Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Margrét Ákadóttir leikkona nýtti sér litlu listamannanýlenduna í Reykholti þegar hún var að undirbúa leikrit sem tengist sögu staðarins og fékk einnig til liðs við sig hóp leikhúsfólks sem hún hefur unnið mikið með í gegnum tíðina. Verkið Hallveig ehf. var frumsýnt í gömlu kirkjunni í Reykholti um síðustu helgi og verður sýnt þar næstu helgar.
Margrét flutti í Reykholt á árinu 2007. Þar starfrækir hún lítið gistihús og hefur verið að mennta sig í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Svo vill til að hún býr við Hallveigartröð. „Ég fór að hugsa um þennan sögufræga stað og kirkjuna og það kom upp í huga minn að skrifa um ævi Hallveigar Ormsdóttur, seinni konu Snorra Sturlusonar, sem lítið var vitað um,“ segir Margrét.
Margrét ræddi málið mikið við vinkonu sína, Ingu Bjarnason leikstjóra, og þegar Óskar Guðmundsson, nágranni Margrétar úr Reykholti, gaf út sitt mikla verk um ævi Snorra Sturlusonar voru heimildir um Hallveigu orðnar aðgengilegar og það nýtti hún sér. Hún fékk Hlín Agnarsdóttur til að skrifa verkið í samvinnu við sig. Inga leikstýrir og Margrét fer með hlutverk Hallveigar. Margrét segist hafa fengið mikinn stuðning og hvatningu frá Snorrastofu í Reykholti til þess að koma þessu í verk.
Af evrópskum höfðingjaættum
En hvernig kona var Hallveig? „Hún var drottning staðarins, eins og við leggjum hana upp í verkinu. Hallveig var af evrópskum höfðingja- og konungsættum. Hún var uppáhaldsfrilla Snorra og eina samband hans sem var hamingjuríkt því hann syrgði hana mjög,“ segir Inga. Hún bætir því við að stórveldi eins og Snorri hafi þurft annað stórveldi. Hún hafi komið með fjármunina sem Snorri þurfti til að byggja upp veldi sitt en hún hafi einnig verið vel lesin og menntuð kona á þess tíma mælikvarða.Eftir að hópurinn sem Margrét fékk til liðs við sig hafði lokað sig af í Reykholtskirkju í fimm vikur, meðal annars í hitabylgjunni sem verið hefur á Vesturlandi, varð einleikurinn Hallveig ehf. fullskapaður. Titill verksins sýnir að samtíminn speglast í verkinu. Inga minnir á að þjóðveldið hafi hrunið vegna græðginnar á Sturlungaöld. „Manneskjan breytist ekkert,“ bætir hún við og vísar til vorra tíma.
Verkið sýnir einnig skoplegu hliðarnar á lífinu, ekki síst karlasamfélaginu. Leikurinn hefst með því að Hallveig rís úr gröf sinni í Sturlungareitnum, fer í Reykholtskirkju og hefur stolist til að lesa það sem sagt er um hana og Snorra í nýjustu ævisögunni um Snorra og ekki síst kvennamál hans.
Leiðrétta söguna örlítið
Margrét og Inga segja ótrúlega lítið skrifað um konur, jafnvel ríkustu og ættstærstu konur landsins, eins og Hallveigu Ormsdóttur. „Þetta leikrit er viðleitni okkar til að leiðrétta söguna örlítið, gera konunni hærra undir höfði,“ segir Margrét.og samstarfsfólk hennar hefur áhuga á að þróa verkið áfram. Margrét segir að það hafi trúarlega tilvísun og henti vel til flutnings í kirkjum. Fleiri möguleikar eru til skoðunar.
HALLVEIG EHF. SÝND UM HELGINA
Einleikur í gömlu Reykholtskirkju
Hallveig ehf. er sýnd í gömlu kirkjunni í Reykholti um helgar í sumar. Næstu sýningar eru á laugardag og sunnudag en síðarnefndi dagurinn, Jakobsmessa postula, er dánardagur Hallveigar Ormsdóttur. Hún lést 25. júlí 1241, rúmlega fertug.Margrét Ákadóttir fer með hlutverk Hallveigar. Hlín Agnarsdóttir skrifaði leikinn í samvinnu við Margréti og notaði ekki síst upplýsingar um Hallveigu sem fram koma í ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson. Leikstjóri er Inga Bjarnason og Guðrún Magnúsdóttir var aðstoðarmaður leikstjóra á æfingum. Guðrún Þórðardóttir sá um búninga og gervi.
Sýningin tekur um 50 mínútur í flutningi.
Upplýsingar um sýningar er hægt að fá í Snorrastofu, www.snorrastofa.is. Margrét Ákadóttir í Reykholti tekur við pöntunum hópa og einstaklinga en einnig er hægt að kaupa miða við innganginn. Miðaverð er 2500 krónur.
Fosshótel í Reykholti býður upp á veitingar fyrir leikhúsgesti.