[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á golfvellinum Sigurður Elvar Þórólfsson seth@mbl.is Íslandsmótið í höggleik í golfi hófst í morgun á Kiðjabergsvelli í Grímsnesi og er þetta í fyrsta sinn sem mótið fer fram á þeim velli.

Á golfvellinum

Sigurður Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

Íslandsmótið í höggleik í golfi hófst í morgun á Kiðjabergsvelli í Grímsnesi og er þetta í fyrsta sinn sem mótið fer fram á þeim velli. Það eru ekki nema 17 ár frá því að byrjað var að leika á eldri hluta Kiðjabergsvallar og árið 2005 var völlurinn stækkaður í 18 holur. Hannes Þorsteinsson teiknaði og hannaði völlinn. Haraldur Már Stefánsson, vallarstjóri Kiðjabergsvallar, hafði umsjón með stækkun vallarins og gerði hann ýmsar breytingar á vellinum í því ferli.

Kiðjabergsvöllur er ekkert lamb að leika sér við og ef vindurinn nær sér á strik á meðan mótið fer fram má búast við frekar háu skori.

Í samtölum íþróttafréttamanna Morgunblaðsins við keppendur Íslandsmótsins á undanförnum dögum kom í ljós að kylfingar hafa misjafnar skoðanir á vellinum. Harðar og litlar flatir eru helsta áskorunin á vellinum, og það er erfitt að láta boltann stöðvast á mörgum flötum.

Haraldur Már Stefánsson vallarstjóri segir að völlurinn sé tilbúinn fyrir Íslandsmótið í höggleik.

„Það var ákveðið á golfþingi seint á síðasta ári að halda mótið á vellinum. Við fengum því ekki mikinn tíma til þess að undirbúa okkur og vissulega eru svæði á vellinum sem á eftir að vinna betur í. En golfvöllurinn sjálfur í fínu ástandi og glerharðar flatir eiga ekki að vera vandamál fyrir bestu kylfinga Íslands. Það er ekki hægt að fara í golf og skilja „heilann“ eftir heima,“ sagði vallarstjórinn við Morgunblaðið í gær en hann var þá að leggja lokahönd á undirbúningsvinnuna. „Það verður allt klárt hjá okkur en eflaust klárum við þetta seint í nótt.“ Aðeins 5 starfsmenn sjá um umhirðu vallarsins en á undanförnum vikum hafa klúbbfélagar tekið að sér ýmis verkefni. „Það er ótrúlegur samhugur hjá klúbbfélögum varðandi þetta mót. Hér hafa sjálfboðaliðar unnið að mörgum verkerfnum sem snúa að mótahaldinu sjálfu, og einnig að ýmsu öðru sem snýr að vellinum, aðkomu gesta og klúbbhúsi. Það er tilhlökkun og gleði hjá okkur öllum,“ sagði Haraldur og það var greinilegt að hann mátti ekkert vera að því að mala í símann við blaðamann korteri fyrir mót.

Hlynur elskar Kiðjaberg

„Kiðjaberg er gullfallegur „target“ völlur þar sem maður þarf að hitta brautir. Ég elska að spila völlinn. Þetta er einn af mínum uppáhaldsvöllum og ég þekki völlinn mjög vel enda er hann stutt frá Selfossi þar se ég bý. Ég hlakka bara til,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson í gær við Morgunblaðið en hann er efstur á stigalistanum á Eimskipsmótaröðinni að loknum þremur mótum. Hlynur ætlar sér að gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum. „Já ég ætla ekkert að leyna því að ég stefni á að vinna þetta mót. Staðan á stigalistanum skiptir engu máli þegar mótið byrjar. Þessi völlur er ekkert ósvipaður og Urriðavöllur. Það þarf að hitta brautir og halda boltanum í leik og forðast vandræði,“ sagði Hlynur í gær en hann sigraði á síðasta stigamóti sem fram fór á Urriðavelli. Hlynur gefur Kiðjabergsvelli góða einkunn þegar hann var spurður um gæði flata, brauta og teiga. „Það má eflaust finna að einhverju á þessum velli eins og öllum öðrum. Það eru nokkrar flatir sem gætu eflaust verið betri en á heildina litið er völlurinn í toppstandi,“ bætti Hlynur við.