Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
Fundur fulltrúa Landssambands slökkviliðsmanna og sjúkraflutningamanna, LSS, með launanefnd sveitarfélaga í gær var árangurslaus og var honum þá slitið. Mun boðað dagsverkfall því að öllu óbreyttu verða að veruleika á föstudag, að sögn Finns Hilmarssonar, varaformanns LSS. Launanefndin kom ekki á fundinn með nein ný tilboð.
Heimildarmenn segja að sums staðar úti á landi sé mikill uggur í slökkviliðsstjórum vegna yfirvofandi manneklu í verkfalli. En einnig getur staðan orðið erfið á höfuðborgarsvæðinu ef mikill eldsvoði verður eða annað stóráfall, t.d. flugslys.
Liðsmenn LSS hyggjast skila inn boðtækjum sínum á föstudag og ljóst er að alvarleg staða getur komið upp. Ekki verður nein bakvakt. Tekið er fram á lista sem samþykktur er á hverju ári af fulltrúum LSS hvaða störfum beri að gegna komi til verkfalls. Hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins mun starfa undanþágunefnd, skipuð fulltrúum stéttarfélagsins og viðsemjenda. Á hún m.a. að skýra ef þörf krefur þær leikreglur sem vinna á eftir.
„Það hvílir á félögum LSS sú lagaskylda að mæta til vinnu tímabundið í neyðartilvikum þótt þeir séu í verkfalli,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. „En hvernig á ég nú að ná til þeirra? Svigrúmið er lítið. Viðbragðstíminn og mannaflinn skipta öllu. Ef það verður flókið að kalla út mannskapinn getur farið illa.“
Venjuleg vakt, rúmlega 20 menn, dugar alls ekki ef til stórra verkefna kemur, segir Jón Viðar. „Ég minni á að þegar stóri bruninn varð í Lækjargötu og Austurstræti þurfti að kalla út alls um 80 manns.“
LSS bauðst 1,4% kauphækkun frá 1. júlí en samningar hafa verið lausir í tæpt ár. Slökkviliðsmenn eru afar ósáttir og benda á að lögreglumenn fengu nýlega sex prósenta launahækkun. Annað dagsverkfall er fyrirhugað í ágúst og síðan allsherjarverkfall í september.
VERKFALLSBROT