Fréttaskýring
Örn Arnarson Einar Örn Gíslason
ornarnar@mbl.is | einarorn@mbl.is
„ Ég er orðinn þreyttur á þessu endalausa tali um peninga, peninga og aftur peninga! Ég vil bara fá að leika körfuknattleik, ganga um í Reebok-skóm og drekka Pepsi ." Þessi djúpvitra speki körfuknattleikströllsins Shaquille O'Neal endurspeglar um margt hið flókna samband sem er á milli ástríðu atvinnumanna í íþróttum á iðju sinni annarsvegar og svo mikilvægi þess að þeir sjái sér farborða með því að auglýsa helstu styrktaraðila sína.
Rétt eins og aðrir launamenn, hafa fremstu íþróttamenn heimsins orðið fyrir barðinu á þeirri efnahagslægð sem hefur ríkt beggja vegna Atlantsála undanfarin ár. Þeir þurfa eins og aðrir að taka tillit til þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á skattheimtu og öðrum regulverksbreytingum á meðan flest ríki reyna að stemma stigu við ósjálfbærri skuldasöfnun og koma böndum á hallarekstur. Þar af leiðandi er ekki úr vegi að horfa á nýlega þróun og svo horfur í vinsælustu boltagreinum heimsins útfrá breyttu efnahagslegum forsendum.
Skattalegt hagræði og LeBron James
Fyrir nokkru velktust sérfræðingar með NBA-gráður í vafa um hvar körfuknattleiksmaðurinn LeBron James myndi iðka iðju sína á næsta leiktíð. Körfuknattleiksáhugamenn stóðu á öndinni yfir hvort að James myndi vera áfram í herbúðum Cleveland Cavaliers eða freista þess að vinna sinn fyrsta meistaratitil með liðunum í New York, Chicago eða þá í Miami.Hinsvegar blasti við þeim sem horfa eingöngu á dali og sent frá upphafi hvert för James var heitið. Í þeirra augum var einsýnt frá upphafi að hann myndi leika með Miami Heat á næsta tímabili. Ástæðan fyrir því er einföld: Í Miami borga menn engan skatt til ríkisins þannig að ekkert leggst ofan á tekjuskatt til alríkisins. Eins og Jeff Jacoby, dálkahöfundur The Boston Globe, bendir á þýðir þetta að ef James hafi staðið til boða samningur til fimm ára að andvirði tæpra 100 milljóna Bandaríkjadala þyrfti hann að borga tæplega 13 milljónum meira í skatt hefði hann kosið að leika með New York Knicks. En innan skamms mun skattur til New York-borgar og ríkis nema 12,85%.
Þó svo að atvinumenn í íþróttum í Bandaríkjunum þurfi að borga skatt af tekjum sínum í þeim ríkjum sem þeir leika hverju sinni skiptir heimilisfesti umtalsverðu máli fyrir þá allra bestu þar sem að stór hluti tekna þeirra koma til vegna styrktarsamninga og auglýsinga.
Nú er ekki að efast um að starfsmenn ritstjórnar The New York Post telji skemmtilegra að vinna í miðborg einnar mögnuðustu borgar heims en í henni sólríku Míamí en samt sem áður viðurkenna þeir í grein um James að 13 milljóna dala aðgöngumiði sé fullmikið af hinu góða.
En skattalegt hagræði útskýrir ekki eingöngu afhverju James valdi að leika með Miami Heat í stað New York Knicks. Það getur einnig útskýrt afhverju Cavaliers gat ekki haldið í kappann. Í kjölfar þess að James lýsti því yfir að hann væri á leið til Miami bentu bæði The Miami Herald og CNBC á að þá skiptir sú staðreynd að íbúar Miami þurfa ekki að borga útsvar ólíkt þeim sem búa í Cleveland miklu máli. Þetta þýðir með öðrum orðum að Heat hefði getað boðið James samning sem var 29 milljónum dala minna virði en sá sem Cavaliers bauð, en leikmaðurinn hefði samt sem áður haft einni milljón meira upp úr krafsinu.
James yfirgefur Ohio eins og stórfyrirtækin
Þannig að það var kannski óumflýjanlegt að LeBron James, sem er borinn og barnfæddur í Ohio, myndi hleypa heimdraganum, ekki síst í ljósi þess að hann hefur ekki unnið neina titla með Cavaliers. The Wall Street Journal setur brotthvarf James í samhengi við almenna þróun mála undanfarna áratugi í Ohio. Óhagstætt skattaumhverfi hefur leitt til þess að fyrirtæki hafa flúið ríkið og það sama gildi um auðmenn. Í byrjun tíunda áratugar nýliðinnar aldar voru 43 af 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna staðsett í Ohio en í dag eru þau aðeins 24. Um 97 þúsund auðmenni fluttu frá ríkinu á árunum 2004 til 2008. The Wall Street Journal segist hafa fulla samúð með aðdáendum Cleveland Cavaliers en spyr hvort ekki sé rétt að þeir beini reiði sinni að valdhöfum Ohio í stað James, eða eigendum Cavaliers.En ljóst má vera að ekki er á vísan að róa í þessum efnum um þessar mundir. Ekki síst vegna þess að mörg ríki Bandaríkjanna glíma við mikla fjárhagsörðugleika og þar af leiðandi er ekki útilokað að skattaumhverfið komi til með breytast mikið á næstu árum. Á þetta ekki síst við þann fjölda ríkja sem búa við reglur sem beinlínis banna fjárlagahalla.
Xabi Alonso tekur stöðu gegn pundinu
Sem kunnugt er er svipað upp á teningnum í Evrópu. Það er að segja að mikill meirihluta ríkja álfunnar glímir nú við mikinn skuldavanda í kjölfar fjármálakreppunnar sem skall á árið 2008. Áhrif þessa hefur gætt í heimi knattspyrnunnar. Segja má að Spánverjinn Xabi Alonso hafi riðið á vaðið í fyrra þegar hann lýsti því yfir að veruleg gengislækkun sterlingspundsins gagnvart evru hafi verið ein af helstu ástæðunum fyrir því að hann yfirgaf herbúðir Liverpool og gekk í raðir Real Madrid. Sennilega var hann fyrsti þekkti knattspyrnumaðurinn frá því að fjármálakreppan sem kom opinberlega með hagfræðilega réttlætingu á félagaskiptum. Það er því greinilegt að Alonso hefur ekki einungis yfir "knattspyrnugreind", svo notað sé orðalag íþróttafréttamanna, að ráða heldur er hann greinilega vel fjármálalæs. Skyldi engan undra.
Aðdráttarafl spænskra skattalaga sem kennd eru við David Beckham
Reyndar spáði endurskoðendafyrirtækið Deloitte því í skýrslu sem kom út í fyrra að helstu knattspyrnugoð heimsins myndu í auknum mæli sækjast eftir því að leika listir sínar á meginlandinu í stað þess að flykkjast til Bretlands í sama mæli og þeir hafa gert á undanförnum árum. Ástæðurnar eru fyrst og fremst skattahækkanir og gengisþróun pundsins sem draga verulega úr ráðstöfunartekjum knattspyrnumanna á Englandi. Fram kemur í skýrslunni að skattar og gengisbreytingar gætu dregið úr kaupmætti knattspyrnumanna um allt að þriðjung. Í umfjöllun The Guardian um skýrsluna, sem birtist fyrir ári, er leitt að því líkum að helstu kempur knattspyrnuheimsins myndu í auknum mæli leita til Spánar frekar en Englands eða Ítalíu, það er að segja í þeim tilfellum sem þeim tekst ekki að fá knattspyrnuliðin til þess að bera skaðann vegna gengis- og skattabreytinga. Ástæðan er fyrst og fremst sú að meðan að stjórnvöld á Bretlandseyjum og annarstaðar hafi ráðist í breytingar á skattakerfinu til þess að stoppa í fjárlagat hins opinbera eru Beckham-lögin svokölluðu enn í gildi á Spáni. Lögin eru frá árinu 2005 og eru kennd við tískumódelið og knattspyrnumanninn David Beckham. Þau kveða á um að þeir sem eru búsettir tímabundið á Spáni og uppfylla ákveðin skilyrði borga aðeins 24% flatan skatt af tekjum sínum. Flestir utanaðkomandi knattspyrnumenn á Spáni uppfylla þessi skilyrði og þurfa því ekki að borga 43% skatt eins og aðrir hátekjumenn Spánar.Það er því kannski ekki að furða að reginskyttur á borð við Christiano Ronaldo, Kaka og Karim Benzema hafi flutt sig til Spánar í fyrrasumar í stað annarra landa. Það sama virðist vera upp á teningnum í dag en litlar fregnir berast af því að helstu knattspyrnustjörnur heims séu orðaðar við ensk lið, það er að segja fyrir utan þær sem nú þegar eru á mála hjá enskum liðum.
Þó er rétt að láta staðar numið og benda á hið augljósa: Að það er fleira sem laðar bestu knattspyrnumenn heims að Spáni en hagfellt skattaumhverfi. Frægðarsól spænskrar knattspyrnu hefur aldrei verið hærri á lofti og deildin er sennilega sú besta í Evrópu auk þess sem að menning þjóðarinnar heillar marga.
Bolt hefur ekki efni á að hlaupa í Bretlandi
Eðli málsins samkvæmt snertir ofangreint ekki eingöngu þá sem eltast við knetti með einum eða öðrum hætti. Þannig hafa skattareglur í Bretlandi sem kveða á um að íþróttastjörnur sem þar keppa verði að borga skatt af styrktar- og auglýsingasamningum sínum í tengslum við þátttöku sína fælt marga frá keppni. Á dögunum lýsti Usain Bolt, heimsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi, því yfir að hann myndi ekki taka þátt í Demantamóti sem fer fram í London eftir nokkrar vikur vegna þessara reglna. Hefði Bolt tekið þátt og borið sigur úr býtum hefði skattareikningur hans til breskra yfirvalda verið hærri en sjálft verðlaunaféð sem honum stendur til boða.Einnig má nefna að margir telja helstu ástæðu þess að breski ökuþórinn Lewis Hamilton ákvað að flytja til Sviss fyrir nokkru sé skattalegt hagræði. Hann neitar því hinsvegar alfarið.
Yfirvofandi aðhaldsaðgerðir kunna að breyta núverandi þróun
En hér með er ekki öll sagan sögð og engin er ástæða til þess að ætla að núverandi ástand muni vara til framtíðar. Hafa verður í huga að bresk stjórnvöld eru ekki þau einu í Evrópu sem hafa þurft að grípa til meiriháttar aðhaldsaðgerða auk skattahækkana til þess að stemma stigu við ósjálfbæra skuldastöðu hins opinbera. Færa má rök fyrir því að stjórnvöld í Bretlandi séu lengra komin í nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum en margar aðrar ríkisstjórnir í Evrópu, að minnsta kosti þegar litið er til þeirra fjárlaga sem ný ríkisstjórn David Cameron, forsætisráðherra, lagði fram á dögunum. Stjórnvöld í Madríd standa til að mynda frammi fyrir djúpstæðum efnahagsvanda ásamt miklum fjárlagahalla sem koma þörf böndum á. Erfitt er að sjá að þau muni ganga hart fram í því að standa vörð um Beckham-lögin á meðan ráðist er í sársaukafullar aðgerðir á borð mikinn niðurskurð í velferðarmálum, svo einhver dæmi séu tekin.SPÁNN HÖFÐAR TIL HAGSÝNNA
Rýna í gengis- og skattamál
Knattspyrnumenn eru, eins og aðrir, meðvitaðir um gengisþróun gjaldmiðla og skattkerfisbreytingar sem hafa áhrif á afkomu þeirra. Þeir sem leika í fremstu deildum Evrópu flokkast með þeim sem sagðir eru hafa „ofurlaun“, og jaðarskattar lagðir á bróðurpart tekna þeirra. Nýlegar breytingar á skattkerfi Bretlands gera það að verkum að 50% skattur er lagður á árstekjur yfir 150 þúsund pund. Launahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar þurfa ekki nema eina til tvær vikur til að ná þeirri upphæð, og fer því helmingur launagreiðslna þeirra beint í ríkiskassann.Hinn leikni framherji Arsenal, Andrey Arshavin, var rétt búinn að skrifa undir samning við félagið þegar hann fór fram á að kjör sín yrðu endurskoðuð. Samningurinn hljóðaði upp á lítil 80.000 pund á viku, en um helmingur þeirrar upphæðar fór í skattgreiðslur. Samsvarandi hlutfall í Rússlandi, þar sem hann lék áður, er 13 af hundraði. Honum var, að sögn, mjög brugðið þegar hann opnaði fyrsta launaumslagið sitt, og hefur varað aðra leikmenn við að koma til Englands að óskoðuðu máli.
Þetta veit Eiður Smári Guðjohnsen. Þegar hann flutti sig um set nú í janúar, frá Mónakó til Tottenham, tók síðarnefnda félagið yfir launagreiðslur hans eins og tíðkast. Sú tilfærsla var þó ekki jafn einföld og hún gæti virst, því sú krafa var gerð að laun hans eftir skatta yrðu þau sömu og hann hafði í skattaparadísinni Mónakó. Tottenham þurfa því að smyrja um helmingi ofan á þá upphæð sem Mónakó greiða honum, til þess að útkoman sé sú sama í launaumslaginu.
Þeir Cristiano Ronaldo og Xabi Alonso, sem báðir fluttu sig um set til Real Madrid í fyrra, tímasettu flutninginn vel. Þeir falla báðir undir hina svokölluðu Beckham-reglu, og njóta því vildarkjara fyrstu sex ár sín sem launamenn á Spáni. Það er því væntanlega engin tilviljun að samningur Ronaldo við Real sé til sex ára. Áætlaður sparnaður hans í tekjuskattgreiðslur á þessum sex árum er um 15 milljónir punda. Stór nöfn úr ítölsku knattspyrnunni hafa jafnframt flutt sig til Spánar, og nægir þar að nefna Kaká og Zlatan Ibrahimovich, sem báðir færðu sig um set á síðasta ári.
Áhrifin af veikingu pundsins og hækkun tekjuskatthlutfalls á Englandi koma þó ekki öll fram á einni nóttu. Leikmenn eru flestir með nokkurra ára samninga við félög sín, og geta því í sumum tilfellum ekki losað sig þegar þeim dettur það í hug.