Heiðbjört Helga Jóhannesdóttir fæddist á Hellu í Blönduhlíð í Akrahreppi 11. ágúst 1933.
Útför Heiðbjartar Helgu fór fram frá Innri-Njarðvíkurkirkju 15.
júlí 2010.
Nú er komið að leiðarlokum hjá þér elsku frænka. Mig langar með örfáum orðum að kveðja þig f.h. okkar systranna. Þú varst bæði falleg, hlý og yfir þér var mikil reisn og þú hafðir svo sannanlega skoðanir á hlutunum. Ég á ótal minningar frá því í bernsku og man ég sérstaklega eftir heimsóknum til ykkar í Innri-Njarðvík. Heimili þitt var fallegt svo ekki sé meira sagt. Þar bjóst þú Kalla þínum og dætrum ykkar, þeim Lillu og Helgu Báru, traust og gott heimili.
Kalli var gull af manni, með tindrandi húmor sem skein í gegnum rólegt yfirbragð. Þegar við dvöldum hjá ykkur var oft kátt á hjalla og alltaf nóg að gera, ekki síst úti við þar sem alltaf var hægt að finna eitthvað sér til dundurs þótt Innri-Njarðvík hafi verið örfáar götur þá. Gestrisni þín var ómæld og nutum við góðs af því, alltaf svo gott að borða hjá Heiðu frænku. Einnig er mjög dýrmæt minning um ömmu sem var búsett hjá ykkur þar til hún lést. Svo var ekki síður spennandi þegar þið komuð norður og var oft beðið með óþreyju við gluggann í Helgamagrastræti eftir að bílarnir rynnu í hlað því oftar en ekki voruð þið í samfloti við bróður þinn – Binna frænda og fjölskyldu hans, en saman ferðuðust þið mikið með tjöld og tilheyrandi. Eftir að ég komst á fullorðinsár og eignaðist fjölskyldu sjálf var oft komið við í Heiðarbóli þar sem þú bjóst eftir að Kalli lést og þótti ekki tiltökumál að búa um nokkra ferðalanga ef þurfti. Þér mættu ótrúlegir erfiðleikar þegar hún Lilla þín lést langt fyrir aldur fram af völdum erfiðs sjúkdóms. Örugglega það erfiðasta sem mætt getur hverri móður að missa barnið sitt, sama á hvaða aldri það er. Nú er móðir mín ein eftir af systkinunum frá Hellu. Af frásögnum hennar mátti heyra að þið áttuð góða og fjörmikla æsku í Skagafirðinum – sem þið báruð öll svo sterkar taugar til. Þið ólust upp í torfbæ, áttuð ástríka og umhyggjusama foreldra, höfðuð nóg að bíta og brenna, tókuð fljótt til hendinni og gátuð öll haldið hópinn þar til þið hleyptuð heimdraganum og fluttuð á mölina. Það hefur örugglega verið bjart yfir ykkur systrunum – ótalmargar skemmtilegar vísur sem ortar voru til ykkar vitna um það.
Elsku Helga Bára og börn, þið sem voruð henni allt, við sendum ykkur hlýjar kveðjur og vitum að minning um góða mömmu og ömmu lifir í hjörtum ykkar.
Kristín.
Það var afskaplega gott að vera nálægt þér. Þú varst hress og skemmtileg, sagðir svo skemmtilega frá að unun var á að hlýða og ég tala nú ekki um þegar þið systurnar voruð komnar á flug við að rifja upp gömlu dagana úr Skagafirðinum en þar voruð þið fæddar á bænum Hellu sem nú er kominn í eyði. Ég gleymi ekki hvað það var alltaf gott að koma til ykkar Kalla í Innri-Njarðvík og finna hvað maður var alltaf velkominn. En það voru nokkrar ferðirnar sem við Jónína systir, þá litlar, fórum með mömmu til ykkar, skröltandi í rútu frá Akureyri.
Ég kveð þig, kæra frænka, með þakklæti fyrir góðar minningar og bið guð að blessa og styrkja Helgu Báru þína og börnin hennar.
Heiðbjört.