Súkkulaðiveggur Kakó er nýtilegt til margra hluta.
Súkkulaðiveggur Kakó er nýtilegt til margra hluta.
Martröð evrópskra sælgætisgrísa kann að vera runnin upp. Kaupsýslumaðurinn Anthony Ward keypti á dögunum framvirka samninga sem tryggja honum kauprétt á öllum kakóbirgðum Evrópu.

Martröð evrópskra sælgætisgrísa kann að vera runnin upp. Kaupsýslumaðurinn Anthony Ward keypti á dögunum framvirka samninga sem tryggja honum kauprétt á öllum kakóbirgðum Evrópu. Það er að segja Ward hefur rétt á að kaupa ríflega 240 þúsund tonn af kakó á næstunni og samsvarar það um 7% af heimsframleiðslunni á árinu.

„Kakófingur“ kominn á kreik

Með þessum kaupum hefur vogunarsjóðurinn sem Ward fer fyrir, Armajaro, tryggt sér undirtökin á kakómarkaðnum á næstu misserum og gæti í krafti þess haft töluverð áhrif á verð á almennum neysluvörum á borð við súkkulaði. Fregnir af kaupunum leiddu til þess að Ward hefur verið uppnefndur „kakófingur“ enda minnir stöðutaka hans á hrávörumarkaði í augum sumra á gróðrabrall Gullfingurs gamla í samnefndri kvikmynd um breska njósnarann James Bond. Kaupin hafa jafnframt skotið neytendum skelk í bringu og þannig er breska ríkisútvarpið, BBC, með fréttaskýringu um hvort þau muni leiða til þess að verð á súkkulaði hækki fyrir næstu jól. Aðrir benda hinsvegar á að kaup Wards séu ósköp eðlileg. Fjallað er um þau í leiðara Financial Times og þar kemur fram að Ward sé einungis að veðja á frekari hækkanir á heimsmarkaði vegna tíðinda af slæmri kakóuppskeru í ríkjum á borð við Fílabeinsströndina og Ghana, en þau eru umsvifamiklir kakóframleiðendur, auk annarra þátta sem kunna að auka eftirspurn umfram framboð.

ornarnar@mbl.is