
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Ólafur Adolfsson apótekari veit sennilega manna best hve hörð samkeppnin hefur orðið meðal íslenskra apóteka á undanförnum hálfum öðrum áratug. Eins og lesendur þekkja eflaust flestir varð apótek Ólafs, Apótek Vesturlands á Akranesi, fyrir barðinu á ólögmætum viðskiptaháttum apótekakeðjunnar Lyfja og heilsu sem síðar var skikkuð af yfirvöldum til að greiða 100 milljóna sekt fyrir brot sín.
Segja má að verðstríðið sem hófst á Akranesi þegar Ólafur opnaði apótek sitt árið 2007 hafi markað viss kaflaskil í löngu breytingaferli í apótekageiranum: „Ég sá ákveðin tækifæri hérna á Skaganum og hafði tekið eftir að afslættirnir hjá keðjunum höfðu minnkað verulega. Segja má að stóru aðilarnir hafi verið orðnir svolítið pattaralegir á markaðnum. Viðskiptamódelið byggðist á að keppa við lágvöruverðsbúðir lyfsölukeðjanna í verði en bjóða upp á hærra þjónustustig.“
Harður slagur
Þá var apótek Lyfja og heilsu starfrækt á Akranesi og fengu aðstandendur þess fljótt veður af áætlunum Ólafs um að opna apótek. Segir hann að honum hafi í framhaldinu verið boðið að taka að sér rekstur apóteks samkeppnisaðilans á Selfossi, og síðan á Akranesi þegar hann hafnaði fyrra boðinu. Eftir að apótek Ólafs opnaði dyr sínar fóru bæjarbúar að koma til hans með fréttir af að þeir væru komnir á afsláttarsamning hjá Lyfjum og heilsu. „Þetta var mjög sérstakur viðskiptasamningur; svokallaður tryggðarsamningur sem gilti aðeins á Akranesi og fól í sér að ef viðkomandi verslaði eingöngu lyf hjá Lyfjum og heilsu lækkaði verð á lyfjum og ýmsum vörum. Í ofanálag myndu fylgja gjafir og viðbótarþjónusta á tímabilinu auk lokagreiðslu eftir tímabilið upp á veglega vöruúttekt,“ útskýrir Ólafur sem setti sig óðara í samband við Samkeppniseftirlitið. „Auk þess lækkaði Lyf og heilsa stórlega verðið á 70 söluhæstu lyfseðilsskyldu lyfjunum á Akranesi sem og verð algengustu lausasölulyfja.“
Hver borgar brúsann?
Ólafi þóttu viðbrögð Samkeppniseftirlitsins hæg og greip m.a. til þess ráðs að gera verðkönnun í apótekum samkeppnisaðilans um allt land og auglýsa niðurstöðurnar með heilsíðuauglýsingum í dagblöðum. „Ég keypti meðal annars auglýsingu í Vesturbæjarblaðinu þar sem umrædd apótekakeðja virtist af einhverjum sökum sitja ein að markaðinum. Auglýsingin sýndi niðurstöður verðkönnunarinnar og benti Vesturbæingum á að þeir væru að niðurgreiða lyf Akurnesinga, enda væru lyfin þeirra allt að 76% dýrari en á Skaganum,“ segir Ólafur og bætir við að í kjölfarið hafi Apótek Vesturlands eignast fjölda nýrra viðskiptavina sem fengu lyfin sín send heim í Vesturbæ.
Verður að bregðast hraðar við
Tæpum þremur mánuðum eftir að Ólafur kærði markaðsbrögð keppinautarins framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit. „En svo líður og bíður og niðurstaða í málinu kom tæpum þremur árum síðar. Málið var augljóslega grandskoðað enda úrskurðurinn upp á 150 síður,“ segir Ólafur. „Samkeppnismál mega hins vegar ekki taka svona langan tíma, og hvað þá þar sem stór aðili er að níðast á minni, því lítil fyrirtæki hafa yfirleitt enga burði til að standast slíkan leik. Aðgerðatími þyrfti að mælast í vikum en ekki árum og nauðsynlegt að búa til úrræði sem heimila stofnuninni að grípa fljótar inn í málin.“Hægt að þróa apótekin lengra?
Neytendur hafa séð apótekin lengja opnunartíma sinn og auka vöruframboð síðasta hálfan annan áratuginn. Í dag er svo komið að mörg stærri apótek bjóða ekki aðeins upp á lyf heldur úrval heilsu- og snyrtivara svo vöruvalið minnir jafnvel á ágætan stórmarkað.Ólafur segir að skynsamlegt væri að þróa apótekin lengra og fela þeim stærra hlutverk í heilbrigðiskerfinu. „Ég sé fyrir mér að apótekin geti verið alvöru heilbrigðisstofnanir til viðbótar lyfsöluhlutverkinu. Hjúkrunarfræðingur eða jafnvel læknir getur þá verið á vakt og veitt viðskiptavinum ráðgjöf og skrifað út lyfseðla ef þarf,“ segir hann. „Apótekið er oft fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og síðan vísað áfram til læknis ef ástæða er til. Þetta mætti auðveldlega útvíkka og myndi vera veruleg bót á þjónustu og aðgengi fyrir sjúklinginn og fyrirsjáanlegt að það myndi líka létta á heilbrigðiskerfinu. Læknaskortur og löng bið eftir lækni er nokkurt vandamál í dag og geta þá allar útfærslur af þessum toga komið að miklu gagni.“
Þunglamalegt regluverk
Að mati Ólafs þarf m.a. að yfirfara það regluverk sem gildir um lyfsölu og rekstur apóteka hér á landi. „Lögin eru orðin gömul og stagbætt, og margt í þeim sem er ekki nægilega gott. Greiðsluþátttökukerfi ríkisins er t.d. verulega flókið og ógagnsætt. Inn í regluverkið er byggt eins konar félagslegt kerfi sem samt virðist ekki fullnægja nógu vel hlutverki sínu við að verja landsmenn fyrir t.d. verulegum útgjöldum vegna lyfja til styttri tíma“ segir hann. „Hvað snýr að okkur í smásölunni er líka mikilvægt að hið opinbera marki stefnu til lengri tíma, svo við getum betur áttað okkur á hvaða umhverfi rekstrinum verður búið eftir fimm til tíu ár.“Tveir risar verða til
Árið 1996 var gerð breyting á lögum sem verður til þess að fram koma á sjónarsviðið keðjur apóteka. „Í upphafi voru keðjurnar þrjár: Lyfjabúðir ehf, Lyfja ehf og Lyf og heilsa. Lyfjabúðir ehf keyptu síðar búðir Lyfju og urðu þá eftir aðeins tveir stórir aðilar á markaðnum,“ segir Ólafur þegar hann rekur söguna. „Raunar úrskurðaði Samkeppnisstofnun á þeim tíma að Lyfjabúðir þyrftu að selja frá sér fimm apótek til að samruninn yrði samþykktur, en mörgum kom á óvart að það skyldi verða lendingin að hinn risinn á markaðinum fengi að kaupa þessi fimm apótek sem til sölu voru.“Ólafur bætir við að samkeppni sé oftast jákvæð, og óneitanlega hafi framfarir átt sér stað í þjónustu apóteka með þróun síðustu fimmtán ára. „Ekkert er við það að athuga að sumir aðilar séu stórir á markaðnum, ef þeir kunna að umgangast hann rétt og fara ekki á svig við samkeppnislög.“
Fólk sparar við sig lyfin í kreppunni
Eftir að kreppan fór að sverfa að fjárhag landsmanna segir Ólafur vel hægt að greina breytingu á hegðun neytenda. Minna seljist af lausasöluvöru og leitað sé í ódýrari vörurnar, viðskiptavinir séu duglegri að gera verðsamanburð milli apóteka og reyna oftar að semja um afslátt af uppsettu verði.Vest þykir Ólafi þó að sjá að margir virðast farnir að draga að leysa út lyfin sín. „Ótrúlega mikið af fólki virðist þurfa að neita sér um lyf – og þá erum við ekki að tala um einhver lyf við minni háttar kvillum heldur mikilvæg lyf til meðferðar við krónískum sjúkdómum,“ segir hann og hefur bæði af því áhyggjur að þessi þróun skerði lífsgæði fólks og valdi um leið auknum kostnaði til lengri tíma. „Kostaðurinn kemur á endanum fram annars staðar, hvort sem það er með auknum innlögnum, forföllum frá vinnu eða jafnvel ótímabærum dauðsföllum.“
Kreppan segir Ólafur að hafi þó vonandi í för með sér að apótekum verði gert kleift að straumlínulaga reksturinn enn frekar. „Sem dæmi þá gera lögin þá kröfu í dag að apótek eigi til á lager allar pakkningastærðir af þeim lyfjum sem ávísað er. Þetta verður til þess að í stað þess að eiga kannski tvær stærðir: þá minnstu og þá stærstu, þarf apótek að eiga jafnvel 3-4 pakkningagerðir til viðbótar, sem þýðir að allt lagerhald verður mun umfangsmeira og kostnaðarsamara.“