Friðrik Ómar Söngvarinn kemur til landsins og flytur lag sitt „Dáinn úr ást“ á Gay Pride í byrjun ágúst.
Friðrik Ómar Söngvarinn kemur til landsins og flytur lag sitt „Dáinn úr ást“ á Gay Pride í byrjun ágúst. — Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugrún Halldórsdóttir hugrun@mbl.is Kollegarnir Friðrik Ómar og Örlygur Smári frumfluttu lag sitt „Dáinn úr ást“ á heimasíðu hins fyrrnefnda í gærmorgun.

Hugrún Halldórsdóttir

hugrun@mbl.is

Kollegarnir Friðrik Ómar og Örlygur Smári frumfluttu lag sitt „Dáinn úr ást“ á heimasíðu hins fyrrnefnda í gærmorgun. Lagið var samið fyrir Gay Pride-hátíðina, eða Hinsegin daga, sem fer fram í Reykjavík dagana 5.-8. ágúst næstkomandi. Fyrri lög hátíðarinnar hafa notið mikilla vinsælda og er óhætt að segja að engin undantekning verði á því í ár. Söngvarinn Friðrik Ómar, sem er nú búsettur í Stokkhólmi, var nýkominn úr sænskukennslu þegar blaðamaður heyrði í honum hljóðið í gærdag.

Lagið varð til hjá Jónínu Ben

„Ég er búinn að vera að undirbúa þessa síðu í nokkra mánuði, en hún var opnuð í morgun. Ég tók smá forskot á sæluna fyrir helgina, þá hleypti ég hinsegin fólki á síðuna og gaf þeim lagið. En opinberlega ætla ég bara að leyfa fólki að heyra það, ég get því miður ekki gefið þetta svona endalaust, bara út af leyfisskyldum.“

-Fer það svo í spilun á útvarpsstöðvum?

„Já, ef þeir vilja. Þeir ráða því náttúrlega alltaf sjálfir. Maður vonar það besta.“

-Sömduð þið Örlygur Smári lagið í sameiningu?

„Já, ég samdi lagið í janúar 2009 þegar ég var í Póllandi í detoxi hjá Jónínu Ben.“

-Og það hefur haft svona góð áhrif á þig?

„Já,“ segir Friðrik Ómar og skellir upp úr. „Ég var með Árna Johnsen og Gunnari í Krossinum. Þar kom viðlagið, þegar ég svo kom heim þá fór ég til Örlygs og við unnum þetta saman.“

Vildi gera „feel good“-texta

Friðrik Ómar samdi textann við lagið upphaflega á ensku en snaraði honum yfir á íslensku fyrir skömmu.

-Er lagið um einhvern sérstakan?

„Nei, það er um samkyhneigðan strák sem er orðinn ástfanginn og líður afskaplega vel. Mig langaði að hafa þetta jákvæðan og svona „feel good“-texta. Það vill stundum verða barátta og beiskja þegar fjallað er um þessi málefni. Af þessu tilefni langaði mig að hafa þetta svona.“

Friðrik Ómar verður heldur betur í sviðsljósinu á hátíðinni en hann syngur á opnunarhátíðinni í Íslensku óperunni á fimmtudeginum, á stóra sviðinu við Arnarhól á laugardeginum og svo stígur hann á svið með Páli Óskari síðar um kvöldið.

„Á opnunarhátíðinni verð ég með 18 manns á sviðinu. Ég stofnaði sér kór í kringum þetta atriði. Ég fékk vini og kollega úr bransanum og við tökum nokkur af mínum lögum og svo ætlum við að vera með sérstakt tribute til Freddy Mercury.“

Djammar við „This is my life“

-Og ætlarðu svo að fara í göngu?

„Já, ég hef að vísu aldrei tekið þátt í göngunni sjálfri en læt kannski verða af því á næsta ári. Ég hef bara fylgst með, þar sem ég hef verið að syngja og hef þurft að undirbúa mig og svona.“

-Hvað ertu annars að gera í Svíþjóð?

„Ég flutti hingað í lok apríl og er í rauninni að sleikja sólina,“ segir Friðrik Ómar og slær á létta strengi.

„Ég er að taka upp og semja lög. Þá er ég að undirbúa margt fyrir næsta ár. Með tíð og tíma langar mig að syngja hér í Svíþjóð.“

-Eruð þið Regína ekki enn þekkt þar í landi?

„Jú, það er mjög skemmtilegt. Þekktasta íslenska Júróvisjón-stjarnan hérna er þó Jóhanna, hún er spiluð á hverjum degi. Þegar við Regína vorum að keppa þá gáfu þeir okkur fullt af stigum. Lagið er spilað á klúbbunum þegar ég fer út á djammið.“