Tómas Ragnarsson fæddist 6. september 1965 í Hafnarfirði. Hann andaðist 16. júlí 2010 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Foreldrar hans eru hjónin Dagný Gísladóttir, f. 31.8. 1943 og Ragnar Tómasson, f. 30.1. 1939, lögfræðingur. Tómas var annar í röð fjögurra systkina. Elst er Ragna Þóra, f. 9.4. 1964. Á eftir Tómasi kom Dagný Ólafía, f. 6.3. 1968 og yngstur er Arnar, f. 23.4. 1972. Fjölskyldan bjó alla tíð í Reykjavík, lengstum í Dofra á Gufuneshöfða. Tómas kvæntist hinn 15.10. 1988 Þóru Þrastardóttur, f. 8.3. 1967.

Börn þeirra eru: Ellý, f. 17.6. 1989, barn hennar er Ragnar Arnórsson, f. 4.7. 2009, Ragnar, f. 25.9. 1992 og Rúna, f. 13.3. 1999. Þau skildu. Hinn 18. júní 2010 kvæntist Tómas Ölfu Regínu Jóhannsdóttur, f. 3.3. 1966. Tómas vann við hestatengd störf nánast alla tíð enda afburða hestamaður frá unga aldri.

Tómas verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 22. júlí 2010, kl. 15.

Elsku pabbi, lífið verður tómlegt og aldrei eins án þín. Síðustu vikur og dagar hafa verulega tekið á og gert okkur krakkana að sterkari persónum. Þú ert nú komin á góðan stað og hefur öðlast frið og ró í hraustum líkama.

Þú varst allur af vilja gerður og vildir allt fyrir alla gera, og erum við sannfærð um að þú munt halda áfram að láta ljós þitt skína og margir munu njóta góðs af því líkt og við gerðum öll.

Þessi litli tími sem þú fékkst með Ragnari litla er okkur dýrmætur og var alltaf gaman að sjá hvað þið voruð báðir kátir og glaðir þegar þið hittust.

Engin orð fá því lýst hvernig okkur líður á þessari stundu og hversu mikið við söknum þín, stórt skarð hefur verið höggvið í hjörtu okkar við að missa þig frá okkur svona fljótt.

En við erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér og eigum við endalaust af góðum minningum sem fá okkur til að brosa í gegnum tárin á þessum erfiðu tímum.

Þú munt lifa fremst í hjörtum okkar um alla tíð. Svo kemur að þeim degi sem við sameinumst aftur. En þangað til heldur lífið áfram og ætlum við að taka því með bros á vör og gera þig stoltan af okkur.

Eitt höfum við öll lært af þér og það er að lifa lífinu hvern einasta dag og vera góð hvert við annað, það margborgar sig.

Þín börn,

Ellý, Ragnar og Rúna.

Úr hjarta mínu hverfur treginn

er ég hugsa um hlátur þinn.

Bros þitt veitti birtu á veginn

betri um stund varð heimurinn.

Farðu í friði góði vinur

þér fylgir hugsun góð og hlý.

Sama hvað á okkur dynur

aftur hittumst við á ný.

(Magnús Eiríksson.)

Það var gleði og góðsemi sem einkenndi hann Tomma, svo ekki sé minnst á gjafmildina og glettnina. Stutt í brosið og greiðviknin sönn og einlæg. Hann hafði sérstaklega góða nærveru, var mjög opinn og hlýr, sagði skemmtilega frá og var hreinskiptinn í öllum samskiptum. Sannarlega frábær félagi og vinur og hlökkuðum við til að eiga samleið með honum í gegnum lífið. Við kynntumst Tomma skömmu eftir að þau Alfa hófu samband og varð strax mikill samgangur á milli okkar, sem varði þann allt of stutta tíma sem raunin varð. Við sáum fljótt hversu vel þau áttu saman. Þau voru greinilega mjög hrifin hvort af öðru, sem staðfest var með trúlofun þeirra í fyrrasumar og svo giftingu 18. júní sl. Þó hjónaband þeirra hafi einungis varað í einn mánuð, var það í raun aðeins staðfesting á þeirra kærleiksríka sambandi sem einkenndist af ást og virðingu.

Börnin okkar hændust strax að Tomma, hann gaf sig að þeim, kenndi þeim t.d. spilagaldra og aðrar kúnstir og oft varð fjörið mikið. Yndislegt var þegar tvær heimasætur á bænum, 5 ára gamlar, kölluðu til okkar eftir að Tommi og Alfa höfðu verið í heimsókn að þær ættu kærasta. Við urðum hissa og spurðum hver sá heppni væri. „Það er Tommi!“ „Er hann kærastinn ykkar?“ spurðum við og þær svöruðu flissandi: „Já, hann er svo skemmtilegur.“ Það var svo gaman að heyra hve hlýlega hann talaði um börnin sín þrjú, hann var mjög stoltur af þeim. Missir þeirra er mikill og finnum við mikið til með þeim.

Í veikindum sínum sýndi Tommi mikinn styrk og æðruleysi og hélt sínu striki eins og hann gat. Er hann kom hingað að Brautarholti í síðasta skipti, orðinn mikið veikur, nú snemma í sumar, þá gengum við út í hestagirðinguna þar sem þau Alfa voru með sín hross. Veður var gott svo við settumst niður á þúfu og spáðum í hrossin. Þá kom til Tomma hestur sem þau eiga, lagði höfuð sitt að honum og þáði frá honum gælur. Þetta var mjög ljúf stund og notaleg og skynjuðum við einstakt samband hans við hestinn.

Staðreyndir lífsins hafa talað sínu máli og höfum við mannfólkið því miður ekkert um það að segja. Eins sárt og það nú er. En það er svolítið sem við höfum og ekki verður frá okkur tekið. Það er trúin um það að þó að lífinu hér á jörðinni ljúki, er fólkið okkar sem farið er ennþá til, sálir þeirra lifa áfram, bara í öðrum heimi. Við trúum því að þau finni fyrir því þegar við hugsum til þeirra og sendum þeim hlýja strauma.

Minningin lifir um góðan mann, skemmtilega tíma og samverustundir sem við getum yljað okkur við og glaðst yfir að hafa átt.

Við vottum elsku Ölfu og hennar börnum, börnum Tomma og hans fjölskyldu allri innilega samúð í þeirra miklu sorg og sára söknuði. Megi ljúfar endurminningar ylja ykkur um ókomin ár. Blessuð sé minning Tomma.

Þorbjörn, Emilía og börn.

Tómas var strax frá unga aldri fremstur meðal jafningja. Kunningjahópurinn var stærri en annarra og vinahópurinn traustari. Börnin dýrkuðu hann og þeir eldri dásömuðu hann. Fólk sótti í návist hans. Vildi ætíð gera honum til hæfis.

Hann var sérstakur persónuleiki. Hann var drengur góður, ljúfur í skapi, fyndinn og ólýsanlega skemmtilegur. Tók hlutina ekki of hátíðlega en vann það hratt og vel sem hann tók að sér. Hann var leiðtoginn sem aðrir fylgdu. Hann gat sameinað sundurleitan hóp og fjörgað dapran. Hann hlustaði, hughreysti, hrósaði og gagnrýndi á uppbyggilegan hátt.

Fjölskyldan skipaði stóran sess í huga hans. Hann vildi allt fyrir hana gera. Hann var kannski ekki fullkominn en honum fyrirgafst allt.

Öllum þótti vænt um hann og honum þótti vænt um alla. Hann lífgaði upp á tilveruna hvar sem hann kom.

Ég er stolt og lánsöm af því að hann var bróðir minn.

Ragna Þóra Ragnarsdóttir.

Þetta voru allt of stutt kynni. Því svo mikið lærðum við þó af þessum allt of stuttu kynnum, að okkur var það heiður að fá Tomma inn í fjölskylduna sem tengdason og mág. Og það var okkur mikið tilhlökkunarefni að sjá fram á lengri og nánari kynni. En því miður, þess í stað hefur nú þessi drengur verið kvaddur brott, langt fyrir aldur fram. Og það í upphafi nýs lífs, sem þau Alfa voru rétt að hefja saman.

Kynni stórfjölskyldna þeirra beggja urðu að miklu leyti við dánarbeð hans. Það er svo skrítið, þetta líf. Engum duldist hins vegar, að þau Tommi og Alfa voru ætluð hvort öðru. Það kom svo vel í ljós þegar meinið læsti klónum í Tomma, að þetta samband var byggt á tryggð sem ekkert hefur bugað. Það segir sína sögu að Alfa okkar skyldi standa vaktina hjá Tomma dag og nótt, allan þann tíma sem hann háði þessa baráttu og eins hvað þrautseigja hans var ótrúlega mögnuð. Því finnst okkur það svo miskunnarlaust að þetta skyldi enda svona. En okkur finnst ævinlega hitta svo vel í mark, á svona stundum, orðin sem Sigurbjörn heitinn Einarsson, fyrrv. biskup, sagði í sjónvarpsviðtali í kjölfar hamfaranna í Súðavík 1995: „Hvað skyldi nú gleðja hina framliðnu meira en það að við, sem syrgjum þá, lítum upp og brosum til þeirra í gegn um tárin?“ Þetta lýsir svo vel trúnni okkar á það að svona kveðjustundir eru í raun engin endalok. Þetta er aðeins kveðjustund í bili og við eigum að hlakka til endurfundanna þótt við lifum okkar lífi þangað til.

Elsku Alfa og þið öll hin, sem syrgið þennan góða dreng, föður, bróður, son og góðan vin, hugur okkar er hjá ykkur. Við huggum okkur við vissuna um að Guð hafi nú tekið Tomma til sín. En það sem Tommi skilur eftir hér er ekki tómarúm heldur fjársjóður minninga.

Ég veit ekki hvort þú hefur

huga þinn við það fest

að fegursta gjöf sem þú gefur

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær,

hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær,

Allt sem þú hugsar í hljóði

heiminum breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson.)

Svanhildur Þorkelsdóttir, Þorkell Ásgeir Jóhannsson og fjölskylda.

Okkur systurnar langar með örfáum orðum að kveðja Tómas, systurson okkar, sem nú er látinn eftir erfið veikindi.

Tómas var svo lánsamur að vera alinn upp af yndislegum foreldrum í samhentum systkinahópi og það í Dofra. Dofri var á sínum tíma nokkuð afskekkt sveitasetur í miðri borg og ekkert venjulegt heimili. Þarna var mikill gestagangur enda ríkti þar alltaf gleði og ástúð og allir voru velkomnir, ungir sem aldnir. Í Dofra voru alltaf hestar á hlaðinu enda hestamennska áhugamál fjölskyldunnar og var Tómas þar engin undantekning. Hann fór ungur að temja og þjálfa hesta með föður sínum. Ellefu ára gamall keppti hann í skeiði. Fyrir keppnina þótti ósanngjarnt að svo léttur knapi fengi að keppa með sér þyngri mönnum. Þetta var leyst með reglugerð um lágmarksþyngd knapa og hnakks og hnakkur Tómasar þyngdur með blýi, þar til tilskilinni þyngd var náð. Tómas sigraði síðan í þessari keppni. Tómas var svo lánsamur að geta sameinað áhugamál og atvinnu og gerði það á heimsmælikvarða, en hann varð heimsmeistari í hestaíþróttum árið 1983, þá 18 ára gamall. Til að ná slíkum árangri dugir þó lánsemin ekki til, þar þarf dugnað, staðfestu, kappsemi og metnað sem allt prýddi þennan lífsglaða, skemmtilega dreng. Hann var alls staðar hrókur alls fagnaðar og ekki vantaði greiðasemina. Tómas eignaðist 3 yndisleg börn og eitt barnabarn. Fyrir tæpum 3 árum greindist hann með krabbamein sem nú hefur dregið hann til dauða. Þessi ár voru erfið en lánið yfirgaf hann ekki alveg, hann hóf búskap með yndislegri konu, Ölfu, sem hann kvæntist fyrir um mánuði. Alfa hefur staðið við hlið hans á þessum erfiðu tímum og veitt honum ómetanlegan styrk.

Við kveðjum Tómas sem lifði of stutt, en líf hans var ánægjulegt og innihaldsríkt og alls staðar auðgaði hann umhverfi sitt. Elsku Dagný systir og Ragnar, Alfa og aðrir ættingjar, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Lára, Helga, Guðrún

og Vilborg.

Ég var fimm ára skott þegar þú komst sem tamningamaður í Keldudal, þá aðeins 16 ára sjálfur. Frá fyrsta degi var ég á hæla þér hvert sem þú fórst, enda var ég alltaf velkomin með. Það voru ófá skiptin sem þú beiðst fyrir utan skólann til að reiða skólatöskuna mína heim og jafnvel mig líka ef þú varst þannig ríðandi. Aldrei skiptir þú skapi, ekki einu sinni þegar ég spurði hvort ég mætti klippa þig og þú sagðir að sjálfsögðu já, haldandi að ég væri bara að fikta í hárinu á þér með puttunum. Það var mamma sem hljóðaði þegar hún sópaði dökkum lokkum undan eldhúsbekknum, ég var vopnuð naglaskærum! En þetta var þér til bóta, sítt að aftan var frekar hallærislegt. Við vorum oft búin að rifja þetta upp síðar meir og gátum alltaf hlegið að þessu.

Ég gleymi því seint þegar foreldrar þínir komu með fullan kassa af barnabókum sem þú vildir gefa mér og Guðleifu systir. Í augum bókaormsins voru þetta einstakir dýrgripir, margir hverjir, sem ég er að lesa fyrir börnin mín í dag.

Leiðir okkar lágu svo saman aftur um 15 árum seinna þegar ég var flutt á höfuðborgarsvæðið. Það var alltaf jafn gaman að hitta þig, þú hafir einstakt lag á því að láta öllum líða vel með jákvæðninni og gleðinni.

Fjölskyldu þinni sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Álfhildur Leifsdóttir.

Fyrir tveimur árum bárust mér fréttir um að þú hefðir verið lagður inn á spítala. Frekar voru óljósar fréttirnar, ég hugsaði með mér: hvaða vitleysa er þetta, en ég rauk í símann og hringdi og svo svaraðir þú móður og másandi: „Blessaður vinur.“ Af mér var fargi létt og spurði hvað væri í gangi. „Ég er að smala hrossunum, við erum að fara á Landsmótið“. Þá sagði ég þér frá þessum fáránlegu fréttum sem höfðu borist til mín. „Já, þetta stemmir, ég var að útskrifast bara fyrir klukkutíma,“ svaraðir þú. Ég varð alveg orðlaus en gat stunið upp: „Ertu ekki í lagi, drengur, að vera á hlaupum eftir hrossum nýkominn af spítala“. „Þetta er í góðu lagi, nú er ég helvíti góður,“ svarar þú hress og kátur.

Svona varstu, alltaf á fullu að stússast eitthvað í hrossum sem voru þitt yndi og hugur.

Þegar þú komst og dæmdir hjá okkur í Svíþjóð fyrir nokkrum árum fékk ég þau forréttindi að sitja sem ritari hjá þér. Þetta voru langir dagar og mikið af hrossum sem voru í keppni. Þegar kvöld var komið, dómi lokið og sest niður og spjallað, barst talið að einkunnagjöf á hrossum frá deginum og kom þá í ljós að þú varst með tölur á öllum hrossunum í höfðinu. „Sko, við gátum ekki gefið þessum brúna sem var í kvöld hærra fyrir tölt en blesóttu merinni sem var í morgun þó að bæði væru haug-bundin“. Spurningin kom: hvers vegna að muna allar þessar tölur? „Jú, ef einhver af knöpunum kemur og er fúll út af einhverri einkunn þá get ég sagt að ef hann hefði riðið hægar á skammhliðunum hefði hann fengið 7,0 í staðinn fyrir 6,5 og þá geta þeir ekki sagt meira.“ Þetta er nú bara eitt dæmi um hversu mikið náttúrubarn þú varst.

Jæja, gamli, það fór sem fór. Að sjálfsögðu bíða eftir þér gömlu snillingarnir Fjölnir, Börkur og Snúður, og nú fá þeir að njóta þess að vera með þér hinum megin.

Við eigum eftir að sakna þín mikið, takk fyrir samveruna, elsku karlinn minn, en vertu viss, við hittumst aftur.

Elsku Alfa mín. Okkar hlýjustu samúðarkveðjur til þín og fjölskyldu ykkar á þessari erfiðu stundu.

Gísli Jónsson og fjölskylda.

Það er ekki farið í manngreinarálit þegar menn í blóma lífsins eru kallaðir frá okkur, nú varð Tommi fyrir kallinu.

Stoltur fjölskyldufaðir með sterkan lífsvilja, frábær drengur með geislandi karakter, umvafinn hlýju, hrókur alls fagnaðar hvert sem hann fór.

Það er eins og gerst hafi í gær þótt fimm ár séu liðin frá 40 ára afmæli hans, þar sem boðið var upp á veislu að hætti afmælisbarnsins, stiklað á stuttu í gamanmáli um lífsferil hans og vakti mikla kátínu.

Tommi var einn af þeim sem hlutu í vöggugjöf náttúruhæfileika sem hestamaður. Þegar hann var 11 ára gamall smápjakkur gerði hann hið ótrúlega á hestbaki og átti létt með að keppa við þá fullorðnu. Á þeim tíma var ekki byrjað að keppa í yngri flokkum eins og gert er í dag. Mörgum keppnismanninum brá í brún þegar strákhvolpurinn kom, sá og sigraði. En aldrei var hann einn því Raggi pabbi og Tommi voru alvöru liðsheild saman. Sá gamli fylgdist með á línunni ábúðarfullur og stoltur, gaf honum fullt af góðum ráðum og trixum sem sá stutti hlustaði hóflega mikið á, valdi úr með sínum hætti og nýtti sér.

Tommi bjó yfir sterkri ró, en ákveðinn og fór sínar leiðir trúr sinni sannfæringu. Velgengni steig honum aldrei til höfuðs, frekar gat pabbinn farið á flug, enda oft ærin ástæða til þegar sá stutti var að landa ýmsum sigrum hérlendis sem erlendis, Evrópu- og Íslandsmeistaratitlum, Íslandsmetum o.s.frv. Miklu hestaláni áttu þeir feðgar að fagna og var Tommi ungur að árum þegar hvern gæðinginn á fætur öðrum rak á fjörur þeirra eins og Hofstaða-Jarp, Þrótt og stórstirnin Fjölni og Börk svo einhverjir séu nefndir.

Við fjölskyldan áttum því láni að fagna að eiga gott vinasamband við foreldrana og fjölskyldu. Þannig urðum við Tommi góðir mátar og unnum ýmislegt saman.

Víst er að fyrir utan fjölskylduna áttu hestarnir hug hans allan. Seinni árin fór hann af fullum krafti að tileinka sér dómstörf hérlendis sem erlendis, þar sá hann að margt mátti betur fara. Þar nýttust náttúruhæfileikar hans vel og jafnframt að gera flókna hluti einfalda. Tommi varð leiðandi sem dómari og gegndi trúnaðarstörfum innan stéttarinnar á Íslandi.

Baráttuna við illvígan sjúkdóm tókst hann á við af æðruleysi, með sterka og samheldna fjölskyldu og stóran vinahóp sér við hlið. Um leið og við vottum fjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur þá vakna bjartar minningar um góðan dreng sem hafði svo sterka og jákvæða áru í kringum sig, var fullur af hlýju, húmor og skemmtilegum uppátækjum. Hann fór í gegnum lífið ljúfur, sterkur og ákveðinn. Frjáls eins og gæðingur á grundum með sjálfið í fararbroddi. Þannig er minningin um Tomma.

Sigurbjörn Bárðarson (Diddi)

og Fríða.

Mín fyrstu kynni af Tomma voru í Árbæjarskóla, hann var „aðaltöffarinn“ í skólanum. Ég kynntist honum svo betur í gegnum hestamennskuna.

Hann var mikill gleðigjafi og þar sem Tommi var, var fjörið líka enda vildu allir vera í kringum Tomma.

Ég fór í þó nokkrar ferðir með honum sem voru þær skemmtilegustu sem ég hef farið í. Ég fór í nokkrar ferðir í Skagafjörðinn með honum þar sem hann heimsótti sveitabæi og þar var alltaf tekið á móti honum eins og höfðingja, enda var hann það. Tíminn var fljótur að líða í bílnum á heimleiðinni þar sem hann var alltaf með skemmtisögur í handraðanum. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt sinn þegar við stoppuðum í vegasjoppu og fengum okkur að borða og þá manaði hann okkur ferðafélagana til þess að fara út án þess að borga. Við tókum þátt en þó með semingi en okkur fannst þetta eitthvað spennandi. Einn og einn fórum við út en Tommi sat eftir og kom svo síðastur út eftir að hafa gengið að kassanum og borgað reikninginn fyrir okkur alla. Hann kom út með sitt einstaka bros og hafði gaman af okkur sem vorum skíthræddir í bílnum. Hann hafði gaman af því að mana okkur. Það var mikið hlegið eftir þetta.

Tomma á ég eftir að sakna, hann litaði heiminn svo skemmtilega með sinni einstöku útgeislun. Ég á margar minningar í minningabók lífsins um hann sem eru mér ómetanlegar.

Ég votta ástvinum hans innilega samúð og bið góðan Guð um að geyma minn góða vin.

Guðjón G. Gíslason.

Ég lifi' í Jesú nafni,

í Jesú nafni' eg dey,

þó heilsa' og líf mér hafni,

hræðist ég dauðann ei.

Dauði, ég óttast eigi

afl þitt né valdið gilt,

í Kristí krafti' eg segi:

Kom þú sæll, þá þú vilt.

Með þessum orðum Hallgríms Péturssonar kveðjum við elsku Tómas. Hann kom inní líf mitt þegar ég var 10 ára gömul en hann sjálfur 15 ára. Þá voru Þóra systir mín og hann orðin kærustupar. Í dag get ég yljað mér við góðar minningar sem ég á um Tomma og fyrir það er ég endalaust þakklát.

Ég man þegar ég og Reynir bróðir lékum okkur á heimili hans, Dofra í Gufunesinu. Hjá foreldrum Tomma þeim Ragnari og Dagnýju voru allir velkomnir og oft margt um manninn. Addi bróðir hans er á sama aldri og við Reynir og fannst okkur gaman að fara í Dofra og leika okkur. Dofri var sem ævintýraheimur í mínum augum þar sem hestarnir gengu frjálsir fyrir utan eldhúsgluggann og hundarnir og kisurnar hlupu um túnin. Eins og allir vita sem þekktu Tomma var hann með hæfileikaríkustu hestamönnum sem við Íslendingar höfum átt og hestamennskan átti hug hans allan. Áhuginn á hestunum erfðist til barna hans og trúi ég því að hann eigi eftir að fylgjast með þeim á vellinum úr stúkusæti í framtíðinni. Gummi og Tommi voru miklir mátar og undu sér vel saman hvort sem var í hesthúsinu, í veiðiferðum, við grillið eða við önnur tilefni. Þeir áttu það sameiginlegt félagarnir að kunna að njóta lífsins og stundarinnar.

Þær eru ófáar sögurnar sem við höfum hlustað á hjá Tomma og veltst um af hlátri. Hann var mikill sögumaður og var fátt skemmtilegra en að hlusta á hann í góðra vina hópi. Tommi var vinur vinna sinna og greiðviknari mann var vart hægt að hugsa sér. Það var sama hvað hann var beðinn um, hann lagði sig alltaf fram um að hjálpa. Við vottum öllum aðstandendum Tomma okkar innilegustu samúð og megi minningin um góðan vin lifa hjá okkur öllum.

Guðrún S. Þrastardóttir

og Guðmundur Björnsson.

Með örfáum fátæklegum orðum langar okkur að minnast vinar okkar Tómasar Ragnarssonar.

Sem unglingur var Tómas dáður og virtur af okkur krökkunum, ekki einungis fyrir að vera yfirburða knapi og náttúrubarn á hesti heldur einnig sem sterkur persónuleiki og foringi í sínum hópi. Upp úr tvítugu tókst svo með okkur náinn vinskapur sem aldrei bar skugga á. Fjölskyldurnar brölluðu margt saman, ógleymanlegar eru grillveislurnar sem stundum voru vandlega undirbúnar en líka stundum hristar fram úr erminni með stuttum fyrirvara og voru ekki síður vel heppnaðar.

Tómas var höfðingi heim að sækja enda var hesthús hans, Svalahúsið eða Latibær eins og það var stundum kallað, ávallt þétt setið. Tómas var frumkvöðull á margan hátt, stofnaði m.a. hinn svonefnda TR-klúbb sem markaði ákveðin tímamót í unglingastarfi hestamannafélaganna á þessum tíma. Þar var hann reiðkennari og foringi og framkvæmdi nýja hluti sem ekki höfðu verið gerðir áður, allir knapar voru í jökkum og með húfur merktar klúbbnum. Í klúbbnum var pláss fyrir alla, keppnisknapa og áhugasama unglinga sem ekki kepptu. Klúbburinn ól af sér marga knapa sem í dag eru í fremstu röð keppnisknapa á Íslandi.

Tommi var einstaklega bóngóður og hjálpsamur maður. Hann var alltaf tilbúinn að aðstoða við allt mögulegt. Þar nutu greiðvikni hans ættingjar, vinir, kunningjar og stundum bláókunnugt fólk. Margt brölluðum við saman, fórum í óteljandi hestaskoðunarferðir austur fyrir fjall, ófá ferðalög til útlanda sem og innanlands, hestaferðalög og svo mætti lengi telja. Sérstaklega er okkur minnisstætt þegar við bjuggum erlendis um tíma og Tómas kom í heimsókn til að aðstoða okkur við að halda hestamannamót. Hann keppti í fimmgangi, dæmdi töltið og töfraði svo fram íslenska villibráðarveislu fyrir 300 manns um kvöldið. Svona var Tómas.

Tómas var undrabarn sem knapi sem unglingur og eftir að hann tók að sér dómstörf gerði hann það af sama metnaði og var einn af okkar allra bestu dómurum, réttsýnn og sanngjarn svo eftir var tekið. Tómas var virtur sem fagmaður um allan heim, bæði sem knapi og alþjóðlegur dómari. Þegar hann talaði um hross eða dómstörf hlustuðu menn af athygli. Hans er minnst víða um heim og við berum kveðjur vina hans erlendis sem ekki áttu heimangengt í útför Tómasar.

Tómas lifði lífinu lifandi, hjá honum var aldrei lognmolla eða leiðindi, það var hreinlega ekki til í hans orðabók. Við erum þakklát fyrir að hafa átt samleið með honum þessi allt of fáu ár og erum stolt af því að telja okkur til hans bestu vina.

Elsku Tómas, við vonum að þú hafir það betra þar sem þú ert nú og lítir til með okkur svona af og til.

Heimurinn er fátækari án manna eins og Tómasar og í hjörtum okkar lifir hann áfram og stórt skarð er komið í vinahópinn. Mestur er þó missir ástvina og ættingja og viljum við votta þeim öllum okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði, Tómas!

Þínir vinir

Hinrik Bragason og Hulda Gústafsdóttir.

Við kveðjum góðan vin með söknuði og trega í hjörtum okkar. Hann var skemmtilegur maður sem gaman var að umgangast, einstaklega aðlaðandi, vinsæll og vinamargur, næmur á menn og hesta, sögumaður góður og gerði óspart grín að sjálfum sér. Einstakur frásagnarhæfileiki leyfði honum að gera létt grín að vinum og kunningjum án þess að á þá væri hallað. Hann öfundaði engan, hann samgladdist öllum, hann lét öllum líða vel í návist sinni.

Tómas var kennari af guðs náð og naut þess að miðla af þekkingu sinni til þeirra sem þurftu á að halda. Við njótum góðs af þekkingu og reynslu Tómasar.

Við gleðjumst yfir öllum þeim hugljúfu og skemmtilegu stundum sem við áttum saman, veislunum í Latabæ, áramótaveislunum, Heimsmeistaramóti í Danmörku, sumrunum á Brekkum, tökutúrum reiðskólahestanna, stóru sleppitúrunum og að ógleymdum öllum hestamótunum, allaf var Tómas hrókur alls fagnaðar.

Guð gefi börnum hans, eiginkonu, foreldrum, fjölskyldu og öllum ástvinum styrk til að takast á við sorgina og söknuðinn. Minningin um Tómas lifir í hjörtum okkar. Hvíl þú í friði, elsku vinur.

Árni, Anna,

Teitur og Agnes Hekla.

Þegar Meistaradeild í hestaíþróttum var stofnuð í upphafi aldar var staðið frammi fyrir því að finna mann í leiðtogahlutverk dómara sem hefði áru er skapaði milda og heiðarlega ásjónu dómstarfa. Um var að ræða eitt af úrslitaatriðum fyrir tilvist deildarinnar, því matsdómar í hestaíþróttum eru ólgusjór eins og þeir vita sem þekkja.

Í sjónhending sáu menn að verkefnið væri auðleyst ef Tómas Ragnarsson tæki það að sér. Tómas var boðinn og búinn til samstarfs og lagði með starfi sínu grunn að farsæld meistaradeildarinnar. Hið viðkvæma starf veittist honum létt. Hann var búinn þeim eiginleikum sem samþjappaðir felast í hinni gömlu og eftirsóknarverðu mannlýsingu: „drengur góður“.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og aðstandenda.

Örn Karlsson.

Það eru mörg ár liðin síðan við Tómas hittumst fyrst. Hann var þá táningur og ég kominn á þrítugsaldurinn.

Gufunesið var okkar uppeldisstaður í hestamennsku. Okkar samskipti og vinátta hefur haldist og aukist eftir því sem aldurinn færðist yfir okkur. Tómas var mjög skemmtilegur karakter og hjartahlýr. Alltaf var mikið líf og fjör í kring um hann hvar sem hann kom var hann hrókur alls fagnaðar. Ef góða veislu gera skyldi þá var hann aðalmaðurinn. Tómas var keppnismaður fram í fingurgóma, bóngóður, náttúrubarn í hestamennsku, frábær knapi og hestadómari. Í mörg ár var ég þeirra forréttinda aðnjótandi að starfa með Tómasi að málefnum hestaíþróttadómara. Þar var Tómas á heimavelli sökum síns mikla skilnings, kunnáttu og reynslu á málefnum hestamanna. Þar vann Tómas mikið og óeigingjarnt starf og eigum við hestamenn honum mikið að þakka. Í hestaheiminum var Tómas stórt nafn. Hvarvetna sem hann kom naut hann virðingar og trausts. Tómas var fjölskyldumaður sem var umhugað um hana. Börn hans tóku virkan þátt í hestamennsku með honum. Oft sá maður Tómas vera að undirbúa þau fyrir komandi keppnir og segja þeim til. Tómas tók virkan þátt í unglingastarfi Fáks og eru þau mörg börnin sem hafa notið krafta hans. Hann var vinamargur og fólk sótti til hans. Stórt skarð hefur nú verið höggvið í vinahópinn. Baráttu Tómasar við illvígan sjúkdóm er lokið. Fram á síðasta dag barðist Tómas og gafst ekki upp þó baráttan væri hörð.

Margs er að minnast þegar maður lítur til baka. Fyrst of fremst er það þakklæti fyrir frábær kynni og góða vináttu.

Fjölskyldu Tómasar sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði vinur.

Hörður Hákonarson.

Minning um Tómas mun lifa, hann var frábær persónuleiki hvort sem var í leik eða starfi. Hann lagði ávallt allan sinn metnað í það sem hann tók sér fyrir hendur, lífsgleðin var hans aðalsmerki og mikill vinur vina sinna. Við þessi erfiðu tímamót er okkur efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast og njóta samleiðar hans og fengið tækifæri að kveðja hann í þá lang ferð sem hann hefur nú lagt í. Tomma kynntist ég þegar við vorum ungir drengir þegar hann kom árlega með Ragnari föður sínum og fjölskyldu á Mánagrund til að keppa, ég þá í Mána en hann í Fáki. Hann hefur alla tíð verið mikill keppnismaður og undra barn í meðhöndlun og færni á hrossum það lék allt í hans höndum. Þó sérstaklega verð ég að nefna þá Börk og Fjölni frá Kvíabekk sem voru í miklu uppáhaldi hjá honum. Börkur var frábær skeiðhestur, það var ótrúlegt það sem þessi ungi myndarlegi drengur gat blind hleyft honum fram á línunni svo bara eitt hnikk og hesturinn skeiðaði ávallt fyrstur í mark með þennan glaða dreng á baki í mörg ár. Allar gömlu kempurnar áttu ekki roð í hann. Það má með sanni segja að Tommi hafi lagt línurnar hvernig átti að hámarka árangurinn í skeiðkappreiðum. Tommi og Fjölnir frá Kvíabekk voru snillingar saman en þeir gerðu garðinn frægan bæði á Íslandi og erlendis í fimmgang. Seinni árin hafði hann mikil afskipti af dómaramálum og var í forustu hestaíþróttadómara og dró okkur félagana til að taka dómaraprófið, það voru ófáar kvöldstundirnar sem við sátum og stúteruðum dóma og sýningar.Við hjónin áttum margar góðar stundirnar með Tomma sem við munum geyma í hjarta okkar, hans verður sárt saknað. Það voru fáir jafn brosmildir.Það voru fáir meiri leiðtogar.Það var enginn skemmtilegri í hópi fólks.Það var enginn meiri grínari.Það var enginn meiri keppnismaður.Það voru fáir betri vinir.Það var enginn betri drengur.Það var enginn annar Tómas.Vertu sæll minn kæri vinur.

Lífið er fallegt, lífið getur verið erfitt en lífið er á stundum svo óendanlega sársaukafullt.

Blessuð sé minning Tómasar Ragnarsonar sem markaði spor í líf okkar allra. Hvíli hann í friði. Minningin um góðan dreng lifir.

Elsku Alfa, Ellý, Ragnar, Rúna og fjölskyldur, ástvinir og ættingjar allir. Megi himnasmiður vefja ykkur ást, alúð og hlýju og styrkja ykkur öll í þessari miklu sorg og þeim mikla söknuði.

Kristinn Skúlason, Drífa Daníelsdóttir og fjölskylda.