Vandi „Vilji skjólstæðingurinn fá aðstoð við böðun oftar en einu sinni í viku stendur það yfirleitt ekki til boða, jafnvel þótt hann sé reiðubúinn að greiða aukalega fyrir,“ nefnir Ómar sem dæmi um galla þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
Vandi „Vilji skjólstæðingurinn fá aðstoð við böðun oftar en einu sinni í viku stendur það yfirleitt ekki til boða, jafnvel þótt hann sé reiðubúinn að greiða aukalega fyrir,“ nefnir Ómar sem dæmi um galla þjónustu ríkis og sveitarfélaga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Í lok síðasta árs hóf Öryggismiðstöðin að bjóða upp á nýja heilbrigðistengda þjónustu, undir merkjum dótturfélagsins Heima er best.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í lok síðasta árs hóf Öryggismiðstöðin að bjóða upp á nýja heilbrigðistengda þjónustu, undir merkjum dótturfélagsins Heima er best. „Allt frá stofnun hefur Öryggismiðstöðin þjónustað aldraða og fatlaða með neyðarhnappnum sem tryggir að hægt er að kalla eftir aðstoð tafarlaust komi eitthvað upp á. Erum við í dag eina fyrirtækið sem býður þessum hóp upp á þá þjónustu að í vaktstöð okkar er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Á síðasta ári hófum við að skoða hvað við gætum gert fleira fyrir þennan hóp og úr þeirri vinnu kom þessi hugmynd að samtvinna á einum stað öryggis-, félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldri borgara, fatlaða og sjúka,“ segir Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar. „Sú vinna leiddi svo til stofnunar Heima er best sem Öryggismiðstöðin setti á fót með Helgu Hansdóttur öldrunarlækni.“

Ómar segir þjónustuna fjölþætta: „Í grunninn er um að ræða fjórar lykileiningar. Fyrst er að nefna öryggishlutann sem miðar að því að nota öryggishnappinn og annan tæknibúnað til að tryggja að fólk sé öruggt á eigin heimili. Síðan er félagsleg þjónusta sem felst í heimsóknarþjónustu, aðstoð við þrif, útréttingar og margt fleira,“ útskýrir hann. „Heilbrigðisþjónusta er líka hluti af lausninni og hjúkrunarfræðingur til taks til að aðstoða þá sem á þurfa að halda. Þá starfar Helga Hansdóttir hjá fyrirtækinu og tekur á móti notendum á læknastofu sinni og einnig fer hún gjarnan í heimavitjanir.

Loks er veitt ráðgjöf varðandi breytingar á húsnæði svo að það mæti sem best þörfum og óskum viðskiptavinarins. Oft þarf ekki nema koma fyrir einföldum og ódýrum hjálpartækjum, s.s. handföngum og römpum á réttum stöðum, til að auðvelda fólki verulega að búa áfram heima.“

Skortur á sveigjanleika

Þjónusta við þennan hóp samfélagsins bendir Ómar á að hafi til þessa fyrst og fremst verið í höndum sveitarfélaga og ríkis. „Víða er þar unnið mjög gott starf, en neytendur þjónustunnar kvarta gjarnan yfir litlum sem engum sveigjanleika. Þjónustan er þá í mjög föstum skorðum og allar breytingar og viðbætur erfiðar og illa hægt að mæta sérþörfum hvers og eins,“ segir hann. „Heima er best er notendamiðuð þjónusta og hugsunin sú að einstaklingurinn sé betur staddur fái hann að ráðstafa eftir eigin óskum þeim fjármunum sem samfélagið er tilbúið að leggja honum til við að lifa með fötlun sinni, sjúkdómi eða skertri líkamlegri getu.“

Ómar nefnir sem dæmi að þeir sem þurfi aðstoð við að baða sig eigi oft aðeins kost á böðunaraðstoð einu sinni í viku hjá þjónustustofnunum sveitarfélaganna.

„Vilji skjólstæðingurinn fá aðstoð við böðun oftar stendur það yfirleitt ekki til boða, jafnvel þótt hann sé reiðubúinn að greiða aukalega fyrir. Hjá Heima er best eiga viðskiptavinirnir og aðstandendur þeirra kost á því að greiða hóflegt gjald fyrir viðbótarþjónustu, eða ráðstafa fjárframlagi sveitarfélagsins með hætti sem að hentar þeirra þörfum enn betur.“

Mætti spara milljarða

Ekki er aðeins um það að ræða að hægt sé með aukinni þjónustu að bæta lífskjör fólks og uppfylla betur og með hagkvæmari hætti þarfir þeirra sem þurfa á aðstoð að halda, heldur segir Ómar einnig að verulegur sparnaður geti falist í þvi fyrir ríki og sveitarfélög að gera fólki kleift að búa lengur heima. Hann nefnir að í Svíþjóð hafi verið gripið til svipaðra úrræða og Heima er best og tekist að spara stórar fjárhæðir.

„Samkvæmt opinberum tölum eru um 8,7% Íslendinga 65 ára og eldri á hjúkrunarheimilum, og kostnaðurinn við hvert pláss um 20.000 kr. á sólarhring á meðan kostnaður við að veita mjög góða aðhlynningu heimafyrir er um helmingi lægri,“ útskýrir Ómar. „Með því að bæta heimaþjónustu með markvissum hætti tókst Svíum að fækka öldruðum á hjúkrunarheimilum um u.þ.b. 15% eða sem nemur hér um bil 20.000 plássum. Ef samskonar árangur næðist á Íslandi myndi það þýða sparnað upp á 3,5 milljarða árlega.“

Vandi við sjóndeildarhring

Að óbreyttu segir Ómar óhætt að fullyrða að eftirspurnin eftir plássum á hjúkrunarheimilum muni halda áfram að aukast, og kostnaður ríkis og sveitarfélaga með, enda bendir mannfjöldaspá til að hlutfall landsmanna 65 ára og eldri vaxi úr 14,8% nú upp í 31,4% árið 2050. „Íslendingar standa frammi fyrir risavöxnu verkefni á komandi áratugum, þegar aldurssamsetning þjóðarinnar mun gjörbreytast og öldruðum fjölga til muna hlutfallslega. Nágrannalönd okkar hafa fyrir allnokkru áttað sig á þessu verkefni og hafið fyrirbyggjandi aðgerðir,“ segir hann. „Það má vera öllum ljóst að langdýrasti kosturinn er búseta á hjúkrunarheimili. Það er því til mikils að vinna að gera þessum hópi kleift að búa sem lengst heima við viðunandi öryggi og þjónustu.“