Hálfíslenski markvörðurinn Gunnar Nielsen hefur framlengt samning sinn við enska knattspyrnufélagið Manchester City og gildir hann nú til næstu tveggja ára. Hann verður hins vegar í láni hjá 2. deildar félagi Tranmere næsta hálfa árið. Gunnar, sem á íslenska móður, lék fyrsta leik sinn í aðalliði City gegn Arsenal á síðustu leiktíð þegar hann kom inn á í stað Shay Given á Emirates-leikvanginum, og hélt þá hreinu. Þetta er eini leikur hans með aðalliðinu.
Efsta kona heimslistans í tennis, Serena Williams , mun væntanlega missa af þremur mótum í aðdraganda Opna bandaríska mótsins eftir að hafa skorið sig á glerbroti á veitingastað. Serena fékk skurð á hægri fót þegar hún skar sig á brotnu glasi á veitingastað í síðustu viku. Til stóð að hún yrði á faraldsfæti á næstunni í Istanbul, Cincinnati og Montreal en misstir væntanlega af þessum þremur mótum. Opna bandaríska mótið hefst 30. ágúst.
I ngólfur Sigurðsson skoraði bæði mörk unglingalandsliðs karla í knattspyrnu skipaðs leikmönnum 18 ára og yngri þegar það vann Wales í fyrradag, 2:1, í fyrsta leik sínum á Svíþjóðarmótinu. Ingólfur skoraði bæði mörkin úr vítaspyrnum eftir að Walesbúar höfðu komist yfir. Ísland mætir heimamönnum í næsta leik í dag kl. 17.
Króatíski landsliðsmaðurinn Eduardo da Silva , sem leikið hefur með Arsenal síðustu misseri, hefur skrifað undir samning til fjögurra ára við úkraínska félagið Shaktar Donetsk.
Norður-írski kylfingurinn Darren Clarke mun aðstoða Colin Montgomerie , fyrirliða Ryder-liðs Evrópu, þegar liðið mætir því bandaríska á Celtic Manor í haust. Montgomerie hefur valið sér þrjá aðstoðarfyrirliða en auk Clarke verða Daninn Thomas Björn og Írinn Paul McGinley í því hlutverki. Keppnin hefst hinn 1. október. Corey Pavin fyrirliði bandaríska úrvalsliðsins hefur valið þá Tom Lehman , Jeff Sluman og Davis Love sem aðstoðarfyrirliða.