Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skýrði í gær frá hertum viðskiptaþvingunum gegn einræðisstjórninni í Norður-Kóreu vegna herskipadeilunnar við grannríkið Suður-Kóreu nýverið.
Eins og rakið hefur verið snerist deilan um þær ásakanir Suður-Kóreumanna að norðurkóreski herinn bæri ábyrgð á því að herskipið Cheonan sökk í mars með þeim afleiðingum að 46 suðurkóreskir sjóliðar fengu vota gröf. Vakti málið gífurlega reiði í Suður-Kóreu.
Alþjóðleg rannsóknarnefnd sem fór yfir sönnunargögn í málinu, brot úr tundurskeyti og aðra hluti, komst að þeirri einróma niðurstöðu að norðurkóreski sjóherinn hefði verið að verki, niðurstaða sem Bandaríkjastjórn hefur nú brugðist við.
Clinton heimsótti herlausa svæðið á milli Norður- og Suður-Kóreu í gær en þar er að finna byggingar og aðra borgaralega innviði. Með henni í för var Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem sagði vísbendingar um að Norður-Kóreustjórn hefði fært sig upp á skaftið í ögrunum sínum í aðdraganda þess að hinn aldurhnigni leiðtogi Kim Jong-il láti senn af völdum.
Komi ekki niður á almenningi
Clinton rökstuddi ákvörðunina á blaðamannafundi í Seoul þar sem hún lagði áherslu á að aðgerðirnar beindust ekki gegn almenningi í Norður-Kóreu. Þvert á móti sé þeim ætlað að draga þrótt úr kjarnorkuáætlun landsins og slá á vopnasölu og innflutning á lúxusvörum, munaði sem yfirstétt einræðisstjórnarinnar á ein kost á. Stjórnin í Pyongyang þurfi að gangast við árásinni á herskipið og stíga skref í átt til fullkominnar afvopnunar kjarnavopna.Bandarískum bönkum er óheimilt að eiga í viðskiptum við norðurkóresk fyrirtæki og telur greinarhöfundur New York Times því einsýnt að Bandaríkjastjórn verði að reiða sig á banka í öðrum ríkjum, eigi refsiaðgerðirnar að bera árangur.
Kínastjórn færir Bandaríkjastjórn litlar þakkir fyrir refsiaðgerðirnar og sakar hana um að auka á spennuna á Kóreuskaga. Hefur Kína verið helsti bakhjarl N-Kóreu í Asíu.
» Fram kemur í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International um heilbrigðiskerfið í Norður-Kóreu að það sé svo vanbúið að aflima þurfi sjúklinga án deyfilyfja.
» Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mótmælti niðurstöðum skýrslunnar sem væru úreltar.
» Hitt er óumdeilt að hungursneyðir eru tíðar í landinu.