Fjögur af stærstu olíufyrirtækjum heims hafa ákveðið að koma upp sérstökum viðbragssjóði sem nota á til að kosta undirbúning neyðaraðgerða líkt og þeirra sem BP hefur þurft að grípa til í baráttu sinni við olíulekann þráláta á Mexíkóflóa. Fyrirtækin sem um ræðir eru ExxonMobil, Royal Dutch Shell, Chevron og ConocoPhillips, en þau munu í sameiningu leggja milljarð bandaríkjadala í sjóðinn.
Fyrirtækin fjögur hafa horft upp á vandræðagang BP undanfarnar vikur og mánuði og ætla sér að vera við öllu búin, komi sambærilegt atvik upp á nýjan leik, en almenningsálitið er iðnaðnum mjög andsnúið um þessar mundir. Útspilinu er einnig talið ætlað að kaupa pólitíska velvild þegar kemur að því að veita leyfi fyrir nýjum borunum.