Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áhyggjur af því að álagspróf þau sem lögð hafa verið fyrir 91 banka á evrusvæðinu séu ekki nógu ströng. Jafnframt sé nauðsynlegt að ferlið við vinnslu prófanna sé gagnsærra. Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins um „efnahagslega heilsu“ Evrópu, sem birt var í gær.
Niðurstöður álagsprófanna, sem ætlað er að meta styrk bankanna við erfiðar aðstæður, verða gerðar opinberar á morgun. AGS leggur áherslu á að upplýsingagjöf samhliða birtingunni sé eins mikil og mögulegt er. Allar forsendur og útkomur þurfi að koma fram, til að draga úr tortryggni markaðsaðila, en hún hefur verið nokkur. Sú uppástunga AGS hefur mætt andstöðu stjórnvalda, sem telja sumar upplýsingar of viðkvæmar til að þola dagsljósið. Lagaflækjur gætu jafnvel komið í veg fyrir birtingu.