Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Óneitanlega er undarlegt til þess að hugsa að einn þekktasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi og heilsulind sem á engan sinn líka í heiminum hafi ekki einu sinni verið til fyrir röskum þremur áratugum. „Lækningamáttur Bláa lónsins uppgötvaðist fljótlega eftir að lónið myndaðist sem afleiðing af starfsemi Hitaveitu Suðurnesja, sem tók til starfa árið 1976. Í kringum 1980 er fólk með sóríasis farið að baða sig þar reglulega í lækningaskyni,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins. Keflvíkingurinn og sóríasis-sjúklingurinn Valur Margeirsson skráði nafn sitt á spjöld lækningasögunnar þegar hann var á meðal þeirra fyrstu til að baða sig í lóninu. „Hann fann það strax að honum leið miklu betur og innan skamms tíma minnkuðu einkenni sjúkdómsins. Gaman er að segja frá því að Valur stundar meðferðina enn reglulega,“ bætir Magnea við.
Verðmætur vökvi
Varla má finna það mannsbarn á Íslandi sem ekki þekkir jákvæð áhrif þess að baða sig í Bláa lóninu en árið 1994 lágu fyrir óyggjandi rannsóknir um lækningamátt Bláa lónsins gegn sóríasis. Auk hins vinsæla baðstaðar starfrækir Bláa lónið Lækningalind þar sem veitt er meðferð sem byggist á lækningamættinum. „Meðferðin er viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum sem taka þátt í meðferðarkostnaði íslenskra gesta. Sama er með sjúklinga frá Færeyjum og Danmörku sem geta fengið niðurgreiddan kostnað vegna meðferðar sinnar,“ útskýrir Magnea. „Við höfum tekið á móti meðferðargestum frá tuttugu þjóðlöndum, s.s. Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og Rússlandi. Sumir hafa jafnvel ferðast alla leið frá Austur-Asíu til að nýta sér meðferðina, og margir erlendu gestanna koma hingað ár eftir ár.“
Úr iðrum jarðar
Gestir Bláa lónsins baða sig í jarðsjó sem er blanda af ferskvatni og sjó, sem rennur um holótt bergið á Reykjanesinu. Nesið er háhitasvæði og hitnar jarðsjórinn í iðrum jarðar. „Hitastigið er í kringum 240 gráður og kemur sjórinn frá allt að 2 km dýpi. Hann leysir upp efni úr berginu sem berast síðan með heitum stróknum upp úr borholum virkjunarinnar. Jarðsjórinn er leiddur þaðan beint í Bláa lónið þar sem gestir njóta lækningamáttarins og virkra efna,“ útskýrir Magnea. „Hvíti kísillinn sem gestir lónsins þekkja vel styrkir varnarlag húðarinnar og einnig dafna í Bláa lóninu sérstakir þörungar sem rannsóknir hafa sýnt að vinna gegn öldrun húðarinnar.“
Fullkomin meðferðaraðstaða
Í Lækningalind Bláa lónsins er bæði boðið upp á göngudeild og svo samfellda meðferðardvöl. Þar eru veittar um 6.000 meðferðir á ári sem felast í böðum í lóninu auk þess sem boðið er upp á UVB-ljósameðferð. „Algengasti meðferðartíminn er þrjár til fjórar vikur, en við höfum einnig þróað styttri meðferð sem tekur eina til tvær vikur og bætast þá við böðin vafningar sem nýta virku efnin úr lóninu.Nýtt húsnæði fyrir starfsemi Lækningalindarinnar var tekið í notkun árið 2005. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt hannaði bygginguna en hún hefur einnig hannað önnur mannvirki Bláa lónsins. „Þar höfum við fullkomna meðferðaraðstöðu auk 15 herbergja hótels sem nýtist bæði fyrir meðferðargesti og almenna gesti sem vilja slaka á og endurnæra kraftana í einstöku umhverfi Bláa lónsins,“ segir Magnea og bætir við að Bláa lónið sé gott dæmi um markvissa uppbyggingu í heilsutengdri ferðaþjónustu. „Meðferðargestir okkar nota yfirleitt tækifærið til að skoða næsta nágrenni. Stutt er til Grindavíkur og Reykjanesbæjar auk þess sem margt er að sjá á Reykjanesinu og tíðar ferðir eru í boði frá Bláa lóninu til Reykjavíkur.“