Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Það er sumar og sól og líflegt í miðbænum jafnt um daga sem nætur. Björn Jakobsson á B5 þekkir það manna best. „Það er rosalega gott framtak hjá borgaryfirvöldum að loka vissa daga völdum götum í miðbænum. Það skapar stemningu sem minnir á flottustu göngugötur Evrópu og einhver ljúfur og jákvæður andi sem kemur yfir fólk,“ segir hann.
Ekki verður annað skilið af Birni en að reksturinn gangi ágætlega. „Þetta er kannski enginn dans á rósum, en við getum verið sátt við stöðuna,“ segir hann og þakkar m.a. einvalaliði starfsmanna hversu vel gengur. „Auðvitað eru menn svekktir yfir hvað bæði álögur hins opinbera hafa aukist og eins hversu hátt leiguverð veitingamenn þurfa að greiða, iðulega í engu samræmi við það sem tíðkast í öðrum geirum.“
Búllan laumaðist inn
B5 þykir mikill úrvalsstaður. Allur umbúnaður er sérlega smekklegur og var toppurinn á tilverunni í góðærinu að fá sér þar kvöldverð áður en haldið var út á lífið. Það má líta á það sem skemmtilegt afturhvarf til einfaldari gilda að búið er að gera óvæntar breytingar í eldhúsinu og á matseðlinum um leið. „Fyrir þremur mánuðum hófum við samstarf við Hamborgarabúllu Tómasar sem einfaldlega sér um eldhúsið hjá okkur. Fólk getur því litið hérna inn hvenær sem er yfir daginn og fengið sér almennilega steik eða búlluborgara og raunar allan matseðilinn sem Hamborgarabúllan er orðin þekkt fyrir,“ segir Björn. „Okkur fannst eitthvað sexí við þetta uppátæki. Þetta er skemmtilega falið konsept og hvergi hægt að sjá merki um Búlluna á staðnum nema þegar komið er inn í eldhúsið. Gestirnir virðast taka þessu mjög vel og finnst þetta bara flott.“B5 er því orðin ansi skemmtileg blanda þar sem hægt er að borða jarðbundna borgara í stílfærðu umhverfinu. „Það er líka gaman að líta bara inn og fá sér glas af rauðvíni eða hvítvíni, og við gætum þess að hafa meira að segja aðstöðu fyrir börnin til að lita.“
Björn bendir á að svo virðist sem höfuðborgarbúar fari seinna en áður niður í bæ um helgar, og hefur það verið rakið til kreppunnar. „Þessi þróun kemur sér eðlilega ekki mjög vel fyrir staði eins og þennan,“ segir hann. „Hér áður fyrr var það orðið vaninn að fara snemma um kvöld í miðborgina, fá sér kvöldverð á góðum stað og halda síðan áfram að skemmta sér út nóttina. Nú er eins og rútínan hafi breyst hjá mörgum, og þeir verja frekar kvöldinu í heimahúsi í góðra vina hópi, en leggja síðan af stað.“