Ylfa Kristín K. Árnadóttir
ylfa@mbl.is
Magnea Sigurbergsdóttir og eiginmaður hennar, Heimir Þ. Gíslason, búa á Lindargötunni og reka þar gistiheimilið Moby Dick. Enginn eiginlegur garður er við húsið, í þeim skilningi að á aflokuðu svæði aftan við húsið er ekkert gras heldur aðeins steyptar hellur, en hinsvegar finnast þar fleiri plöntur en í flestum görðum. „Það sem er skemmtilegt við þetta er að hér er bóndakona úr sveit og þegar hún flytur á mölina þá má segja að óbeint hafi hún skrúðgarðinn með sér þótt allt sé steypt í hólf og gólf,“ segir Heimir við blaðamann þegar hann er nýmættur í heimsókn. „Hún hefur sagt steinsteypunni stríð á hendur,“ bætir hans kankvíslega við og það er ekki ofsögum sagt enda eru plönturnar orðnar vel á þriðja hundrað talsins.
Fékk fjölær blóm í fermingargjöf
„Hann byrjaði snemma í mér þessi ræktunaráhugi,“ segir Magnea og hún er með tímasetninguna á hreinu. „Ég fékk fjölær blóm í fermingargjöf,“ segir hún og játar að hún hafi ekki hætt að rækta síðan. „Pabbi beitti reyndar rollunum á þær, fannst þær ekki vera gæfulegar. En síðan hefur þetta aukist og margfaldast.“Magnea bjó lengst af á Selparti í Gaulverjarbæjarhreppi þar sem hún átti stóran garð en árið 1995 keypti hún hús á Hverfisgötu. „Öfugt við annað fólk þá keypti ég mér sumarbústað í Reykjavík,“ segir hún og hlær. Þremur árum síðar keypti hún húsið á Lindargötunni og árið 2006 opnuðu hún og Heimir gistiheimilið. „Ég tók heilmargar plöntur með mér úr garðinum mínum í sveitinni. Svo hef ég haldið þeim í skefjum, þær stækka ekki meira en ég leyfi þeim, ég klippi bara af þeim,“ segir hún. Hún hefur nákvæman fjölda pottanna ekki á hreinu. „Heimir er stundum að telja, hann segir að það séu um 250-300 pottar.“ Tegundirnar eru álíka margar því það er lítið um að sama plöntutegundin sé í tveimur pottum.
Saknar ekki grassins
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort það hafi ekki verið erfitt fyrir bóndakonuna, sem áður var umkringd grasi og gróðri, að flytja á mölina, í hús með steinsteyptu porti. „Ég segi alltaf að ég sé búin að vera í því alla ævi að útrýma grasi því það er eiginlega versta illgresið sem maður kemst í, það er erfiðast að losna við það ef það kemst í beðið hjá manni. Ég sakna þess eiginlega ekkert að hafa gras. Mér fannst það sjálfsagður hlutur að halda áfram að rækta. Það er mér í blóð borið að rækta. Það er alveg nauðsynlegt að hafa einhverjar plöntur í kringum sig. Það getur bara verið alveg eins skemmtilegt að rækta í pottum eins og hinsegin. Ég var með stóran garðskála og var með marga potta þar. Ég er ekki óvön því að rækta allt mögulegt í pottum,“ segir Magnea.