Gleði Makríllinn færir starfsfólki hjá Godthaab í Nöf í Vestmannaeyjum mikla vinnu og ánægju.
Gleði Makríllinn færir starfsfólki hjá Godthaab í Nöf í Vestmannaeyjum mikla vinnu og ánægju. — Morgunblaðið/Sigurgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Árni Friðriksson, rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunarinnar, hélt í 25 daga leiðangur umhverfis landið í fyrradag í þeim tilgangi að meta útbreiðslu, göngur og fæðuvistfræði makríls við landið.

FRÉTTASKÝRING

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Árni Friðriksson, rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunarinnar, hélt í 25 daga leiðangur umhverfis landið í fyrradag í þeim tilgangi að meta útbreiðslu, göngur og fæðuvistfræði makríls við landið.

Ekki er talið að makríll hrygni innan íslensku lögsögunnar heldur gangi hann fyrst og fremst á Íslandsmið í fæðuleit. Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur og leiðangursstjóri, segir að uppistaðan í fæðunni sé rauðáta og ljósáta, en síðan taki hann önnur dýr sem hann ráði við, eins og smáan smokk, loðnu og alls konar fiskseiði. Í gærmorgun hafi hann til dæmis séð mjög smávaxna fiska í mögum makríls, sem leiðangursmenn fengu út af Snæfellsnesi. Hann hafi ekki getað greint tegundirnar en annaðhvort hafi verið um að ræða bolfiskaseiði eða spærling. „Hann tekur allt sem fyrir honum verður en uppistaðan í fæðunni er áta,“ segir Sveinn.

Seiði ekki áberandi í mögum

NA-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) lagði til að veiða mætti að hámarki 570 þúsund tonn af makríl í Norður-Atlantshafi í sumar, en sjávarútvegsráðherra heimilaði íslenskum skipum að veiða 130 þúsund tonn. Í fyrra var markílaflinn á umræddu svæði langt umfram ráðgjöf eða um 830 þúsund tonn og þar af veiddu Íslendingar um 116 þúsund tonn.

Í ljósi hugsanlega mikils seiðaáts makrílsins spyrja sumir hvort nóg sé að gert í makrílveiðinni, þrátt fyrir að hún sé nú þegar ósjálfbær. Sveinn bendir á að margar aðrar þjóðir nýti stofninn og Íslendingar geti ekki hagað sér eins og þeir séu einir á miðunum. Aukin veiði leiði til minnkunar stofnsins og afrakstursgeta hans verði þannig ekki nýtt. Eins liggi ekki fyrir hvað hann éti mikið af seiðum við landið og í fyrra hafi seiði ekki verið áberandi í mögum makrílsins.

Geta ekki bara horft á

Íslendingar veiddu makríl fyrst að einhverju ráði 2006 og nú er hlutdeild Íslendinga um 20% af ráðlögðum hámarksafla í NA-Atlantshafi. Evrópusambandið, Færeyingar, Norðmenn og Rússar hafa skipt makrílveiðinni á milli sín og er ljóst að semja verður við Íslendinga um skiptinguna. „Við getum ekki horft upp á það að makríll vaði yfir allt íslenska hafsvæðið án þess að snerta hann,“ segir Sveinn. „Við verðum að komast að samkomulagi svo nýtingin verði skynsamleg.“

VILL ÓTAKMARKAÐA VEIÐI Á MAKRÍL

Étur okkur út á gaddinn

Hrólfur S. Gunnarsson, fyrrverandi skipstjóri, segir að makríllinn sé eins og ryksuga og vill að veiðin verði frjáls. „Við eigum að veiða eins og við mögulega getum því þessi fiskur étur frá okkur aðra stofna, loðnuseiði og trúlega ýsu- og þorskseiði, og æti frá öðrum stofnum. Hann kemur bara til þess að heimsækja okkur og ef við tökum ekki hressilega á móti honum étur hann okkur út á gaddinn.“ Hrólfur bætir við að makríllinn verði fiska feitastur og ekki sé hægt að horfa framhjá skaðanum sem hann valdi. „Það þarf mikið fóður til þess að ná 35% fitustigi,“ segir hann og blæs á sett hámark.