Austurlenskt handverk hefur fengið athvarf í fyrstu hagleikssmiðju landsins sem opnuð var á Djúpavogi nýverið. Hagleikssmiðjan er að kanadískri fyrirmynd en slíkar smiðjur eru reknar víða í Kanada til að varðveita handverk hvers svæðis fyrir sig og gefa gestum kost á að fræðast um sögu þess.
Smiðjan hefur fengið nafnið Arfleifð og er í eigu Ágústu Margrétar Árnadóttur hönnuðar. Í Arfleifð sýnir Ágústa gestum töskur, fylgihluti og fatnað úr alíslenskum hráefnum á borð við hreindýrshorn, leður, fiskiroð og fleira úr umhverfi smiðjunnar.
Fræðst um uppruna varanna
Í smiðjunni er hægt að fræðast um uppruna varanna, hráefnisins og starfseminnar og fylgjast með verkferlinu og vörunum verða til.Þá geta gestir einnig fengið upplýsingar um vinnslu og notkun skinna á Íslandi frá upphafi og um handverk, hönnun og listir í samtímanum.Einnig er hægt að kaupa vörur sem til verða í smiðjunni.
Alþjóðlegt samstarfsverkefni
Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Hornafirði er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem miðar að því að yfirfæra kanadíska viðskiptalíkanið fyrir hagleikssmiðjur til Norður-Evrópu og er opnun smiðjunnar á Djúpavogi þáttur í verkefninu, sem styrkt er af NPP norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins.Hagleikssmiðjunum er ætlað að sameina menningu, handverk og ferðaþjónustu til að stuðla að atvinnusköpun í sveitum og varðveislu þekkingar.
Vefur hagleikssmiðjunnar er www.arfleifd.is en þar er hægt að kynnast smiðjunni betur og því sem hún hefur upp á að bjóða. sunna@mbl.is