændur eru ljómandi ánægðir með góða tíð og segja hana aldrei hafa verið betri. Uppskeran var óvenju snemma í ár en fyrstu kartöflurnar komu í verslanir 1. júlí. Eigi að síður er langur tími eftir af uppskerunni og menn varir um sig með tilliti til uppskerubrestsins í fyrrasumar vegna frosta sem ollu þá gríðarlegu tjóni.

Vignir Jónsson, gulrótabóndi í Auðsholti á Flúðum, fékk fyrstu kartöfluuppskeru sumarsins. „Ég var alveg helvíti montinn að vera fyrstur,“ segir Vignir og hlær. „Þetta gengur alveg ljómandi vel. Tíðin er alveg með ólíkindum. Það er eins og þetta sé algjörlega pantað“. Uppskeran var viku á undan áætlun í ár. Tíðin hefur verið mjög góð fyrir kartöflurnar en þá er litið til mikils hita á daginn en raka og jafnvel rigningar á nóttunni.

„Þetta er bara framar vonum og þetta hefur aldrei verið fyrr á ferðinni. Það hefur aldrei verið betri tíð,“ segir Vignir. „Við getum nú ekki kvartað yfir neinu“.

Getur átt von á öllu

Ármann Ólafsson, kartöflubóndi í Þykkvabæ, segir allt hafa gengið ótrúlega vel en hann hefur samt sem áður varann á. „Maður veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, miðað við í fyrra. Þá fengum við næturfrost 23. júlí,“ segir Ármann en tvær kaldar nætur ollu miklu tjóni fyrir uppskeruna síðasta sumar. Hann segir þetta þó líta óvenju vel út. „Við verðum að vona að þetta haldi áfram að ganga svona vel. Við erum búin að fá einmunatíð á þetta, en það er langur tími eftir og maður getur átt von á öllu. Það getur allt skeð,“ segir Ármann. „Maður má ekki vera of bjartsýnn, en við þökkum fyrir það sem komið er“.