Það stingur alltaf í augu þegar fólk tjáir sig fjálglega eða jafnvel af varfærni um hluti, menn og málefni sem það þekkir hvorki haus né sporð á.

Það stingur alltaf í augu þegar fólk tjáir sig fjálglega eða jafnvel af varfærni um hluti, menn og málefni sem það þekkir hvorki haus né sporð á. Þannig ber oft að taka ummælum heimspekinga, stjórnmálafræðinga og annarra ólöglærðra um lagaleg álitaefni með nokkrum fyrirvara. Jarðfræðingur að tjá sig um anda laganna og hagfræðingur að tíunda vilja löggjafans vekja mér ugg.

Nú er það ekki svo að ég telji jarðfræði, heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði á einhvern hátt síðri fræði en lögfræði. Öðru nær. En á sama hátt og ég kýs að láta verkfræðing reisa húsið mitt frekar en sellóleikara, endurskoðanda fara með bókhaldið frekar en blikksmið og bakara frekar en kynjafræðing baka afmælistertu móður minnar kýs ég að lögmenntað fólk segi mér frá réttarstöðu minni, gildandi lögum eða öðru því um líku. Þætti einhverjum það eðlilegt ef lögspekingur sæti fyrir svörum um hvenær von væri á Kötlugosi? Eða hvort rigna myndi í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíð? Eða hvort lægi fyrir vergri landsframleiðslu að aukast á næsta ársfjórðingi vegna sviptinga á Evrópumarkaði og aðgerða ríkisstjórnarinnar? Varla.

Hvað veldur því að lagatúlkanir og skoðanir leikra manna rata síendurtekið í fjölmiðla og almenna umræðu líkt og um heilög sannindi sé að ræða eða niðurstöður vísindalegra rannsókna? Svarið er í það minnsta tvíþætt.

Í fyrsta lagi eru lög að miklu leyti aðeins bókstafur, orð á blaði sem boða eitt og banna annað. Leikur maður getur hæglega athugað og tjáð sig um hverjir munu erfa hann, hvenær honum sé heimilt að rifta gerðum samningi og hvort hann megi mann drepa. Ekkert er óeðlilegt við að jarðfræðingur eða snikkari slái því föstu að almenn hegningarlög leggi refsingu við að svipta menn lífi.

Málið kann að vandast þegar dýpra er kafað: Munu stjúpbörn erfa manninn? Hvað felst í verulegri vanefnd? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Þegar um er að ræða snúin og torræð lagaleg úrlausnarefni verður að teljast heppilegra, í það minnsta öruggara, að leita á náðir lögmenntaðra þó leikmenn geti leyst úr einfaldari álitamálum. Á sama hátt dregur undirritaður fimm sjálfur frá sjö en lætur öðrum eftir að diffra. Og stöku sinnum að deila.

Í annan stað eru lögfróðir oft tregir til að tjá sig opinberlega um deilur, dómsmál, réttarstöðu, líklegar dómsniðurstöður og svo framvegis. Lögfræði er ekki nákvæm vísindi og því kannski eðlilegt að lögspekingar séu orðvarir. Þeir hafa þó slíkan vara á sér að fræðimenn á öðrum sviðum eru oft fengnir til að tjá sig í þeirra stað í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi af illri nauðsyn.

Einn prófessor við lagadeild Háskóla orðaði það svo að hann vildi ekki festast í „hringiðu kjaftæðisins“. Hvað yrði um þá hringiðu ef sellóleikaranum yrði alfarið falið að sjá um að leika á blessað sellóið? skulias@mbl.is

Skúli Á. Sigurðsson

Höf.: Skúli Á. Sigurðsson