Barack Obama skrifar undir nýju lögin
Barack Obama skrifar undir nýju lögin
Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði í gær umfangsmikil lög um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði í gær umfangsmikil lög um starfsemi fjármálafyrirtækja. Tvísýnt var á tímabili hvort frumvarpið kæmist í gegnum báðar deildir þingsins, en það var að lokum samþykkt í öldungadeildinni með stuðningi þriggja repúblikana. Lögunum er meðal annars ætlað að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja og auðvelda yfirvöldum að vinda ofan af þeim sem fara í þrot. Jafnframt er ætlunin að auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir í sínum fjármálum, með sérstöku tilliti til greiðslukorta og húsnæðislána.

Lögin hafa tekið miklum breytingum í meðförum þingsins, en fjármálafyrirtæki hafa barist hatrammlega gegn mörgum ákvæðum þeirra. Óánægju gætir bæði meðal stuðningsmanna endurskoðunar lagaumhverfis fjármálafyrirtækja, sem telja ekki nógu langt gengið, og fjármálafyrirtækjanna sjálfra sem telja starfsemi sinni settar of þröngar skorður. Robert Reich, fyrrverandi ráðherra atvinnumála, segir lögin vera „skrifræðisfjall,“ á meðan umbæturnar sjálfar séu líkastar mauraþúfu í samanburði.