Forskot Aðrar leiðir til framleiðslu frumuvaka nýta bakteríur og dýrafrumur. „Plöntur framleiða sjálfar enga frumuvaka og henta því mjög vel, auk þess sem þær eru mun hagkvæmari leið til framleiðslu í stórum stíl,“ segir Björn Örvar, framkvæmdastjóri ORF, um þá sterku stöðu sem framleiðsluaðferðin veitir fyrirtækinu.
Forskot Aðrar leiðir til framleiðslu frumuvaka nýta bakteríur og dýrafrumur. „Plöntur framleiða sjálfar enga frumuvaka og henta því mjög vel, auk þess sem þær eru mun hagkvæmari leið til framleiðslu í stórum stíl,“ segir Björn Örvar, framkvæmdastjóri ORF, um þá sterku stöðu sem framleiðsluaðferðin veitir fyrirtækinu. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Til að skilja starfsemina hjá ORF líftækni er best að byrja á því smæsta.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Til að skilja starfsemina hjá ORF líftækni er best að byrja á því smæsta. Raunar er grunnurinn að starfinu svo smár að sést ekki nema í bestu smásjám: „Frumuvakar eru lítil prótein, stundum kölluð vaxtaþættir, sem stýra frumuskiptingu og frumusérhæfingu í mannslíkamanum,“ segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF.

Líkja mætti frumuvökum við verkstjóra, sem geta sagt frumunum hvernig þær eiga að hegða sér. Sem dæmi er hægt að nýta frumuvaka til að láta frumur búa til vefi.

Lækningar og fegrun

Stofnendur ORF komu snemma auga á það mikilvæga hlutverk sem frumuvakar gætu leikið í heilbrigðisvísindum. „Fyrirtækið var formlega stofnað í ársbyrjun 2001 og fyrstu árin fóru alfarið í að þróa framleiðslutæknina og meta hvaða prótein ætti helst að fara út í framleiðslu á,“ segir Björn en fyrirtækið setti sína fyrstu vörulínu á markað í lok ársins 2008. „Í dag erum við með 38 svokallaða ISOkín-frumuvaka á markaði og yfir 130 til viðbótar á mismunandi stigum í framleiðslu. Síðasta haust bættust síðan við DERMOkín-frumuvakar sem eru fyrst og fremst hugsaðir fyrir snyrtivörur.“

Það hefur orðið raunin að notkun frumuvaka hefur reynst ómissandi í mörgum mest spennandi læknisrannsóknum síðustu ára. „Upphaflega fundu menn not fyrir frumuvakana við stofnfrumu- og krabbameinsrannsóknir en nú eru þeir mikið notaðir við framleiðslu á mismunandi frumugerðum. Þróunin er komin á það stig, og við eigum eftir að sjá færast í aukana á komandi árum, að afraksturinn af þessum rannsóknum verður notaður í lækningaskyni og t.d. hafa læknar nú þegar notað húðvefi ræktaða með þessum hætti til að græða brunasár. Framtíðin gæti fært okkur meðferðir þar sem frumuvakar eru notaðir sem hluti af meðferð til að laga vefjaskemmdir í líkamanum og jafnvel smíða heilu líffærahlutana.“

Byggið góður kostur

Aðferð ORFs við að framleiða frumuvaka á engan sinn líka í heiminum. „Við erum langstærsta fyrirtæki Evrópu á þessu sviði og eitt af fimm stærstu á heimsvísu sem nota plöntur til framleiðslunnar,“ segir Björn en ORF nýtir erfðatækni til að breyta gerð byggplantna svo þær framleiði tiltekna frumuvaka, sem síðar eru unnir úr fræjum plöntunnar með flóknu hreinsunarferli.

„Í dag eru frumuvakar aðallega framleiddir í bakteríum og spendýrafrumum, þá sérstaklega hamstrafrumum. Vakar úr slíkri framleiðslu þykja í dag síðri þar sem aukin hætta er á að óæskileg aðskotaefni komist í hina endanlegu afurð við vinnsluna, sem gæti skapað sýkingarhættu eða ofnæmisviðbrögð. Plöntur framleiða sjálfar enga frumuvaka og henta því mjög vel, auk þess sem þær eru mun hagkvæmari leið til framleiðslu í stórum stíl.“

Stórt skref framundan

Til þessa hefur ræktun ORFs farið fram í Grænu smiðjunni í Grindavík sem Björn segir henta vel enda framleiðsluferlið þar mjög tæknivætt sem leyfir nákvæma stýringu á öllum aðstæðum. Stefnt er á að hefja afmarkaða ræktun undir berum himni innan tíðar þar sem ræktuð verða sérstök prótein í miklum mæli, en eins og glöggir lesendur muna eflaust þá hafa ekki allir verið á eitt sáttir um þau áform og voru m.a. unnar verulegar skemmdir á tilraunareit ORFs á síðasta ári. „Allt frá 2003 hafa farið fram margskonar rannsóknir á ræktuninni og mikið magn skýrslna og gagna sem eru einróma um að engin hætta muni stafa af ræktuninni,“ áréttar Björn.

Yngjandi frumuvakar?

Dótturfyrirtæki ORFs, Sif Cosmetics, setti fyrir skemmstu á markað sína fyrstu vöru. Er um að ræða húðdropa sem Björn segir að hafi slegið í gegn. „Útflutningur er þegar hafinn til nokkurra landa auk þess sem mörg erlend snyrtivörufyrirtæki hafa sýnt mikinn áhuga á að nota frumuvaka frá okkur í vörur sínar.“

Húðdroparnir eru vökvablanda sem bera á á andlitið fyrir svefninn. „Eins og með alla okkar framleiðslu byggja snyrtivörurnar á vísindalegum rannsóknum og búið að sýna fram á að notkun húðdropanna hækkar rakastig húðarinnar, gerir hana stinnari og gefur henni fallegri áferð,“ útskýrir Björn. „Klíniskar prófanir á fleiri efnilegum frumuvökum standa nú yfir í samstarfi við prófessor í húðlækningum við Kaliforníuháskóla í Los Angeles og verður spennandi að sjá niðurstöðurnar sem ætlað er að liggi fyrir í október.“

Áhættan mikil og ávinningurinn líka

Margt bendir til að aðstandendur ORFs geti verið bjartsýnir á framtíðina og sennilegt að eftirspurn eftir frumuvökum muni aðeins fara vaxandi. Björn bendir þó á að í lækninga- og lyfjageiranum geti ávinningurinn vissulega verið mikill þegar vel tekst til en áhættan sé að sama skapi veruleg. „Fyrstu árin var þetta löng og erfið ganga og starfsemin hefur vaxið hægt og rólega,“ segir Björn en hjá ORFi starfa í dag um 40 manns. „Við fengum til liðs við okkur mjög sterka fjárfesta árið 2005 og tók reksturinn þá stórt stökk fram á við, og við sjáum fram á að fyrirtækið verði í mjög góðri stöðu með haustinu.“

Best í heimi?

Þegar litið er yfir flóru fyrirtækja á heilbrigðissviði er auðvelt að halda því fram að Íslendingar séu þar óvenjuvirkir ef miðað er við höfðatöluna sívinsælu. Er skemmst að minnast fyrirtækja eins og Össurar og Actavis sem gert hafa góða hluti. „Ef finna ætti ástæður fyrir þessu dettur mér helst tvennt í hug: Í fyrsta lagi eru Íslendingar kannski tilbúnari en margir að taka meiri áhættu, hvort sem það er síðan til góðs eða ills. Hins vegar er það svo staðreynd, sem ekki er haldið of oft á lofti, að við sækjum okkur mikið menntun til útlanda, og „pikkum upp“ alls kyns stefnur og strauma allstaðar að úr heiminum,“ útskýrir Björn. „Fólk snýr svo til baka með þetta í farteskinu, og góðar hugmyndir ná að gerjast í því andrúmslofti sem hérna ríkir.“