Bú Holugeitungum fer nú fjölgandi og nær fjöldi þeirra hámarki í ágúst. Landsmenn geta því búist við að mæta fleirum það sem eftir er sumarsins.
Bú Holugeitungum fer nú fjölgandi og nær fjöldi þeirra hámarki í ágúst. Landsmenn geta því búist við að mæta fleirum það sem eftir er sumarsins. — Morgunblaðið/Þorkell
Gunnþórunn Jónsdóttir gunnthorunn@mbl.is Skordýrafána landsins er á stöðugri hreyfingu og sífellt að taka breytingum. Sjaldgæfar tegundir eru að verða algengari en áður og nýjar og nýjar tegundir að koma fram.

Gunnþórunn Jónsdóttir

gunnthorunn@mbl.is

Skordýrafána landsins er á stöðugri hreyfingu og sífellt að taka breytingum. Sjaldgæfar tegundir eru að verða algengari en áður og nýjar og nýjar tegundir að koma fram. Hlýnandi loftslag spilar meðal annars stóran þátt í þessum breytingum.

„Það tengist almennt hlýnandi loftslagi en auk þess öllum þessum innflutningi okkar,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Skordýrin koma með skipum og gámum og oft með gróðurvörum. Það er ekki sniðugt dæmi“. Aðspurður hvort hann teldi ástandið slæmt sagði hann að farið væri eftir ákveðinni þumalputtareglu. „Það er nú þumalputtaregla að 10% af nýjum landnemum í löndum eru óæskilegir en hin 90% skipta ekki svo miklu máli og finna bara sitt jafnvægi“.

Skógarmítillinn er blóðsuga sem getur verið hættuleg. Talið er að hann sé landnuminn en það er ekki alveg öruggt, þó er margt sem bendir til þess. Erling segir skógarmítilinn geta verið hættulegan þar sem hann geti borið alvarlega sjúkdóma á milli. „Hann er ekki síst í skóginum og undir gróðrinum en getur leynst hvar sem er“. Að sögn Erlings eru engar nýjar tegundir kóngulóa en hann segir kóngulóna hafa það gott í dag. „Kóngulónni vegnar vel við þessar nýju aðstæður, mikill gróður og mikið skjól. Við erum að búa til kjörlendi fyrir þær,“ segir Erling og bætir við að þær séu alveg meinlausar, að þær veiði aðeins flugur sem flestir hafi óbeit á.

Holugeitungar eru að verða algengari á landinu og fer þeim nú fjölgandi með hverjum deginum. „Ef eitthvað er hefur geitungum fækkað, en nú fer holugeitungum fjölgandi og nær fjöldinn hámarki í ágúst,“ segir Erling. Holugeitungar eru kvikari en aðrir geitungar og árásargjarnari. „En fánan er alltaf að breytast, hún er ekkert stöðug.“