Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar giftist fyrrum einkaþjálfara sínum, Daniel Westling, 19. júní sl. og var það ekki brúðkaup af ódýrustu gerð. Í fyrrakvöld sýndi Sjónvarpið heimildarmynd um hjónin sem þá voru trúlofuð, Kronprinsessan och kungariket eða Krónprinsessan og konungsríkið . Nú er undirritaður einn þeirra sem engan áhuga hefur á kóngafólki og telur það úrelt fyrirbæri að fólk fæðist með slíka silfurskeið í munni. Nær væri að draga stórkostlega úr ríkisútgjöldum og kjósa forseta með lýðræðislegum hætti.
Heimildarmynd þessi var hvort tveggja í senn áhugaverð og óáhugaverð. Frásagnir af lífi Viktoríu voru svæfandi en öllu áhugaverðara var að fræðast um prinsinn Daniel Westling, smjörgreiddan fyrrum einkaþjálfara sem býr núna í höll og hefur það að starfi að vera prins og hertogi af Vestur-Gautlandi. Daniel og Viktoría sátu prúðbúin á sófa og svöruðu spurningum Olle nokkurs Häger sem voru á köflum æði-tilgerðarlegar. Daniel var t.d. spurður að því hvernig hafi verið að banka upp á hjá kóngi og biðja um hönd krónprinsessunnar. Svarið var einfalt: Daniel bankaði ekki. Kóngafólk er nefnilega ekkert merkilegra en annað fólk.
Helgi Snær Sigurðsson